Jakob Gíslason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jakob Gíslason
Jakob Gíslason að beita fyrir lax
við Víðidalsá í Steingrímsfirði
um 1960
Fæddur10. mars 1902
Dáinn9. mars 1987
Næstum 85 ára
Borgarspítalanum í Reykjavík
Hvílir í Hólavallagarði.
ÞjóðerniÍslendingur
MenntunPolyteknisk Læreanstalt í Kaupmannahöfn.
StörfRafmagnseftirlitsstjóri, raforkumálastjóri og orkumálastjóri
FlokkurVar vinstri sinnaður, en ópólitískur í starfi.
Maki1. Hedvig Emanuelle Gíslason, fædd Hansen, d.1939 2. Sigríður Ásmundsdóttir
BörnFimm
ForeldrarGísli Ólafur Pétursson og Aðalbjörg Jakobsdóttir
Húsavík, æskuheimili Jakobs
Polyteknisk Læreanstalt við Silfurtorg um 1899
Læknishús Gísla Péturssonar á Eyrarbakka, reist 1916

Jakob Gíslason (10. mars 1902 - 9. mars 1987) var íslenskur verkfræðingur, rafmagnseftirlitsstjóri, raforkumálastjóri frá 1947 til 1967 og orkumálastjóri frá 1967 til 1972.

Æska[breyta | breyta frumkóða]

Jakob fæddist á Húsavík 10. mars 1902 og ólst þar upp til þrettán ára aldurs. Foreldrar hans voru Gísli Ólafur Pétursson [1] frá Ánanaustum í Reykjavík, þá héraðslæknir á Húsavík og síðar á Eyrarbakka og kona hans Aðalbjörg Jakobsdóttir. [2] [3] Faðir hennar var Jakob Hálfdánarson, [4] [5] fæddur á Brenniási á Fljótsheiði austan Jarlsstaða í Bárðardal, bóndi á Brettingsstöðum í Laxárdal í Þingeyjarsveit, síðar á Grímsstöðum í Mývatnssveit, þar sem Aðalbjörg fæddist og loks fyrsti kaupfélagsstjóri Kaupfélags Þingeyinga á Húsavík .

Árið 1914 var Gísla veitt héraðslæknisembættið á Eyrarbakka og 1915 flutti fjölskyldan með skipi frá Húsavík austur fyrir land til Eyrarbakka, nema Jakob og Pétur eldri bróðir hans, sem fluttu til Vigdísar Pétursdóttur systur Gísla og Einars Finnssonar eiginmanns hennar við Klapparstíg 11 í Reykjavík og hófu nám við Menntaskólann í Reykjavík.

Meðal bekkjarbræðra þeirra voru stjórnmálamaðurinn Einar Olgeirsson, Helgi P. Briem sendiherra, skáldið Tómas Guðmundsson og Halldór Guðjónsson frá Laxnesi,sem þó mun hafa hætt fljótlega í MR og snúið sér að ritstörfum og er betur þekktur sem Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness.

Nám[breyta | breyta frumkóða]

Bræðurnir luku stúdentsprófi með miklum ágætum frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1921 og Jakob sigldi um haustið til Kaupmannahafnar og tók próf í forspjallsvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla 1922. Hóf síðan nám í rafmagnsverkfræði við Polyteknisk Læreanstalt, sem heitir nú Danmarks Tekniske Universitet (DTU) og stóð þá við Silfurtorg nærri Botanisk have. Hann tók svokallað verkstæðisár eftir fyrrihluta námsins heima á Íslandi. Jakob lauk verkfræðiprófi snemma árs 1929.

Jón Helgason (prófessor) (f.1899),sem bjó mestalla sína ævi í Kaupmannahöfn, orti 1923 eða 1924 skemmtilegt gamankvæði [6] [7] um verkfræðinemana við Silfurtorg, sem er að finna í sumum útgáfum af ljóðabókum hans. Virðist hann hafa verið hikandi við að birta það opinberlega. Jón sendi kunningjum sínum kvæðið í febrúar 1926 og skrifaði: Í Höfn var ég verkfræðingum heldur andvígur og orti kvæði þeim til háðungar. [6] Frekar virðast verkfræðingar þó hafa talið kvæðið sér til heiðurs og gamans en til háðungar og líta á það sem öfugmælavísur. Alla vega er þeim tamt að vitna í það. [8]

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Þann 30. október 1930 kvæntist Jakob fyrri konu sinni Hedvig Emanuellu Hansen (26. júní 190825. nóvember 1939), sem hann hafði kynnst í Kaupmannahöfn. Foreldrar hennar voru Emanuel Christian Hansen, prentsmiðjueigandi í Kaupmannahöfn og kona hans Ella Andrea Metchen. Þau eignuðust tvo syni. Hedvig veiktist af heilaæxli og sigldi til Kaupmannahafnar til lækninga en lést þar 25. nóvember 1939, aðeins 31 árs að aldri. Um sama leyti lést Gísli faðir Jakobs.

Þann 7. febrúar 1946 kvæntist Jakob seinni konu sinni Sigríði Ásmundsdóttur (6. ágúst 191924. desember 2005). Foreldrar hennar voru Ásmundur Guðmundsson biskup og kona hans Steinunn Sigríður Magnúsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn. Hún var sautján árum yngri en Jakob og lifði hann í átján ár.

Jakob hafði mikla ánægju af laxveiði og leigði hann um árabil ásamt kunningjahópi sínum laxveiðiána Víðidalsá í Steingrímsfirði, rétt sunnan við Hólmavík. Þeir gistu fyrstu árin í góðu yfirlæti hjá fólkinu á bænum að Víðidalsá, en reistu sér síðar lítið veiðihús rétt hjá Þverárvirkjun [9] , þar sem Þverá, sem kemur úr Þiðriksvallavatni, fellur gegnum virkjunina í Víðidalsá [n 1]. Veiðiáhugi Jakobs var þó ekki bundinn við Víðidalsá og hann veiddi að sjálfsögðu líka oft í öðrum ám.

Jakob Hálfdánarson afi Jakobs keypti á sínum tíma jörðina Brettingsstaði í Laxárdal í Þingeyjarsveit, sem liggur meðfram Laxá að austan og að Másvatni að vestan, næsta jörð norðan við Helluvað og Laxárbakka í Mývatnssveit, gegnt Hofstöðum, handan árinnar. Lax gengur lítið eða ekkert upp fyrir Laxárvirkjun og heldur sig í Aðaldalnum, en ofan virkjunarinnar er áin vinsæl fyrir silungsveiði. Jörðina erfðu þrjár dætur Jakobs Hálfdánarsonar og erfði Jakob hluta móður sinnar og Herdísar systur hennar. Að frumkvæði Magnúsar Ásmundssonar læknis á Akureyri, mágs Jakobs, fluttu þeir lítið sumarhús til Brettingsstaða og höfðu fjölskyldur beggja mikla ánægju af því að gista þar, þrátt fyrir að mýið gæti oft verið aðgangshart.

Jakob fékkst stundum við það að setja saman vísur. Einu sinni eftir ánægjulega kvöldstund hjá fjölskyldu Ólafs bróður hans skrifaði Jakob í gestabókina:

Evu, Óla og Lísu
ætla ég þessa vísu,
að þakka tertu, te og rjóma,
tímarit og útvarpshljóma.

Jakobi mun hafa þótt full mikið kapp lagt á smíði kjarnorkuvopna:

Að öryggi mannkyns á allan hátt
ötullega við vinnum.
Og eigum því nægan atómmátt
til að eyða því 50 sinnum.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Að loknu nám vann Jakob um nokkurra mánaða skeið á teiknistofu Titan A/S og síðan hjá Electricitetskommissionen í Kaupmannahöfn.
Á þriðja tug tuttugustu aldar gætti mikils aðhalds í fjármálum ríkisins á Íslandi og íhuguðu verkfræðinemar stundum alvarlega að leita gæfunnar í Ameríku að námi loknu ef engin vinna fengist heima á Íslandi.[10] En til allrar hamingju birti til í atvinnuhorfum verkfræðinga. Jakob kom alfarinn heim til Íslands síðla árs 1929 og hóf störf hjá ríkinu við að rannsaka og gera tillögur um raforkuveitur til almenningsþarfa utan kaupstaða og fleiri ráðgjafarverkefni til undirbúnings rafvæðingar landsins.
Vann að undirbúningi stofnunar Rafmagnseftirlits ríkisins og varð forstöðumaður frá stofnun þess 1. júlí 1933.
Rafmagnseftirlitið fór brátt að fást við mörg fleiri verkefni á sviði orkumála en rafmagnseftirlit.
Ferðaðist vítt og breitt um landið við störf á vegum Rafmagnseftirlitsins.
Var raffræðilegur ráðunautur við byggingu Þjóðleikhússins 1945 og klæðaverksmiðju Gefjunar 1948 auk fleiri bygginga.
Tók virkan þátt í samningu raforkulaga, sem voru samþykkt vorið 1946.
Varð raforkumálastjóri við stofnun embættisins 1947 og stýrði Raforkumálaskrifstofunni.
Þá heyrðu Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK), Héraðsrafmagnsveitur ríkisins og Rafmagnseftirlit ríkisins undir Raforkumálaskrifstofu.
Fékk hæfileikaríka vísindamenn til að stunda rannsóknir á jarðhita, sem leiddi til stofnunar Jarðhitadeildar Raforkumálaskrifstofu.
Tók þátt í samningu nýrra orkulaga, sem tóku gildi 1. júlí 1967. Forskeytinu raf- var nú sleppt framan af nafni laganna þar sem þau voru útvíkkuð til jarðhita og annarra tegunda orku.
Varð orkumálastjóri þegar Raforkumálaskrifstofunni var breytt í Orkustofnun með hinum nýju orkulögum 1. júlí 1967.
Lét af störfum fyrir aldurs sakir 1972.
Upp úr því sem byrjaði sem Rafmagnseftirlit ríkisins, en er nú horfið inn í Neytendastofu, hafa sprottið mörg fyrirtæki og stofnanir. Má þar meðal annars nefna Raforkumálaskrifstofuna sem var breytt í Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet, RARIK ohf og Orkusöluna ehf, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Jarðboranir hf.. Margir verkfræðingar og jarðfræðingar, sem hófu störf hjá þessum fyrirtækjum stofnuðu síðan eigin stofur.

Félags- og trúnaðarstörf[breyta | breyta frumkóða]

Jakob hreifst mjög að jafnaðarhugsjóninni og tók þátt í stúdentapólitíkinni í Kaupmannahöfn, en hætti afskiptum af pólitík þegar hann varð opinber starfsmaður. Hann fór ásamt Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi og hópi fulltrúa helstu stúdentafélaga á Norðurlöndum í kynnisferð til Sovétríkjanna í boði rússneskra stúdenta í júlí 1928 og skrifaði um ferðina í tímaritið Rétt. [11] [12]
Jakob var hvatamaður að stofnun Sambands Íslenskra rafveitna.
Hvatamaður að stofnun Stjórnunarfélags Íslands og formaður þess frá stofnun 1961 til 1973.
Formaður Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) um skeið.
Formaður Rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélagsins (RVFÍ) um skeið.
Sat í stjórn Ljóstæknifélags Íslands í þrjá áratugi.
Stjórnarformaður Gufuborana ríkisins og Reykjavíkurborgar 1956-1984. Gufuboranir voru forveri þess fyrirtækis, sem nú heitir Jarðboranir hf.
Sat í Rannsóknaráði ríkisins 1965-1974
Sat í orðanefnd RVFÍ frá upphafi og var formaður 1963-1984. [13]
Sat í húsráði VFÍ frá 1951 og var formaður 1964-1972.
Auk fjölda annarra félags- og nefndastarfa og annarra trúnaðarstarfa.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 1958.
Stórriddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 1972.
Heiðursdoktor á 75 ára afmæli Háskóla Íslands haustið 1986.
Félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1962.
Gullmerki Verkfræðingafélags Íslands.
Gullmerki Samtaka íslenskra rafverktaka.
Heiðursfélagi VFÍ, RVFÍ, Sambands íslenskra rafveitna, Ljóstæknifélags Íslands, Jarðfræðafélags Íslands og Stjórnunarfélags Íslands.

Neðanmálsgeinar[breyta | breyta frumkóða]

 1. Samkvæmt vef Orkubús Vestfjarða fellur vatnið úr Þverá í Húsadalsá og þeirri staðhæfingu ber saman við kortasjá Landmælinga sem sýnir virkjunina standa við Húsadalsá og sýnir Víðidalsá falla í Húsadalsá úr suðri rétt áður en þær renna saman til sjávar. Mest af veiðinni hefur því farið fram í Húsadalsá þó áin héti Víðidalsá í huga veiðmannanna, ekki síst vegna þess að bærinn, sem þeir gistu á, heitir Víðidalsá.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Pétur Zophoníasson. „Gísli Pétursson (aeeafa)“. Víkingslækjarætt Fyrsta bindi. Skuggsjá, Reykjavík, 1939: bls. 152. .
 2. Guðrún Gísladóttir. „Aðalbjörg Jakobsdóttir“. Móðir mín, húsfreyjan. Skuggsjá, 1978: bls. 131–148. .
 3. Þorsteinn Jónsson. „Aðalbjörg Jakobsdóttir (1g2a3h)“. Reykjahlíðarætt 2. bindi. Líf og saga, Reykjavík, 1993: bls. 581. .
 4. Jakob Hálfdánarson (1982). Sjálfsævisaga - Bernskuár Kaupfélags Þingeyinga. Ísafold, Reykjavík.
 5. Jónas Jónsson frá Hriflu. „Jakob Hálfdánarson“. Aldamótamenn–Þættir úr Hetjusögu 2. bindi. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri, 1960: bls. 51-68. .
 6. 6,0 6,1 Jón Helgason. „Verkfræðingakvæði“. Kvæðabók. Mál og menning, 1986: bls. 213-214. .
 7. ÁB. „Eitt kvæðið fann ég í próförkum“. Þjóðviljinn 30. nóvember 1986. bls. 4-5. Sótt 3. mars 2020.. Verkfræðingakvæði Jóns Helgasonar birtist neðst til hægri á opnunni.
 8. Jakob Gíslason. „Verkfræðingurinn fyrr og nú“. Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1.-2. tbl 1. apríl 1969. bls. 19. Sótt 3. mars 2020.
 9. Helgi M. Sigurðsson (2002). Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, Reykjavík. bls. 68-69.
 10. Bréf Jakobs til foreldra sinna.
 11. Jakob Gíslason. „Úr Rússlandsferð“. Tímaritið Réttur 2. tbl. 1928. bls. 152-177. Sótt 2. mars 2020.
 12. Sveinn Skorri Höskuldsson. „Ævintýr í Moskvu“. Tímariti Máls og menningar 2. tbl. 1982. bls. 213-235. Sótt 2. mars 2020.
 13. Fréttatilkynning. „Formannaskipti í orðanefnd rafmagnsverkfræðinga“. Morgunblaðið. 1. ágúst 1984. Sótt 2. mars 2020.

Heimildir og ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

 • Sveinn Þórðarson. „Rafvæðing landsins - Jakob Gíslason raforkumálastjóri“. Frumherjar í verkfræði á Íslandi. Verkfræðingafélag íslands, Reykjavík, 2002: bls. 221-224. .
 • Þorsteinn Jónsson (ritstj.). „Jakob Gíslason“. Verkfræðingatal Í-Ö. Þjóðsaga, Reykjavík, 1996: bls. 504-505. .

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Raforkumálastjóri
Orkumálastjóri
(19671972)
Eftirmaður:
Jakob Björnsson
Fyrirrennari:
Nýtt starf
Raforkumálastjóri
(19471967)
Eftirmaður:
Orkumálastjóri
Fyrirrennari:
Nýtt starf
Rafmagnseftirlitsstjóri
(19331946)
Eftirmaður:
Stefán Bjarnason