Kyösti Kallio
Kyösti Kallio | |
---|---|
Forseti Finnlands | |
Í embætti 1. mars 1937 – 19. desember 1940 | |
Forsætisráðherra | Aimo Cajander Risto Ryti |
Forveri | Pehr Evind Svinhufvud |
Eftirmaður | Risto Ryti |
Forsætisráðherra Finnlands | |
Í embætti 7. október 1936 – 15. febrúar 1937 | |
Forseti | Pehr Evind Svinhufvud |
Forveri | Toivo Mikael Kivimäki |
Eftirmaður | Aimo Cajander |
Í embætti 16. ágúst 1929 – 4. júlí 1930 | |
Forseti | Lauri Kristian Relander |
Forveri | Oskari Mantere |
Eftirmaður | Pehr Evind Svinhufvud |
Í embætti 31. desember 1925 – 13. desember 1926 | |
Forseti | Lauri Kristian Relander |
Forveri | Antti Tulenheimo |
Eftirmaður | Väinö Tanner |
Í embætti 14. nóvember 1922 – 18. janúar 1924 | |
Forseti | Kaarlo Juho Ståhlberg |
Forveri | Aimo Cajander |
Eftirmaður | Aimo Cajander |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 10. apríl 1873 Ylivieska, Stórfurstadæminu Finnlandi, rússneska keisaradæminu |
Látinn | 19. desember 1940 (67 ára) Helsinki, Finnlandi |
Þjóðerni | Finnskur |
Stjórnmálaflokkur | Bændabandalagið |
Maki | Kaisa Nivala |
Börn | 6 |
Starf | Bankamaður, bóndi |
Undirskrift |
Kyösti Kallio (10. apríl 1873 – 19. desember 1940) var finnskur stjórnmálamaður sem var fjórði forseti Finnlands frá 1937 til 1940. Hann leiddi landið á tíma vetrarstríðsins.[1] Kallio fól Carl Gustaf Emil Mannerheim yfirstjórn hersins á tíma stríðsins en lék hlutverk sem andlegur leiðtogi þjóðarinnar. Eftir stríðið varð Kallio bæði fyrsti forseti Finnlands til að segja af sér og sá fyrsti til að deyja í embætti, en hann lést úr hjartaslagi á leið heim eftir að hafa tilkynnt afsögn sína.
Kallio var eini forseti Finnlands sem var ekki með háskólagráðu eða sambærilega menntun.[1] Hann var einn af helstu leiðtogum Bændabandalagsins og var fjórum sinnum forsætisráðherra Finnlands og sex sinnum þingforseti.[2][3] Á stjórnmálaferli sínum var hann einnig fimm sinnum landbúnaðarráðherra frá 1917 til 1922, þar á meðal í fyrstu ríkisstjórn Finnlands eftir sjálfstæði og í stjórn hvítliða á tíma finnsku borgarastyrjaldarinnar. Hann stóð fyrir jarðeignarumbótum árið 1922 til að hjálpa leigubændum að eignast eigið ræktarland. Kallio var frambjóðandi í forsetakosningum Finnlands árið 1931 og aftur árið 1937, þegar hann sigraði sitjandi forsetann Pehr Evind Svinhufvud.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Kyösti Kallio fæddist árið 1873 og var af bændaættum. Hann varð sjálfur bóndi þegar hann hafði aldur til og hóf snemma þátttöku í opinberum málum.[4] Kallio var kjörinn á finnska þingið árið 1904 sem meðlimur Bændaflokksins. Hann varð forseti þingsins á tólf þingum eftir árið 1920 og átti þátt í landeignarumbótum þar sem stórjörðum var skipt upp og úthlutað til smábænda.[5]
Kallio varð landbúnaðarráðherra í fyrstu ríkisstjórn Finnlands eftir sjálfstæði landsins frá Rússlandi. Hann varð forsætisráðherra árið 1923 og átti eftir að gegna því embætti fjórum sinnum. Á fyrsta stjórnarári lét Kallio banna starfsemi kommúnistaflokksins í Finnlandi. Þrátt fyrir þetta varð Kallio hataður af finnsku Lappóhreyfingunni, og hrökklaðist frá völdum í þriðja sinn á þeim tíma sem hreyfingin var voldugust árið 1930. Kallio myndaði síðustu stjórn sína haustið 1936 og eitt síðasta verk hans í embætti forsætisráðherra var að tilkynna framboð sitt til forseta.[4]
Kallio sigraði sitjandi forsetann Pehr Evind Svinhufvud í kosningunum 1938 með 177 atkvæðum gegn 104. Auk þingmanna Bændaflokksins hlaut Kallio stuðning frá Jafnaðarmönnum í kjörinu.[4] Barátta Svinhufvuds og Kallios var jafnað við baráttu milli sænskunnar og finnskunnar í Finnlandi þar sem Kallio talaði ekki sænsku.[6]
Vetrarstríðið braust út í forsetatíð Kallios með innrás Sovétríkjanna í Finnland í nóvember 1939. Carl Gustaf Emil Mannerheim var falin stjórn hersins á tíma stríðsins. Þrátt fyrir harða andspyrnu Finna og mikið mannfall Sovétmanna neyddist landið til að gefast upp þann 12. mars 1940 og undirrita friðarsamninga í Moskvu daginn eftir.[7]
Kallio glímdi við slæma heilsu og tilkynnti því í nóvember 1940 að hann hygðist segja af sér og setjast í helgan stein. Risto Ryti var kjörinn nýr forseti af þinginu þann 19. desember. Aðeins fáeinum klukkustundum eftir kjör Ryti hneig Kallio niður fyrir framan heiðursvörð í forsetahöllinni og lést úr hjartabilun.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Sodanajan politiikot Ryti ja Kallio - YLE (á finnsku)
- ↑ „Ministerikortisto“. Valtioneuvosto. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. maí 2009.
- ↑ „Edustajamatrikkeli“. Eduskunta. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. febrúar 2012.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Kallio forseti og finnsk stjórnmál“. Nýja dagblaðið. 27. febrúar 1937. bls. 2.
- ↑ „Kyosti Kallio --- forseti Finnlands“. Vísir. 12. júní 1938. bls. 5.
- ↑ „Rússar hafa í hótunum við Finna“. Vesturland. 4. nóvember 1939. bls. 172.
- ↑ Guðmundur Halldórsson; Páll Lúðvík Einarsson (3. desember 1989). „Vetrarstríðið“. Morgunblaðið. bls. 20-21.
- ↑ „Kallio forseti ljest nokkrum klst. eftir að Ryti var kjörinn eftirmaður hans“. Morgunblaðið. 20. desember 1940. bls. 2; 6.
Fyrirrennari: Pehr Evind Svinhufvud |
|
Eftirmaður: Risto Ryti |