Delft

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Suður-Holland
Flatarmál: 24,08 km²
Mannfjöldi: 100.011 (1. janúar 2014)
Þéttleiki byggðar: 4.153/km²
Vefsíða: www.delft.nl
Lega
Staðsetning Delft í Hollandi

Delft er borg í hollenska héraðinu Suður-Hollandi og er með 100 þúsund íbúa (2014). Delft hefur þróast í að vera næstvinsælasta ferðamannaborgin í Hollandi á eftir Amsterdam, enda er miðborgin ægifögur. Kirkjan Nieuwe Kerk er aðalgreftrunarstaður hollensku konungsfjölskyldunnar.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Delft liggur sunnarlega í Hollandi, mitt á milli borganna Haag og Rotterdam. Til Haag eru 5 km og til Rotterdam 10 km. Til Norðursjávar eru 15 km. Borgin er allt að fjórum metrum fyrir neðan sjávarmáli og eru vindmyllur notaðar til að dæla umframvatninu burt.

Skjaldarmerki og fáni[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Delft er hvítur skjöldur með svartri lóðréttri rönd. Svarta röndin merkir síki (delf á hollensku) og vísar til heitis borgarinnar. Merkið allt var tekið í notkun 1816, skömmu eftir að Frakkar höfðu yfirgefið landið á Napoleonstímanum. Fáninn er eins og skjaldarmerkið, nema hvað búið er að snúa röndunum lárétt. Merkingin er sú sama. Fáninn var tekinn í notkun 1996.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin er nefnd eftir læknum Gantel sem þurrkaður var upp við stofnun bæjarins en lækir eru kallaðir delf á hollensku. Landið í kring heitir Delfland.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Delft eftir brunann mikla 1536. Ljósa svæðið eru hrunin og ónýt hús. Dökka svæðið eru heil hús.

Bærinn Delft var stofnaður af Gottfried greifa af Lorraine um 1071 en hann hóf að grafa skurð fyrir farveg árinnar Gantel sem var við það að þorna upp. Bærinn þróaðist að vera umskipunarbær fyrir alls konar vörur og óx hratt. Vilhjálmur greifi af Hollandi veitti Delft borgarréttindi 1246. Borgin hlaut þó ekki borgarmúra fyrr en við aldamótin 1500. Verslunarvörur í bænum takmörkuðust fyrst við búafurðir en brátt kom vefnaður einnig til, sem og bjór. Til að þurfa ekki að fara með vörur í gegnum Rotterdam (og þaðan til sjávar), enda þurfti að greiða tolla fyrir vörurnar, hófu borgarbúar Delft að grafa skipaskurðinn Delfshavense Schie seint á 14. öld en hann tengdi Nieuwe Maas við Oude Rijn. Við það upplifði borgin mikið blómaskeið í verslun. Í kjörfarið varð Delft að þriðju stærstu borg héraðsins Hollands á eftir Dordrecht og Haarlem. Amsterdam fór þó fram úr þessum borgum árið 1560. Árið 1536 laust eldingu niður í Nieuwe Kerk, sem við það brann. Eldurinn læsti sig í nærliggjandi byggingar og fyrr en varði var hann óviðráðanlegur. Þann dag brunnu 2.300 hús, tveir þriðju allra húsa í borginni, og olli gífurlegri eyðileggingu.

Stríð og annar blómatími[breyta | breyta frumkóða]

Postulínið frá Delft var víðfrægt í Evrópu. Það kallast Delfts Blauw.

Í sjálfstæðisstríði Hollendinga leið borgin mjög efnahagslega. Fyrir stríð voru 140 bruggverksmiðjur í Delft en voru aðeins 25 í stríðslok. Sömu sögu er að segja um vefnaðinn. Hins vegar varð borgin að nokkurs konar miðstöð andspyrnunnar gegn Spánverjum í stríðinu. 1572 gerði Vilhjálmur af Óraníu Delft að aðalaðsetri sínu. Hann bjó í klaustrinu Agathaklooster og var myrtur þar 1584. Hann liggur grafinn í Nieuwe Kerk, ásamt tugum ættmenna síðari tíma. Á 17. öld rann annar blómatími borgarinnar upp er hollenska Austur-Indíafélagið setti upp stórt útibú þar. Mikið magn af austurlenskum vörum voru fluttar til Delft og þaðan til annarra borga. Á þessum árum fæddist málarinn Jan Vermeer, einn þekktasti málari Hollendinga, og málaði myndir af borginni og borgarlífinu. Meðal þeirra vara sem bárust til Delft var postulín frá Kína. Síðla á 17. öld hófu fyrirtæki í Delft að framleiða eigið postulín. Það veitti því kínverska svo mikla samkeppni að postulínið frá Delft var dreift um alla Evrópu og varð víðfrægt.

Delftse donderslag[breyta | breyta frumkóða]

Delft eftir púðursprenginguna miklu 1654. Málverk eftir Egbert van der Poel.

Á miðri 17. öld var mikið vopnabúr sett upp í borginni. Borgarbúar vissu ekki um vopnageymsluna, enda var hún að hluta til neðanjarðar. Þeir fáu sem um hans vissu töluðu um leyndarmál Hollands (Secreet van Holland). Rúmlega 40 tonn af byssupúðri var geymt í tunnum í vopnabúrinu mitt í borginni. Kl. 10:15 þann 12. október 1654 varð gríðarleg sprenging í vopnabúrinu af ókunnum orsökum. Vitað er þó að vopnavörðurinn var niðri í geymslunni að taka prufur af púðrinu. Í sprengingunni létust þó aðeins 1.200 manns, því margir voru úti á markaði og sömuleiðis voru margir að versla í nágrannaborginni Haag. Fjórðungur borgarinnar eyðilagðist, fyrst af sprengingunni sjálfri og svo af völdum bruna. Kirkjurnar stóru stóðu eftir en allar gömlu rúðurnar í þeim brotnuðu af höggbylgjunni. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist alla leið til eyjarinnar Texel sem er í 120 km fjarlægð.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Á tíma iðnbyltingarinnar var Delft ekki í stakk búið að keppa við nágrannaborgirnar Haag og Rotterdam og myndaðist því lítill iðnaður þar. En í borginni var stofnaður tækniskóli 1842, sem seinna var breytt í háskóla. Það var ekki fyrr en með tilkomu járnbrautarinnar 1847 að nokkur iðnaður myndaðist í borginni, aðallega efnaiðnaður. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku Þjóðverjar Delft 10. maí 1940. Við það notuðu Þjóðverjar flugvöllinn við borgarmörkin. Borgarbúar veittu Þjóðverjum nokkra mótspyrnu og týndu um 100 þeirra lífið í bardögum við nasista. 25. nóvember 1940 hófu stúdentar við háskólann mótmæli gegn hersetu nasista og sértaklega að gamlir kennarar við háskólann voru reknir, meðan aðrir, sem voru hliðhallir Þjóðverjum, voru settir í stöðurnar. 190 stúdentar létu lífið allt í allt. Borgin slapp hins vegar við allar loftárásir meðan stríðið geysaði. Á síðustu áratugum hefur borgin stækkað ört. Borgin er mjög vinsæl meðal ferðamanna og er nú svo komið að þangað koma fleiri ferðamenn en til nokkurrar annarrar borgar í Hollandi, fyrir utan Amsterdam.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Frá Westerpop-hátíðinni

Westerpop er tveggja daga popptónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 1989. Ýmsir popptónleikar eru þá í borginni og eru þeir allir ókeypis.

Taptoe Delft er herskrúðganga með lúðrasveitum sem haldin er í september ár hvert. Gangan hefur verið haldin síðan 1954 og taka hermenn frá ýmsum löndum þátt í henni.

Jazz Festival Delft er jazzhátíð sem haldin er á ýmsum stöðum í miðborginni.

Car Art festival er bíla- og listasýning sem haldin er aðra helgi í september.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Delft viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Nieuwe Kerk er næsthæsta kirkja Hollands
  • Nieuwe Kerk (Nýja kirkja) er næsthæsta kirkja Hollands en hún er 109 metra há. Hún er helsti grafarstaður konungsættarinnar í Hollandi.
  • Oude Kerk (Gamla kirkja) er elsta kirkjan í borginni. Hún var reist í áföngum. Elsti áfanginn var reistur á 13. öld en þeir næstu á 14. öld. Turn kirkjunnar er 75 metra hár og hallar um 1,75 m vegna mjúks undirlags. Kirkjan stórskemmdist í brunanum mikla 1536 og í púðursprengingunni 1654. Kirkjan er grafarstaður fyrir ýmsa þekkta menn, svo sem málarann Jan Vermeer og náttúrufræðinginn Antoni van Leeuwenhoek.
  • Gamla ráðhúsið stendur við aðalmarkaðstorgið. Það er í tveimur hlutum: Byggingu í endurreisnarstíl og háan turn. Turninn er frá 1300 og kallast De Steen (Steinninn). Undir honum er gamalt fangelsi. Þar sat morðingi Vilhjálms af Óraníu lengi vel. Aðalhúsið er frá 1618 og hefur að geyma ýmis málverk af þekktum einstaklingum. Húsið var gert upp á 20. öld í upprunalegri mynd. Það er notað fyrir giftingar í dag.
  • Oostpoort er gamalt borgarhlið og vissi það í austur en þaðan er heitið komið. Það var reist um 1400 og er eina borgarhliðið sem enn stendur í Delft. Turnarnir voru hækkaðir um eina hæð 1514. 1962-64 var byggingin gerð upp og komið fyrir vinnustofu fyrir listamenn.
  • Vindmyllan De Roos er sú eina sem eftir er í borginni. Á reitnum hefur staðið vindmylla síðan um miðja 14. öld en núverandi bygging var reist 1727. Eftir endurbætur 1990 malar myllan enn korn.
  • Í Delft er lítið begínuhverfi frá 14. öld þar sem begínur bjuggu í nokkrar aldir. Þær eru allar horfnar núna, en húsin eru almennar íbúðir í dag. Hverfið var lokað af og varð að ganga í gegnum lítið hlið til að komast þangað. Hliðið stendur enn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Delft“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. september 2011.