Fara í innihald

Kyösti Kallio

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kyösti Kallio
Kallio árið 1937.
Forseti Finnlands
Í embætti
1. mars 1937 – 19. desember 1940
ForsætisráðherraAimo Cajander
Risto Ryti
ForveriPehr Evind Svinhufvud
EftirmaðurRisto Ryti
Forsætisráðherra Finnlands
Í embætti
7. október 1936 – 15. febrúar 1937
ForsetiPehr Evind Svinhufvud
ForveriToivo Mikael Kivimäki
EftirmaðurAimo Cajander
Í embætti
16. ágúst 1929 – 4. júlí 1930
ForsetiLauri Kristian Relander
ForveriOskari Mantere
EftirmaðurPehr Evind Svinhufvud
Í embætti
31. desember 1925 – 13. desember 1926
ForsetiLauri Kristian Relander
ForveriAntti Tulenheimo
EftirmaðurVäinö Tanner
Í embætti
14. nóvember 1922 – 18. janúar 1924
ForsetiKaarlo Juho Ståhlberg
ForveriAimo Cajander
EftirmaðurAimo Cajander
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. apríl 1873
Ylivieska, Stórfurstadæminu Finnlandi, rússneska keisaradæminu
Látinn19. desember 1940 (67 ára) Helsinki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurBændabandalagið
MakiKaisa Nivala
Börn6
StarfBankamaður, bóndi
Undirskrift

Kyösti Kallio (10. apríl 1873 – 19. desember 1940) var finnskur stjórnmálamaður sem var fjórði forseti Finnlands frá 1937 til 1940. Hann leiddi landið á tíma vetrarstríðsins.[1] Kallio fól Carl Gustaf Emil Mannerheim yfirstjórn hersins á tíma stríðsins en lék hlutverk sem andlegur leiðtogi þjóðarinnar. Eftir stríðið varð Kallio bæði fyrsti forseti Finnlands til að segja af sér og sá fyrsti til að deyja í embætti, en hann lést úr hjartaslagi á leið heim eftir að hafa tilkynnt afsögn sína.

Kallio var eini forseti Finnlands sem var ekki með háskólagráðu eða sambærilega menntun.[1] Hann var einn af helstu leiðtogum Bændabandalagsins og var fjórum sinnum forsætisráðherra Finnlands og sex sinnum þingforseti.[2][3] Á stjórnmálaferli sínum var hann einnig fimm sinnum landbúnaðarráðherra frá 1917 til 1922, þar á meðal í fyrstu ríkisstjórn Finnlands eftir sjálfstæði og í stjórn hvítliða á tíma finnsku borgarastyrjaldarinnar. Hann stóð fyrir jarðeignarumbótum árið 1922 til að hjálpa leigubændum að eignast eigið ræktarland. Kallio var frambjóðandi í forsetakosningum Finnlands árið 1931 og aftur árið 1937, þegar hann sigraði sitjandi forsetann Pehr Evind Svinhufvud.

Kyösti Kallio fæddist árið 1873 og var af bændaættum. Hann varð sjálfur bóndi þegar hann hafði aldur til og hóf snemma þátttöku í opinberum málum.[4] Kallio var kjörinn á finnska þingið árið 1904 sem meðlimur Bændaflokksins. Hann varð forseti þingsins á tólf þingum eftir árið 1920 og átti þátt í landeignarumbótum þar sem stórjörðum var skipt upp og úthlutað til smábænda.[5]

Kallio varð landbúnaðarráðherra í fyrstu ríkisstjórn Finnlands eftir sjálfstæði landsins frá Rússlandi. Hann varð forsætisráðherra árið 1923 og átti eftir að gegna því embætti fjórum sinnum. Á fyrsta stjórnarári lét Kallio banna starfsemi kommúnistaflokksins í Finnlandi. Þrátt fyrir þetta varð Kallio hataður af finnsku Lappóhreyfingunni, og hrökklaðist frá völdum í þriðja sinn á þeim tíma sem hreyfingin var voldugust árið 1930. Kallio myndaði síðustu stjórn sína haustið 1936 og eitt síðasta verk hans í embætti forsætisráðherra var að tilkynna framboð sitt til forseta.[4]

Kallio sigraði sitjandi forsetann Pehr Evind Svinhufvud í kosningunum 1938 með 177 atkvæðum gegn 104. Auk þingmanna Bændaflokksins hlaut Kallio stuðning frá Jafnaðarmönnum í kjörinu.[4] Barátta Svinhufvuds og Kallios var jafnað við baráttu milli sænskunnar og finnskunnar í Finnlandi þar sem Kallio talaði ekki sænsku.[6]

Vetrarstríðið braust út í forsetatíð Kallios með innrás Sovétríkjanna í Finnland í nóvember 1939. Carl Gustaf Emil Mannerheim var falin stjórn hersins á tíma stríðsins. Þrátt fyrir harða andspyrnu Finna og mikið mannfall Sovétmanna neyddist landið til að gefast upp þann 12. mars 1940 og undirrita friðarsamninga í Moskvu daginn eftir.[7]

Kallio glímdi við slæma heilsu og tilkynnti því í nóvember 1940 að hann hygðist segja af sér og setjast í helgan stein. Risto Ryti var kjörinn nýr forseti af þinginu þann 19. desember. Aðeins fáeinum klukkustundum eftir kjör Ryti hneig Kallio niður fyrir framan heiðursvörð í forsetahöllinni og lést úr hjartabilun.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Sodanajan politiikot Ryti ja Kallio - YLE (á finnsku)
  2. „Ministerikortisto“. Valtioneuvosto. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. maí 2009.
  3. „Edustajamatrikkeli“. Eduskunta. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. febrúar 2012.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Kallio forseti og finnsk stjórnmál“. Nýja dagblaðið. 27. febrúar 1937. bls. 2.
  5. „Kyosti Kallio --- forseti Finnlands“. Vísir. 12. júní 1938. bls. 5.
  6. „Rússar hafa í hótunum við Finna“. Vesturland. 4. nóvember 1939. bls. 172.
  7. Guðmundur Halldórsson; Páll Lúðvík Einarsson (3. desember 1989). „Vetrarstríðið“. Morgunblaðið. bls. 20-21.
  8. „Kallio forseti ljest nokkrum klst. eftir að Ryti var kjörinn eftirmaður hans“. Morgunblaðið. 20. desember 1940. bls. 2; 6.


Fyrirrennari:
Pehr Evind Svinhufvud
Forseti Finnlands
(1. mars 193719. desember 1940)
Eftirmaður:
Risto Ryti