Orkustofnun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orkustofnun (OS)
Rekstrarform Ríkisstofnun
Stofnað 1. júlí 1967
Staðsetning Grensásvegur 9, 108 Reykjavík
Lykilpersónur Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri
Starfsemi Ráðgjöf í orku- og auðlindamálum
Starfsfólk 35
Vefsíða www.os.is

Orkustofnun er ríkisstofnun sem starfar undir yfirstjórn iðnaðarráðuneytisins.

Hlutverk hennar er samkvæmt lögum um Orkustofnun:

  • að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál sem stofnuninni eru falin með lögum og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál
  • að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra
  • að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings
  • að vinna að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og hafsbotnsins
  • að stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum
  • að fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda * og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja
  • að annast umsýslu Orkusjóðs

Að auki skal Orkustofnun annast eftirlit með fyrirtækjum sem starfa samkvæmt raforkulögum (nr. 65/2003). Eftirlit stofnunarinnar varðar setningu tekjumarka og eftirlit með gjaldskrám fyrir sérleyfisstarfsemi raforkufyrirtækja, bókhaldslegan aðskilnað fyrirtækja sem stunda mismunandi starfsemi samkvæmt lögunum og eftirlit með gæði raforku.

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðuþjóðanna (JHS) starfar innan vébanda Orkustofnunar. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) voru fyrrum hluti Orkustofnunar en eru nú sjálfstætt ríkisfyrirtæki.

Forveri Orkustofnunar var Raforkumálaskrifstofan, sem var sett á fót 1946. Henni var breytt í Orkustofnun 1. júlí 1967 um svipað leyti og Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins voru skildar frá henni. [1]

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. Orkustofnun.is, „Saga Orkustofnunar“ Geymt 29 febrúar 2020 í Wayback Machine (skoðað 29. febrúar 2020)