Jaðarþungarokk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jaðarþungarokk (e. alternative metal) er tegund þungarokks og jaðarrokks sem var vinsæl á 10. áratugnum.[1][2]

Tónlistarstefnan heldur í grunneinkenni þungarokks en tekur einnig einkenni annarra stefna. Hljómsveitir sem kenndar hafa verið við jaðarþungarokk blönduðu þungarokki við til dæmis framsækið rokk, bílskúrspönk, fönk, rapp, iðnaðarrokk og ofskynjunarrokk. Margar af helstu sveitum jaðarþungarokksins þykja einkennast af tilraunakenndri tónlist sem notast við hljóð sem áður var að mestu óþekkt innan þungarokksins.[3]

Einkenni stefnunnar[breyta | breyta frumkóða]

Stefnan er blanda af jaðarrokki og þungarokki[4] Margar jaðarþungarokkssveitir notast við melódískan og skýran söng, oft með rapp-ívafi.[2] Stefnan heldur alltaf í öflugt gítarspil þungarokksins,[3] en fær áhrif úr fönkinu í til dæmis bassaleiknum.[1] Trommuspil stefnunnar er oft þungt og hratt. Notast er við margskonar söngtækni en þar mætti nefna melódískan söng, öskur og jafnvel „growl“ eins og tíðkast í dauðarokki.[5]

Stefnan er þess eðlis að erfitt að er að skilgreina hana nákvæmlega. Hún er af mörgum álitin vera einskonar hópur af þungarokkssveitum sem voru tilbúnar til þess að að fara út fyrir hin hefðbundnu mörk þungarokksins og gera tilraunir með það. Einnig álíta sumir jaðarþungarokkið vera einskonar uppfærslu af gamla þungarokkinu.[2][5] Vinsæl undirstefna jaðarrokksins, nýmetallinn, hefur þó skýrari og staðlaðari einkenni.[1] Þar er gítarinn oft aðeins notaður til þess að halda takti, frekar en í til dæmis þau gítarsóló sem tíðkast í hefðbundu þungarokki. Takturinn sem notast er við sýnir skýr einkenni úr fönki og hip-hoppi. Hljómsveitir hafa oft plötusnúða innan raða sinna til að undirstrika þessi áhrif. Mikil vinnsla á tónlistinni tíðkast í nýmetalnum, þar sem hreinn og slípaður hljómur er í hávegum hafður. Mikið er nýst við bjögunareffekta og slíkt á bæði við um hljóðfæraleik og söng til þess að fá fram þann hljóm sem óskað er eftir.[6]

Annar flokkur jaðarþungarokks, rapp-þungarokk, er forveri nýmetals sem ber svipuð einkenni. Rapp-þungarokk er einskonar blanda af rappi, rapp-rokki og þungarokki. Hljóðfæraleikur rapp-þungarokks hefur þungan gítarleik þungarokksins og trommuspil í svokölluðum groove-stíl. Takturinn er miðlungshraður og fer sjaldan í jafn hröð slög og aðrir flokkar þungarokks. Helsti munurinn á rapp-þungarokki og nýmetal er sá að í öllum sveitum rapp-þungarokksins eru aðalsöngvarar rapparar. Hljómsveitin Rage Against The Machine er dæmi um hljómsveit sem tilheyrir þessarri stefnu.[7]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Hljómsveitin Tool að spila á Hróárskelduhátíðinni 2006

Stefnan á líklega upphaf sitt í fönk-þungarokki 9. áratugsins, þar sem þungum gítarleik þungarokksins var blandað við bassastíl fönksins. Jaðarrokksveitir eins og Red Hot Chili Peppers og Fishbone voru í hópi þeirra fyrstu sem blönduðu fönki og þungarokki saman og mótuðu þannig þessa nýju stefnu.[8] Svipuð blanda á þungarokki og fönki kom fram seinna hjá jaðarþungarokksveitunum Living Colour og Faith No More, þó báðar sveitir hafi einnig einkenni úr enn öðrum tónlistarstefnum. Aðrar jaðarþungarokksveitir prófuðu sig áfram með öðrum blöndum eins og til dæmis Jane's Addiction með framsækið rokk og Soundgarden með ofskynjunarrokk. Jaðarþungarokkið þykir hafa verið einskonar svar við hár-þungarokksveitum 9. áratugsins sem voru af mörgum taldar eiga meira skylt við popp. Þessar nýju hljómsveitir sóttust eftir því að sækja í rætur þungarokksins en koma fram með nýjan blæ samtímis því. Í raun má segja að jaðarþungarokkið hafi í upphafi ekki verið nein afmörkuð stefna heldur bara aukinn vilji hljómsveita til þess að prófa sig áfram og gera tilraunir með þungarokk. Þess vegna er flokkunin á upphafssveitum stefnunnar heldur óskýr. Sumar sveitirnar eru einnig grugg, en jaðarþungarokk fékk mikið af vinsældum sínum út frá vinsældum gruggtónlistar.

Um miðjan 10. áratuginn var búið að ryðja brautina fyrir hina nýju tónlistarstefnu og fleiri sveitir sem flokka mátti skýrar undir jaðarþungarokk komu fram. Hljómsveitin Tool gaf út plötuna Undertow 1993, sem þykir vera mjög lýsandi fyrir jaðarþungarokksstefnuna og ruddi enn frekar veginn fyrir sveitir eins og Nine Inch Nails og Rage Against The Machine. Stefnan var þá tekin að skiptast nokkuð upp í þungt jaðarþungarokk eins og Tool spilaði og rapp-þungarokk eins og Rage Against The Machine einkenndust af.[3][2] Sumar af eldri þungarokkssveitum 9. áratugsins höfðu tekið eftir vinsældum stefnunnar og sóttu jafnvel smá innblástur í sveitir jaðarþungarokksins til dæmis Metallica með The Day That Never Comes.[9]

Þegar leið enn frekar á 10. áratuginn var ný-metall að koma á sjónarsviðið og hóf að taka yfir jaðarþungarokkssenuna. Ný-metallinn var mun auðskilgreindari stefna og var með mun ýktari og oft þyngri hljóm og einnig enn sterkari áhrif frá öðrum tónlistarstefnum eins og rappi, iðnaðarrokki og jafnvel raftónlist. Hljómsveitir eins og Korn, Limp Bizkit og Staind tilheyrðu þessarri nýju undirstefnu og hjálpuðu til með að gera jaðarþungarokkið enn vinsælla en það hafði verið áður.[2] Margar af hinum upprunalegu sveitum jaðarþungarokksins vildu þó ekki láta bendla sig við þessa nýju stefnu. Maynard Keenan James, söngvari hljómsveitarinnar Tool, sagði meðal annars að honum líkaði ekki það viðhorf sem tíðkaðist í ný-metalnum.[10] Aðrar sveitir sem þykja einnig hafa verið áhrifamiklar við mótun ný-metalsins eins og hljómsveitin Helmet hafa einnig lýst yfir óánægju við að vera tengdir við stefnuna.[11]

Í upphafi 21. aldarinnar var stefnan gagnrýnd fyrir að vera einhæf og haldið fram að hún væri ekki nema tímabundinn tískufaraldur. Helst átti þetta við um þær sveitir sem einnig heyrðu undir nýmetal. Þetta gæti stafað af því að stefnan var að missa eðli sitt sem jaðarstefna og lítið var um tilraunastarfsemi hjá mörgum sveitum hennar. Frumlegri hljómsveitir héldu þó áfram að fá lof gagnrýnenda eins og System of a Down með plötuna Toxicity.

Í kringum 2010 höfðu vinsældir jaðarþungarokksins minnkað nokkuð mikið, þó margar hljómsveitir sem tilheyrðu stefnunni séu enn starfandi. Einhverjar þeirra hljómsveita sem eftir eru halda áfram að prófa sig áfram og stuðla að áframhaldandi þróun stefnunnar.[3]

Helstu áhrif[breyta | breyta frumkóða]

Jonathan Gold hjá Los Angeles Times skrifaði að jaðarþungarokkshljómsveitir eins og Jane's Addiction og Soundgarden séu undir miklum áhrifum frá þungarokkshljómsveitum 8. áratugsins, Led Zeppelin og Black Sabbath. Hann hélt því jafnframt fram að ef Led Zeppelin og Black Sabbath hefðu gefið tónlist sína út í upphafi 10. áratugsins hefðu þeir verið flokkaðir undir jaðarþungarokk.[12]

Vegna þess hversu oft fönki og rokki er blandað saman í jaðarþungarokki er einnig hægt að segja að Jimi Hendrix hafi haft mikil áhrif á stefnuna. Hann er af mörgum álitinn hafa verið undir áhrifum af fönki og verið meðal þeirra fyrstu til að blanda rokki og fönki saman.[13] Aðrir sem voru frumkvöðlar í því að blanda fönki og rokki saman eru Herbie Hancock og Frank Zappa svo eitthvað sé nefnt.[14][15]

Í jaðarrokki tíðkaðist að blanda saman rokki og öðrum tónlistarstefnum. Á 10. áratugnum voru þar áhrif úr tónlistarstefnum eins og jangle poppi, harðkjarna síðpönki, fönk-þungarokki, pönkpoppi og tilraunarokki. Eftir að gruggsveitin Nirvana sló í gegn mátti enn greina öll þessi einkenni, en sum voru slípuð þannig til að þau hentuðu betur til vinsælda á tónlistarmarkaðnum. Á 10. áratugnum voru því poppeinkennin sem höfðu verið vinsæl á áratuginum áður orðin daufari og þær sveitir sem hölluðust frekar að rokk og pönkeinkennunum urðu ofaná. Vinsældir jaðarþungarokks á 10.áratugnum er hægt að tengja við þessa þróun jaðarrokksins. Hljómsveitir eins og R.E.M., Pearl Jam og The Cure eru dæmi um áhrifamiklar jaðarrokksveitir.[16]

Lollapalooza tónleikahátíðin[breyta | breyta frumkóða]

Trent Reznor, söngvari Nine Inch Nails, á fyrstu Lollapalooza hátíðinni 1991

Lollapalooza hátíðin byrjaði þegar Perry Farrell, söngvari Jane's Addiction, var að skipuleggja kveðjutónleika fyrir hljómsveitina sína. Hugmyndin stökkbreyttist hinsvegar í eina stærstu tónleikahátíð sinnar tegundar í heiminum. Tónleikahátíðin gerði nýjum og hæfileikaríkum tónlistarmönnum kleyft að kynna tónlist sína og gerði jaðarrokk og jaðarþungarokk enn vinsælla en það hafði verið áður. Einnig átti hátíðin stóran þátt í því að ýta undir vinsældir raftónlistar og hip-hopps. Fjölbreyttir tónlistarmenningarhópar komu saman til að hlusta á ólíka tónlistarmenn eins og Nine Inch Nails og Ice T á sama sviði. Fyrir tíma internetsins var þetta einn stærsti vettvangurinn til að kynnast nýrri tónlist.

Tónlistarhátíðin hefur breyst mikið síðan í upphafi þegar gruggsveitir eins og Pearl Jam og Soundgarden stigu á svið. Hún lifir þó enn góðu lífi í dag og skapar enn vettvang fyrir ólíka tónlistarmenn að kynna tónlist sína. Lollapalooza býður upp á mörg svið í dag og yfir 130 tónlistarmenn og hljómsveitir koma fram hvert sinn sem hún er haldin. Hátíðin er enn fjölbreyttari í dag og býður upp á reggítónlist, raftónlist, jaðarrokk, indí-rokk og margt fleira.[17][2]

Sem dæmi um jaðarþungarokkshljómsveitir sem hafa komið fram á Lollapalooza má nefna Jane's Addiction, Living Colour, Nine Inch Nails, Soundgarden, Stone Temple Pilots, Rage Against The Machine, Alice In Chains, Tool og fleiri.[18][19][20]

Helstu jaðarþungarokkshljómsveitir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 „Alternative Metal“. rateyourmusic.com. Sótt 5. mars 2013.
 2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 „Alternative metal“. allmusic.com. Sótt 5. mars 2013.
 3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Grierson, Tim. „Alternative Metal - What Is Alternative Metal?“. about.com. Sótt 5.mars 2013.
 4. Henderson, Alex. „Sourvein Will To Mangle“. allmusic.com. Sótt 5. mars 2013.
 5. 5,0 5,1 „Alt-metal“. last.fm. Sótt 8.mars 2013.
 6. „Nu Metal“. rateyourmusic.com. Sótt 9. mars 2013.
 7. „Rap Metal“. rateyourmusic.com. Sótt 9. mars 2013.
 8. „Funk Metal“. allmusic.com. Sótt 5. mars 2013.
 9. Relative, Saul. „New Metallica - 'The Day That Never Comes' has arrived“. Yahoo! Voices. Sótt 5. mars 2013.
 10. McIver, Joel. „Unleashed: The Story of Tool“. Google Books. Sótt 5. mars 2013.
 11. „Helmet: We're Better Than 99.9% Of The Other Bands Out There“. Ultimate Guitar News. Sótt 5. mars 2013.
 12. Jonathan Gold. „Alternative Metal Bands Follow Zeppelin Lead Records: New releases by Mind Over Four, Warrior Soul, Prong and Flotsam and Jetsam“. Los Angeles Times. Sótt 9. mars 2013.
 13. „Top Ten Funk Rock Bands“. The Top Tens. Sótt 9. mars 2013.
 14. „Herbie Hancock Biography“. 8notes.com. Sótt 9. mars 2013.
 15. „Frank Zappa“. Wilson & Alroy's Record Reviews. Sótt 9. mars 2013.
 16. „Alternative Pop/Rock“. allmusic.com. Sótt 9. mars 2013.
 17. „Lollapalooza: A Rock'N'Roll Review“. lollapalooza.com. Sótt 9. mars 2013.
 18. „Lollapalooza 1991 - Lineup“. lollapalooza.com. Sótt 9. mars 2013.
 19. „Lollapalooza 1992 - Lineup“. lollapalooza.com. Sótt 9. mars 2013.
 20. „Lollapalooza 1993 - Lineup“. lollapalooza.com. Sótt 9. mars 2013.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimasíða Lollapalooza-hátíðarinnar