Gamal Abdel Nasser
Gamal Abdel Nasser | |
---|---|
جمال عبد الناصر | |
Forseti Egyptalands | |
Í embætti 14. janúar 1956 – 28. september 1970 | |
Forsætisráðherra | Listi
|
Varaforseti | Listi
|
Forveri | Múhameð Naguib |
Eftirmaður | Anwar Sadat |
Forsætisráðherra Egyptalands | |
Í embætti 19. júní 1967 – 28. september 1970 | |
Forseti | Hann sjálfur |
Forveri | Mohamed Sedki Sulayman |
Eftirmaður | Mahmoud Fawzi |
Í embætti 18. apríl 1954 – 29. september 1962 | |
Forseti | Múhameð Naguib Hann sjálfur |
Forveri | Múhameð Naguib |
Eftirmaður | Ali Sabri |
Í embætti 25. febrúar 1954 – 8. mars 1954 | |
Forseti | Múhameð Naguib |
Forveri | Múhameð Naguib |
Eftirmaður | Múhameð Naguib |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. janúar 1918 Alexandría, Egyptalandi |
Látinn | 28. september 1970 (52 ára) Kaíró, Egyptalandi |
Dánarorsök | Hjartaáfall |
Stjórnmálaflokkur | Arabíska sósíalistabandalagið |
Maki | Tahia Kazem (g. 1944) |
Börn | 5 |
Starf | Herforingi, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Gamal Abdel Nasser Hussein (arabíska: جمال عبد الناصر; einnig Jamal Abd an-Nasr) (15. janúar 1918 – 28. september 1970) var annar forseti Egyptalands á eftir Múhameð Naguib og er af mörgum talinn einn helsti leiðtogi araba frá upphafi. Hann var einn helsti málsvari arabískrar þjóðernishyggju á 6. og 7. áratug síðustu aldar þar sem helsta áherslan var á samstöðu araba, ekki hvað síst gegn erkióvini þeirra Ísrael.
Nasser er enn mjög virtur meðal araba, sérstaklega fyrir viðleitni sína til að koma á samfélagsréttlæti og samstöðu araba, nútímavæðingu og andstöðu við heimsvaldshyggju. Forsetatíð hans spannaði einnig menningarlegt blómaskeið á Egyptalandi og mikil iðnaðarstórvirki eins og byggingu Asvanstíflunnar og Helwan-borgar. Gagnrýnendur Nassers benda hins vegar á gerræðislegt stjórnarfar hans, mannréttindabrot og á yfirráð hersins yfir borgaralegum stofnunum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Gamal Abdel Nasser fæddist í Alexandríu í Efra Egyptalandi árið 1918. Hann var sonur smábónda sem hafði hlotið embættisstöðu í egypsku pósthúsi. Nasser var snemma pólitískt þenkjandi og á námsárum sínum stofnaði hann m.a. nefnd nemenda sem skoraði á stjórn landsins að fordæma meðferð Breta á aröbum í Palestínu og grimmilega nýlendustjórn Frakka í Sýrlandi. Nasser útskrifaðist sem liðsforingi úr egypskum herskóla árið 1938.[1]
Árið 1942 var Nasser hækkaður í tign og gerður að höfuðsmanni í egypska hernum. Næstu fjögur árin kenndi hann við ýmsa egypska herskóla. Árin eftir seinni heimsstyrjöld voru mikið ólguskeið í Egyptalandi þrátt fyrir að Egyptar hefðu að mestu verið óvirkir þátttakendur í stríðinu. Efnahagsástand landsins var dræmt, atvinnuleysi mikið og ríkisstjórnin óvinsæl vegna almennrar tilfinningar um að hún lyti stjórn Breta frekar en íbúa landsins. Árið 1948 bættist við almenn gremja vegna niðurlægjandi ósigurs arabaríkja í stríði gegn hinu nýstofnaða Ísraelsríki. Nasser gekk á þessum tíma í hreyfingu „Frjálsra herforingja“ sem sóttust opinskátt eftir stjórnarskiptum og frelsi undan erlendum áhrifum.[1][2]
Valdataka
[breyta | breyta frumkóða]Þann 22. júlí árið 1952 leiddi Nasser byltingu gegn Farúk Egyptalandskonungi ásamt öðrum „frjálsum herforingjum“. Farúk neyddist í kjölfarið til að segja af sér og yfirgefa landið. Eftir stutta „valdatíð“ nýfædds sonar Farúks var Egyptaland lýst lýðveldi og hershöfðinginn Múhameð Naguib varð fyrsti forseti þess. Á forsetatíð Naguibs féll Nasser að mestu í skugga hans en háði valdabaráttu á bak við tjöldin. Nasser og félagar hans vildu halda völdum í höndum hersins og því voru þeir lítt hrifnir af hugmyndum Naguibs um aukna lýðræðisvæðingu. Í nóvember árið 1954 neyddi Nasser Naguib til að segja af sér og lét setja hann í stofufangelsi. Nasser var í kjölfarið lýstur nýr forseti Egyptalands eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1956.
Eftir byltinguna réðst Nasser í stórtækar landeignarumbætur í Egyptalandi. Hann lét meðal annars skipta um 261.000 ekrum af ræktarlandi milli fátækra egypskra bænda og gerði áætlanir um að auka það landrými upp í 566.000 ekrur.[3] Eftir að meðlimur Bræðralags múslima, sem Naguib hafði reynt að vingast við, reyndi að koma Nasser fyrir kattarnef árið 1954 hóf Nasser skipulegar ofsóknir gegn meðlimum þess og lét pynta, fangelsa og drepa marga þeirra. Nasser lét setja upp ýmsar ríkisstofnanir sem voru lýðræðislegar að nafninu til með nýrri stjórnarskrá árið 1956, þar á meðal þjóðþing. Raunverulegt lýðræði var þó afar takmarkað undir stjórn hans og yfirvöld réðu í reynd mestu um útkomur kosninga og atkvæðagreiðslna.[1]
Stuttu eftir að Nasser tók við völdum endurvakti hann gamlar áætlunir um að byggja nýja og stærri stíflu í Nílarfljóti til að tryggja Egyptum stöðugan aðgang að rafmagni og koma í veg fyrir árstíðabundin þurrka- og flóðatímabil. Upphaflega leitaði Nasser á náðir Bandaríkjanna og til Alþjóðabankans til að fjármagna gerð stíflunnar, en árið 1955 lýsti bandaríski utanríkisráðherrann John Foster Dulles því yfir að Bandaríkin myndu ekki fjármagna verkefnið. Egyptar byggðu Asvanstífluna því án aðkomu Bandaríkjamanna en réðu hins vegar til sín verkfræðinga og tæknifræðinga frá Sovétríkjunum.[4] Þótt deilt hafi verið um eiginlega nytsemi stíflunnar, sem var í byggingu frá 1960 til 1970, er ljóst að hún vakti þjóðarstolt hjá Egyptum og sannfærði marga þeirra um að Nasser væri að leiða þjóðina inn í nútímann.[5]
Súesdeilan
[breyta | breyta frumkóða]Vinsældir Nassers í Egyptalandi og arabaheiminum öllum fóru á flug eftir að hann þjóðnýtti Súesskurðinn og vann pólitískan sigur gegn Bretum og Frökkum í Súesdeilunni sem fylgdi í kjölfarið árið 1956. Súesdeilan fór fram með þeim hætti að eftir að Nasser hafði þjóðnýtt Súesskurðinn í þágu Egypta gerðu Ísraelar innrás í Egyptaland og Bretar og Frakkar (sem höfðu skipulagt innrásina fyrir fram ásamt Ísraelum) sendu síðan eigin hermenn til að „grípa inn í“ hernaðardeiluna og endurheimta stjórn á Súesskurðinum. Egypski herinn stóðst innrásarlöndunum ekki snúning, en Egyptum tókst hins vegar að gera skurðinn ónothæfan fyrir Breta og Frakka með því að sökkva fjölda skipa í honum til að stöðva alla skipaumferð í gegnum hann. Innrásarherirnir neyddust síðan til að hafa sig á brott eftir að Bandaríkin hótuðu að beita Breta og Frakka viðskiptaþvingunum fyrir innrásina. Innrásin varð mikil hneisa fyrir Evrópuríkin en hróður Nassers meðal araba fór hins vegar upp í hæstu hæðir.
Aukinn stuðningur við arabísku þjóðernishyggjuna sem hann boðaði leiddi til þess að Egyptaland og Sýrland voru sameinuð í Sameinaða arabalýðveldið undir forsæti Nassers frá 1958 til 1961. Árið 1962 hóf Nasser ýmsar umbætur og nútímavæðingu í sósíalískum anda í Egyptalandi. Nasser hóf annað kjörtímabil sitt sem forseti árið 1965 eftir að andstæðingum hans var bannað að bjóða sig fram.
Sex daga stríðið og lokaár Nassers
[breyta | breyta frumkóða]Þann 14. maí árið 1967 miðlaði Níkolaj Podgornyj, forseti Æðstaráðs Sovétríkjanna, skýrslu til Anwars Sadat, varaforseta Egyptalands, frá sovésku leyniþjónustunni þar sem ranglega var staðhæft að Ísraelar væru að vígbúast fyrir yfirvofandi innrás í Sýrland. Sýrlendingar höfðu rift stjórnarsambandi sínu við Egyptaland sex árum áður en löndin áttu enn í varnarbandalagi og sem nokkurs konar óformlegur leiðtogi arabaþjóðanna taldi Nasser sig knúinn til að bregðast við fréttunum. Nasser sendi hermenn austur á Sínaískaga að landamærum Ísraels til að gera Ísraelum ljóst að ef þeir réðust inn í Sýrland myndi egypski herinn sömuleiðis ráðast á Ísrael. Ísraelar höfðu í raun ekki verið að undirbúa stríð gegn Sýrlandi, en vígbúnaður egypska hersins og herská orðræða Nassers kveikti hins vegar mikinn stríðsæsing milli þjóðanna. Þann 22. maí 1967 lýsti Nasser því yfir að Egyptar myndu loka Tíransundi fyrir ísraelskum skipum, en Ísraelar höfðu áður lýst yfir að þeir myndu líta á slíkt sem stríðsyfirlýsingu.[6]
Í viðtölum lýsti Nasser því yfir að þrátt fyrir vígbúnaðinn hygðust Egyptar ekki ráðast á Ísrael af fyrra bragði, en vegna stríðsæsings síðustu vikna tóku fæstir Ísraelar hann trúanlegan. Þann 5. júní gerðu ísraelskar herflugvélar fyrirbyggjandi árás á herflugvélaflota Egypta, Sýrlendinga og Jórdana og tókst að gereyða honum. Með þessu hófst sex daga stríðið, en þar sem Ísralar höfðu gert út af við flugvarnir andstæðinganna strax í byrjun vann Ísraelsher auðveldan sigur gegn hinum egypska og hertók Sínaískaga á næstu dögum. Þann 11. júní neyddist Nasser til að undirrita vopnahléssamning en þá höfðu Egyptar glatað bæði Sínaískaga og Gasaströndinni í hendur Ísraela.[6]
Eftir þennan niðurlægjandi og afgerandi ósigur gegn Ísrael tilkynnti Nasser að hann hygðist segja af sér sem forseti Egyptalands en hann sneri fljótt aftur til valda þegar fjöldasamkomur mótmælanda fóru fram á að hann sæti áfram. Árið 1968 hafði Nasser skipað sjálfan sig forsætisráðherra, hafið nýtt stríð gegn Ísrael til að endurheimta glötuð landsvæði, byrjað að draga úr stjórnmálavæðingu egypska hersins og hafið ýmsar frjálslyndisumbætur. Eftir lok ráðstefnu Arababandalagsins árið 1970 fékk Nasser hjartaáfall og dó. Fimm milljónir syrgjenda sóttu jarðarför hans í Kaíró og allur arabaheimurinn vottaði samúð sína.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Gamal Abdel Nasser“. Samvinnan. 1. ágúst 1968. bls. 9-15.
- ↑ „Svo felldum við Farouk“. Morgunblaðið. 26. júní 1962. bls. 10.
- ↑ „Gamal Abdel Nasser“. Lesbók Morgunblaðsins. 5. apríl 1964. bls. 2; 6.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 138–140. ISBN 978-9979-3-3683-9.
- ↑ Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð, bls. 145.
- ↑ 6,0 6,1 Vera Illugadóttir. „Sex daga stríðið“. RÚV. Sótt 26. september 2019.
- ↑ Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð, bls. 121.
Fyrirrennari: Múhameð Naguib |
|
Eftirmaður: Anwar Sadat |