Mechelen
Skjaldarmerki | Fáni |
---|---|
Upplýsingar | |
Hérað: | Antwerpen |
Flatarmál: | 65,02 km² |
Mannfjöldi: | 81.927 (1. janúar 2011) |
Þéttleiki byggðar: | 1.257/km² |
Vefsíða: | [1] |
Lega í Belgíu | |
Mechelen (franska: Malines) er borg í Belgíu og er staðsett í héraðinu Antwerpen. Borgin er með 81 þúsund íbúa og skartar gömlum, sögulegum miðborgarkjarna. Íbúarnir eru hollenskumælandi. Nokkrar byggingar borgarinnar eru á heimsminjaskrá UNESCO.
Lega og lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Mechelen liggur við ána Dijle norðarlega í Belgíu en syðst í héraðinu Antwerpen. Næstu stærri borgir eru Brussel til suðurs (20 km), Antwerpen til norðurs (20 km) og Gent til vesturs (60 km). Miðborgin afmarkast við ána Dijle og er nánast hringlaga. Við Dijle er ágætis höfn, þaðan sem flutningaskip geta siglt norður til Antwerpen og þaðan til sjávar.
Nafnafræði
[breyta | breyta frumkóða]Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Mechelen er dregið af orðinu mahal, sem vísar til dómsstaðar eða dómshúss. Elsta heiti borgarinnar er skráð Maalinas á skjali frá 870, síðar Maslinas, Maclines, Machele og loks Mechelen (á 15. öld). Á frönsku heitir borgin enn Malinas. Gælunafn borgarinnar er Dijlestad, þar sem árin Dijle rennur í gegnum hana. Íbúarnir eru ýmist kallaðir Mechelaars eða Maneblussers.
Þjóðsaga
[breyta | breyta frumkóða]Til er þjóðsaga um tilurð þess að íbúar Mechelen eru kallaðir Maneblussers. Kvöld eitt á 17. öld lýsti tunglið á einkennilegan hátt í gegnum turn Rumboltskirkjunnar. Íbúi nokkur, sem fengið hafði sér svolítið neðan í því, taldi að kviknað væri í og gerði viðvart. Íbúar voru vaktir og sendir til að ná í vatn. Eftir drykklanga stund stóðu tugir íbúar í röðum og létu vatnsföturnar ganga mann fram af manni. Það var ekki fyrr en þá sem uppgötvaðist að enginn var eldurinn. Í æsingnum höfðu menn nefnilega ekki haft rænu á því að kanna málið betur. Eftir þetta voru íbúar Mechelen kallaðir Maneblussers og hefur heitið haldist fram á þennan dag. Heitið merkir mánaslökkvarar.
Saga Mechelen
[breyta | breyta frumkóða]Upphaf
[breyta | breyta frumkóða]Saga Mechelen hófst er germanir settust að á svæðinu við fall Rómaveldis. Íbúarnir voru kristnaðir af breska munkinum Rumbold, sem varð að verndardýrðlingi borgarinnar. Bærinn tilheyrði greifadæminu Brabant og veitti Jóhann II greifi honum borgarréttindi 1303. Með þeim réttindum fylgdu markaðs- og verslunarréttindi. Fyrir vikið lenti borgin í mikilli samkeppni við Antwerpen og eimar enn eftir af þessum ríg í dag. 1342 átti sér stað mikill borgarbruni í Mechelen. 1383 eignaðist Búrgund borgina og hófst þá mikil blómatíð í borginni, sem varaði fram að miðri 16. öld. 3. janúar 1474 stofnaði Karl hinn djarfi hæstarétt í borginni sem gilti fyrst fyrir Búrgúnd en síðan fyrir spænsku Habsborgarlöndin (Niðurlönd).
Fyrra fall Mechelen
[breyta | breyta frumkóða]Karl V keisari setti Margréti frá Austurríki sem landstjóri Habsborgar á Niðurlöndum. Hún ákvað að setjast að í Mechelen, sem þar með varð að höfuðborg Niðurlanda, auk þess að vera með hæstarétt eða æðsta dómstig landanna. 1546 átti sér stað stórslys er púðurgeymsla í borginni sprakk í loft upp. Rúmlega 200 manns létu lífið og 600 slösuðust. Á miðri 16. öld hlutu Spánverjar Niðurlönd öll að erfðum. Þegar uppreisn hollensku héraðanna hófst sendu Spánverjar heri til landanna og var barist um ýmsar borgir, bæði í norðurhéruðunum og í suðurhéruðunum. 1572 réðist spænski landstjórinn, hertoginn af Alba, á Mechelen, en borgin hafði opnað hlið sín fyrir Vilhjálm af Óraníu, leiðtoga uppreisnarinnar. Spánverjar réðust inn í borgina með slíkri heift að nær allir borgarbúar voru drepnir á næstu þremur dögum. Þeir rændu öllu steini léttar, nauðguðu, drápu og brenndu borgina í lokin. Eftir á sendi hertoginn af Alba tilkynningu til Filippusar II Spánarkonungs að ‚enginn nagli væri eftir í múrunum.‘ Morðin í Mechelen reyndust vera grimmilegustu atburðir frelsisstríðs Niðurlanda.
Síðara fall Mechelen
[breyta | breyta frumkóða]Eftir þetta var borgin endurreist. Íbúarnir voru enn kaþólskir og héldu tryggð við spænska konunginn. 1580 dró til tíðinda á ný, aðeins átta árum eftir að hún var lögð í rúst. Borgarstjóri Brussel, sem var kalvínisti, safnaði her sem samanstóð mestmegnis af Englendingum og hóf umsátur um Mechelen. Borgarbúar voru varnarlausir og gáfust upp. Englendingar hófu nú að ræna og rupla en drápu þó aðeins 60 íbúa. Eftir það var Mechelen undir stjórn Kalvinista, sem voru hliðhollir Hollendingum, næstu fimm árin. Í síðustu viðleitni sinni til að ná stjórn á borgum uppreisnarmanna réðist spænskur her undir stjórn Alexander Farnese, á Mechelen 1585 og hertók hana. Hún var ein síðasta borgin sem féll fyrir Spánverjum í sjálfstæðisstríði Hollendinga og varð því ekki hluti af Hollandi.
Frakkar
[breyta | breyta frumkóða]Mechelen kom lítið við sögu næstu tvær aldir. Hæstiréttur borgarinnar gilti ekki lengur fyrir landið allt eins og áður, heldur aðeins fyrir héraðið í kring, því búið var stofna nýjan rétt í Brussel. 1794 var Mechelen innlimuð Frakklandi. Frakkar breyttu ýmsu í borginni og þjóðfélaginu. Biskupsdæmið var lagt niður, sem og hæstirétturinn sem starfað hafði í rúm 300 ár. Napoleon meinaði íbúunum að tala hollensku og tók franska því við sem tungumál borgarinnar, að minnsta kosti opinberlega. 1803 sótti Napoleon sjálfur borgina heim. Frakkar hurfu á ný 1814, eftir fyrra fall Napoleons.
Nýrri tímar
[breyta | breyta frumkóða]Iðnbyltingin hófst snemma í Mechelen. 1835 var elsta járnbrautarlína meginlands Evrópu tekin í notkun, en lestirnar keyrðu 20 km vegalengd milli Mechelen og Brussel (elsta járnbrautin var í Englandi). Það voru enda enskir tæknifræðingar sem aðstoðuðu við verkið. Mechelen varð að nokkurs konar miðpunkti fyrir járnbrautarkerfið í Belgíu. 25. ágúst 1914 skutu Þjóðverjar á borgina er þeir réðust inn í Belgíu í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri. Við það eyðilögðust margar gamlar byggingar í miðborginni. Þær voru að mestu leyti endurbyggðar eftir stríðslok 1918. Í síðari heimstyrjöldinni var Mechelen aftur hertekin af Þjóðverjum, að þessu sinni bardagalaust. Nasistar ákváðu að nýta sér hið góða járnbrautarkerfi í Mechelen fyrir gyðinga. Því reistu þeir fangabúðir við borgina, þar sem 28 þús gyðingum frá Belgíu var safnað saman. Þeir voru síðan settir í lestir og fluttir til Auschwitz. Eitt sinn náðu þrír andspyrnumenn vopnaðir einni skammbyssu að stöðva eina lestina. Meðan hún var stopp náðu 233 gyðingar að stökkva út og komast undan. 1944 frelsuðu Bandaríkjamenn borgina eftir mikla bardaga við Þjóðverja. Um 200 manns týndu lífi og margar gamlar byggingar eyðilögðust. Mechelen er enn í dag ein mesta iðnaðarborg Belgíu.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]Ommegang er skrúðganga í tengslum við nokkra atburði frá 15. öld og 16. öld. Fyrst og fremst er verið að halda uppá komu Maximilians keisara til Mechelen (föður Margrétar af Austurríki), en einnig uppá komu Karls V keisara til borgarinnar. Í skrúðgöngunni eru risastórar brúður keyrðar um göturnar á vögnum. Í göngunni er happabrúða borgarinnar, Opsinjoorke, dregin á teppi eftir götunum. Skrúðganga þessi er eingöngu haldin á 25 ára fresti og er á UNESCO-lista yfir munnlegar og óáþreifanlegar erfðir mannkyns.
Hanswijkprocessie er helgiganga með helgimynd af Maríu mey um götur Mechelen. 1272 reið svarti dauði yfir í borginni en borgarbúar læknuðust á undursamlegan hátt að sögn með aðstoð Maríu meyjar. Síðan þá hefur þessi helgiganga farið fram árlega á sunnudegi fyrir uppstigningardag. Fyrir göngunni stendur erkibiskupinn frá Mechelen-Brussel.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Aðalknattspyrnulið borgarinnar eru tvö: KV Mechelen og Racing Mechelen. KV Mechelen er eitt elsta knattspyrnufélag Belgíu, stofnað 1904. Það hefur fjórum sinnum orðið belgískur meistari (síðast 1989), einu sinni bikarmeistari (1987) og vann Evrópukeppni bikarhafa 1988 (sigraði þá Ajax Amsterdam). Racing Mechelen leikur hins vegar í neðri deildum. Besti árangur félagsins er annað sæti í 1. deild árið 1952.
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]Mechelen viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1949) Georges Leekens, knattspyrnuþjálfari
- (1988) Steven Defour knattspyrnumaður
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Rumboltskirkjan (Sint-Romboutskathedraal) er höfuðkirkja borgarinnar og reist til að hýsa líkamsleifar heilags Rumbots. Hún var reist í þremur áföngum. Fyrsti áfangi stóð frá 1200 – 1320 en vígsla kirkjunnar fór fram 1312. Strax þá byrjuðu pílagrímar að streyma til Mechelen til að sjá helgiskrín heilags Rumbolts. Annar áfangi stóð frá 1365 – 1451 og var þá kirkjuskipið hækkað, kórinn fullkláraður og settar upp sjö kapellur. 1451 sótti Nikulás V páfi Mechelen heim og skoðaði kirkjuna. Við það jókst straumur pílagríma til kirkjunnar. Þriðji áfangi stóð 1452 – 1520 og var þá þremur kapellum bætt við og turninn reistur. Hann átti upphaflega að vera 163 metra hár og þar með hæsta bygging heims. En turninn var aðeins 97 metra hár þegar framkvæmdum var hætt. Þegar biskupsstóllin var stofnaður í Mechelen varð Rumboltskirkjan að dómkirkju. Mikið að málverkum eru í kirkjunni, aðallega frá 17. öld, til dæmis eftir Anthonis van Dyck. 1985 sótti Jóhannes Páll II páfi kirkjuna heim. 1999 var hún sett á heimsminjaskrá UNESCO.
- Brusselhliðið er síðasta af tólf borgarhliðum sem enn stendur. Það var reist á 13. öld og sneri til suðurs frá miðborginni, í átt að Brussel. Í dag er hliðið sögusafn með safngripum frá Búrgúnd- og Habsborgartímanum, sem og síðari tíma gripum.
- Savoy-kastalinn (Hof van Savoye) var reistur snemma á 16. öld sem aðsetur Margrétar af Austurríki en hún stjórnaði Niðurlöndum þaðan í nokkur ár. Kastalinn er ein elsta endurreisnarbygging í Norður-Evrópu. Í þessum kastala ól hún upp lítinn frænda sinn, sem síðar varð Karl V keisari. 1513 – 14 dvaldi Anne Boleyn í kastalanum í boði Margrétar, en Anne varð síðar önnur eiginkona Hinriks VIII Englandskonungs. 1561 fluttu erkibiskuparnir í Mechelen inn í kastalann, en á 17. öld flutti hluti af hæstaréttinum þangað inn. Í dag er kastalinn enn notaður sem dómshús.
- Begínuhverfið (Begijnhof) er heiti á gömlu hverfi í Mechelen. Það var reist á 13. öld, fyrir begínur sem störfuðu að líknarmálum án þess að vera nunnur. Húsin hafa haldist ótrúlega vel í gegnum tíðina. Mest skemmdust þau 1572 er Spánverjar rændu og brenndu borgina. Í dag eru húsin aðallega notuð af eldra fólki, listafólki og stúdentum. Begínuhverfið er á heimsminjaskrá UNESCO, eins og flest önnur slík hverfi á Niðurlöndum.
Gallerí
[breyta | breyta frumkóða]-
Brusselhliðið
-
Savoy-kastalinn
-
Götumynd í Begínuhverfinu
-
Borgarhúsin tvö, en þau kallast Djöfullinn og Paradís
-
Gamla ráðhúsið
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Mechelen (stad)“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. október 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Mechelen“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. október 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Mechelen“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. október 2012.