Grugg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gruggsýning á tónlistarsafni í Seattle.

Grugg eða grunge er tónlistarstefna sem varð til um miðjan 9. áratuginn og sækir uppruna sinn til norðvesturhluta Bandaríkjanna og þá aðallega til Seattle. Stefnan varð ekki vinsæl fyrr en á 10. áratugnum og hélt vinsældum fram undir miðjan áratuginn. Stefnan er undirstefna jaðarrokks og er nokkurs konar blanda af pönki, þungarokki og indie-rokki. Söngvari Green River og seinna Mudhoney, Mark Arm, er almennt talinn vera sá fyrsti sem kom með hugtakið „grunge“ yfir svona tónlist þegar hann lýsti hljómsveitinni sinni sem „pure shit, pure noise, pure grunge!“, eða tómum skít, hávaða og óhroða. Þetta ku vera fyrsta skiptið sem orðið var notað yfir sveit frá Seattle en síðan varð þetta almennt hugtak yfir þessa gerð af tónlist sem kom undantekningarlítið frá Seattle. Reyndar var þetta hugtak notað í Ástralíu á níunda áratugnum yfir pönk- og jaðarsveitir svo sem King Snake Boost og The Scientists.

Einkenni og áhrif[breyta | breyta frumkóða]

Eins og áður kom fram er grugg samblöndun af þungarokki, pönki og jafnvel sjálfstæðu rokki, þó að hlutföllin séu misjöfn eftir hljómsveitum. Hinir myrku tónar gruggsins áttu rætur sínar til hljómsveita á borð við Black Sabbath og The Stooges en textarnir áttu margt skylt með pönkinu.[1] Samfélagsleg firring, frelsisþrá, sljóleiki, angist og fleira í þeim dúr einkenndu textana en þó var stundum húmor og háð í þeim, til dæmis í laginu „Big, Dumb Sex“ með Soundgarden, þar sem sveitin gerir grín að glysrokki.

Gruggtónleikar voru þekktir fyrir að vera blátt áfram, öfugt við glysið sem snerist mikið um öfluga sviðsframkomu og tilþrifamikil ljósa-„show“. Gruggsveitum fannst að meginatriðið væri tónlistin sjálf en ekki áðurnefnir hlutir og litu ekki á sjálfa sig sem skemmtikrafta heldur tónlistarmenn.

Grugg byrjaði að þróast upp úr pönkmenningu norðvesturhluta Bandaríkjanna með áhrifum frá hljómsveitum þaðan á borð við The Fastbacks, The U-Men, The Accused og 10 Minute Warning. Melvins eru frá Seattle og þeir höfðu einnig mikil áhrif á grugg. Sveitir annars staðar frá höfðu einnig áhrif á þróun stefnunnar, til dæmis jaðarhljómsveitirnar Sonic Youth, Dinosaur Jr. og Pixies. Pixies spiluðu mikið „slow verse, hard chorus“ og Kurt Cobain sem var mjög hrifinn af þeim gerði þetta vinsælt í jaðarrokki og grugg með hljómsveitinni sinni, Nirvana. Gruggsveitir sóttu einnig innblástur í þungarokk áttunda áratugarins, platan My War (1984) eftir pönksveitina Black Flag var mikill áhrifavaldur og svo sveitirnar Killdozer, Flipper, Bauhaus og fleiri. Tónlistarmaðurinn Neil Young hefur verið kallaður guðfaðir gruggsins og hafa Kurt Cobain úr Nirvana og Eddie Vedder úr Pearl Jam sagt hann hafa verið mikinn áhrifavald.

Jerry Cantrell úr Alice in Chains

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi þróaðist grugg upp frá hljómsveitum sem voru að spila tónlist og fengu áhrif frá hverri annarri ásamt annarri rokk og pönktónlist. Fólk hittist gjarnan inni á litlum stöðum og fylgdist með hljómsveitum spila og hljómsveitir fengu jafn vel plötusamning hjá litlum sjálfstæðum plötufyrirtækjum. Sub Pop Records er plötufyrirtæki sem var stofnað árið 1986 og varð frægt fyrir að ráða Mudhoney, Nirvana, Soundgarden og fleiri sveitir frá Seattle á samning. Það átti sinn þátt í að gera grugg vinsælt, eitt fyrsta ætlunarverk þess var að koma Soundgarden á kortið. Útgáfan stofnaði líka „Sub Pop smáskífuklúbbinn“ (e: Sub Pop Singles Club) árið 1988 þar sem smáskífur komu út í takmörkuðu magni. Árið 1989 kom blaðamaðurinn Andy Catlin til Seattle og fóru Jonathan Poleman og Bruce Pavitof frá Sub Pop með honum á Mudhoney-tónleika og sýndu honum borgina. Eftir þetta skrifaði Catlin stór grein um tónlistarmenninguna í Seattle sem birtist í breska blaðinu Melody Maker. Þetta átti eftir að draga athygli fólks utan Seattle að gruggi og fleira fólk mætti á litlu tónleikana, sem áður voru oft mjög fámennir.[2]

Velgengni[breyta | breyta frumkóða]

Hægt og bítandi voru gruggtónlistarmenn að festa sig í sessi í tónlistarheiminum. Soundgarden var fyrsta gruggsveitin sem fékk samning hjá stóru útgáfufyrirtæki, hjá A&M Records árið 1989. Nirvana, sem áður höfðu gefið út plötuna Bleach hjá Sub Pop Records, fengu plötusamning hjá Geffen Records árið 1990. Nevermind var fyrsta plata þeirra hjá Geffen og var aldrei búist við því að hún myndi seljast jafn vel og raun ber vitni. Í fyrstu var haldið að hún myndi í besta lagi ná ágætri sölu eins og platan „Goo“ með Sonic Youth sem kom út árinu áður, enda var Nirvana á þeim tíma lítil hljómsveit frá smábænum Aberdeen í Washington. MTV spilaði hins vegar lagið „Smells Like Teen Spirit“ mjög mikið þannig að sveitin varð heimsfræg á nánast einni nóttu. Um jólaleitið 1991 seldust 400.000 eintök af plötunni á viku og Kurt Cobain var allt í einu orðinn talsmaður heillar kynslóðar. Í janúar 1992 ruddu Nirvana plötu Michael Jackons, „Dangerous“, af fyrsta sæti Billboard listans og má segja að platan hafi komið gruggi á kortið.

Velgengni Nevermind kom tónlistarheiminum mjög á óvart, ekki aðeins höfðu Nirvana með útgáfu plötunnar gert gruggstefnuna þekkta um allan heim heldur einnig jaðarrokk yfir höfuð. Vinsældir glysrokks hrakaði stórlega og dóu eiginlega og gruggið tók við sem vinsælasta rokktónlistin. Pearl Jam höfðu gefið út plötuna Ten í ágúst 1991 en hún fór ekki að seljast neitt af viti fyrr en ári seinna og náði þá öðru sæti á Billboard listanum. Badmotorfinger með Soundgarden, Dirt með Alice in Chains og Temple of the Dog með samnefndri hljómsveit (með meðlimum úr Soundgarden og Pearl Jam) voru allt gruggplötur sem voru einar af 100 mest seldu plötunum í Bandaríkjunum 1992. Sveitunum frá Seattle gekk svo vel að borgin var stundum kölluð „nýja Liverpool“. Allar mest áberandi gruggsveitirnar (Pearl Jam, AIC, Nirvana og fleiri) fengu plötusamning hjá stórum útgáfufyrirtækjum en þær sem voru lítið þekktar fluttu til Seattle í von um að slá í gegn.

Gruggfatnaður var markaðsettur og seldust skíðahúfur, flannel-skyrtur o.s.frv. dýrum dómum og var stefnan og allt sem henni við kom blóðmjólkað af fjölmiðlum, líkt og hippatískan á sjöunda áratugnum. Í desember 1992 hringdi blaðamaður frá New York Times í Sub Pop Records og vildu fá að vita hvort það væri eitthvað sérstakt slangur sem væri notað meðal gruggrokkara. Megan Jasper, starfsmaður hjá Sub Pop, bjó til heilan lista af bullorðum sem voru prentuð í blaðinu. Þegar upp komst að þetta var allt tóm vitleysa sást greinilega hversu ofurmarkaðsett stefnan var.[2]

Árið 1992 kom út kvikmyndin Singles þar sem grugghljómsveitir og meðlimir þeirra áttu innkomu og í lagalista myndarinnar var tónlist innan stefnunnar. Sveitin Screaming Trees átti þar smellinn You Nearly Lost Me.

Frægðin var mörgum gruggtónlistarmönnum til ama, til dæmis Pearl Jam, en frægðin lenti mikið á söngvaranum Eddie Vedder. Kurt Cobain var með allra frægustu tónlistarmönnum samtímans en fyrirleit frægðina og sagði eitt sinn í viðtali að það hafi verið það seinasta sem hann vildi verða. Næsta plata Nirvana var harðari en sú fyrri og þar af leiðandi tormeltari fjöldanum. En það breytti engu, In Utero toppaði Billboard-listann í sama mánuði og hún kom út, í september 1993. Önnur plata Pearl Jam, Vs., kom út sama ár og naut gríðarlegrar velgengni. Hún náði metsölu, tæp milljón eintök seldust fyrstu vikunna sem hún kom út sem var meira en allar aðrar plötur á topp 10 lista vikunnar samtals og flaug upp í fyrsta sæti Billboard-listans.

Dvínandi vinsældir[breyta | breyta frumkóða]

Það voru nokkrir þættir sem gerðu það að verkum að vinsældir stefnunnar fóru minnkandi. Síð-grugg (Creed o.fl.) var á mikilli uppleið, en innan þeirrar stefnu voru sveitir sem voru ekki frá Seattle og höfðu ekki ræturnar sem gruggsveitirnar höfðu. Tónlistin var svipuð og hljómsveitirnar gengu í eins fötum en tónlistin var léttari og útvarpsvænni. Britpop var á uppleið í Bretlandi, og voru tónlistarmenn innar þeirrar stefnu ekki að fela álit sitt á gruggi. Einn meðlimur Blur sagði til dæmis að sveitin spilaði andgrugg og Liam Gallagher úr Oasis sagðist ekkert vilja með svona þunglyndislega tónlist að hafa.

Gruggsveitir fóru smátt og smátt að hætta eða urðu eftirtektarminni. Kurt Cobain fannst frægðin mjög erfið og var djúpt sokkinn í eiturlyf. Hann varð þunglyndari með degi hverjum og fór svo að hann fannst látinn á heimili sínu í Seattle, 8. apríl 1994, eftir að hafa skotið sig þrem dögum áður. Sama ár og Nirvana sungu sitt síðasta fóru Pearl Jam að sniðganga alla tónleika sem miðasölufyrirtækið Ticketmaster sá um vegna þess að fyrirtækið var ósanngjarnt í viðskiptum. Þeir hættu við tónleikaferðalagið sem átti að vera um sumarið og vegna þess að þeir vildu ekki spila á tónleikum ef Ticketmaster kæmu að hlut spiluðu þeir nánast ekkert opinberlega næstu þrjú árin. Alice In Chains héldu sína seinustu tónleika með söngvaranum Layne Staley árið 1996 en hættu ekki formlega fyrr en árið 2002, þegar Staley dó úr ofskammti af heróíni.

Alice in Chains komu saman aftur árið 2005 með nýjan söngvara, William Duvall og hafa starfað síðan. Soundgarden hættu árið 1997 en komu saman aftur 2010 og gáfu nýja plötu út.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Grunge Allmusic
  2. 2,0 2,1 „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. ágúst 2007. Sótt 12. mars 2012.