Fara í innihald

Henrik Hielmstierne

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Henrik Hielmstierne. Undir myndinni eru minningarorð á latínu eftir Luxdorph.

Henrik Hielmstierne (1. janúar 171518. júlí 1780) var íslensk-danskur embættismaður, aðalsmaður, sagnfræðingur og bókasafnari.

Hann hét Henrik Henrichsen, en var aðlaður 1747 og tók sér þá nafnið Hielmstierne. Hann fæddist í Kaupmannahöfn 1715. Faðir hans, Niels Henrichsen (d. 1745), var auðugur kaupmaður með íslenskar rætur. Móðir hans hét Agnete Birgitte Henrichsen, fædd Finkenhagen (d. 1763).

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Faðir Henriks, Níels eða Nikulás Henriksson, var „erfiðismaður á Reyðarfirði“ [1], fór svo til Kaupmannahafnar, kom þar vel undir sig fótunum og varð Íslandskaupmaður, líklega á Austfjörðum. Hann auðgaðist mjög á verslun sinni og komst til metorða í Kaupmannahöfn, varð þar borgarráðsmaður og síðar jústitsráð og varaborgarstjóri. Hann dó 9. október 1745. Óvíst er hverrar ættar hann var.

Æskuár[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrarnir lögðu sig fram um að veita börnum sínum gott uppeldi og bestu menntun sem völ var á. Henrik fékk heimakennslu undir leiðsögn tveggja prófessora í guðfræði, og var hann 18 ára gamall tekinn í Kaupmannahafnarháskóla. Tveir heimilisvinir, Hans Gram og Andreas Hojer, voru ráðgjafar um val á kennurum. Sá síðarnefndi bjó í húsinu og hafði mikil áhrif á Henrik.

Þó að Henrik hafi hugsaði sér að fara í utanríkisþjónustuna, nam hann guðfræði og brautskráðist 1736. Dagleg samskipti við Andreas Hojer og annan bókavin og safnara, kaftein Schulenburg, sem einnig bjó í húsinu, vöktu áhuga Henriks á sögu og sagnfræðirannsóknum, og brátt fór hann sjálfur að safna bókum, listmunum og norrænni mynt.

Árið 1738 varð hann ritari í danska Kansellíinu. Þar fór hann að aðstoða nefnd sem hafði umsjón með „Konunglega myntsafninu“, og sýndi í því starfi góða þekkingu og hæfni. Um svipað leyti tók hann saman yfirlit um elstu prentuðu bækur Dana, og æviágrip höfundanna. Einnig fór hann að rannsaka sögu Dankonunga af Oldenborgarætt, mest eftir óprentuðum heimildum.

Utanlandsför[breyta | breyta frumkóða]

Í ársbyrjun 1740 fór hann í langa utanlandsför til Þýskalands, Frakklands og Englands og dvaldist í Strassborg, París og London. Allstaðar þar sem hann kom stofnaði hann til kynna við þekkta menntamenn og stjórnmálamenn og hélt tengslum við marga þeirra með bréfaskriftum eftir að hann kom heim. Sérstaklega ber að nefna sagnfræðinginn Johann Daniel Schöpflin í Strassborg og hinn kunna sænska stjórnmálamann og listunnanda Carl Gustaf Tessin greifa, sem þá var sendiherra í París, því að áhugamál þeirra og viðfangsefni höfðu mikil áhrif á Henrik og lífsstefnu hans.

Henrik kom heim haustið 1742 með mikinn feng í bókum og listmunum, en einnig gegnsýrður af frönskum siðum og frönskum lífsháttum. „Monsieur Anrison!“ (frönsk útgáfa af Henrichsen) vakti mikla athygli í Kaupmannahöfn, og þá ef til vill ekki í jákvæðu ljósi. Hann hélt dýrlegar veislur og bauð til sín æðstu og lærðustu mönnum borgarinnar. Í húsi hans var heill salur fyrir bókasafnið, annar fyrir málverkin og á annarri hæð í húsinu var íbúð hans. Virðist lífsmáti hans hafa borið nokkurn keim af umsvifum nýríkra, en áhugamálin voru þó menningarleg og í anda upplýsingarstefnunnar.

Vísindafélög[breyta | breyta frumkóða]

Henrik Hielmstierne bauðst að fara sem ritari með sendinefnd til Madrídar, 1742, en þegar Konunglega danska vísindafélagið (Det Kongelige danske Videnskabernes Selskab) var stofnaði í nóvember sama ár, var hann strax á fyrsta fundi kosinn ritari félagsins. Hafnaði hann þá sendifulltrúastöðunni. Frumkvöðlar að stofnun félagsins voru Johan Ludvig Holstein greifi sem varð formaður þess, Hans Gram og Erik Pontoppidan yngri en Henrik Henrichsen telst einnig meðal þeirra. Átti hann eftir það náið samstarf við þessa menn.

Vísindafélagið átti frumkvæði að rannsóknarferðum þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og ritun ferðabókar þeirra. Eggert skilaði fullbúnu handriti að Ferðabókinni árið 1766, en það lá síðan í nokkur ár hjá Vísindafélaginu. Hielmstierne hafði þá frumkvæði að því að drifið var í útgáfunni og þeir Gerhard Schøning og Jón Eiríksson fengnir til að búa það til prentunar. Bókin kom út 1772.

Henrik varð félagi í Royal Society í London árið 1743. Árið 1745 stofnaði Jacob Langebek Det kongelige danske Selskab for Fædrelandets Historie (kallað „Litla félagið“ (Det lille Selskab) til aðgreiningar frá Vísindafélaginu sem var það stóra). Henrik lét strax í ljós áhuga á að ganga í félagið, og var þeirri ósk hans vel tekið; hann var þar virkur félagi til æviloka.

Starfsferill, ævilok og eftirmæli[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1744 fékk Henrik stöðu við hæstarétt. Hann hélt stöðu sinni í Kansellíinu (frá 1750 sem aðstoðarmaður), þar til hann sagði henni lausri 1771 þegar Johann Friedrich Struensee komst til valda. Árið 1745 veiktist faðir hans og gat ekki lengur séð um rekstur eigna sinna, einkum herragarðsins Vesterbygaard við Kalundborg á Sjálandi. Tók Henrik yfir reksturinn vorið 1745 og fékk þessar eignir í arf þegar faðirinn dó sama ár. Hann mun hafa selt Vesterbygaard 1750.

Þann 3. febrúar 1747 var Henrik aðlaður og tók upp ættarnafnið Hielmstierne, og 4. ágúst sama ár giftist hann Andreu Kirstine Kjærulf af aðalsætt (fædd 19. janúar 1730, dáin í Kaupmannahöfn 19. október 1806), dóttir Søren Kjærulf (d. 1730) og Johanne Marie Kjærulf, fædd Bentzon. Með konu sinni fékk Hielmstierne herragarðana Mølgaard í Álaborgar-amti og Holmgaard í Viborgar-amti, en seldi þá árið eftir.

Á Hielmstierne hlóðst nú margvíslegur sómi. Árið 1747 veitti Friðrik 5. honum nafnbótina jústitsráð, 1760 etatsráð, 1766 konferensráð, 1774 Riddari af Dannebrog og tók sér þá kjörorðið: „Gloria in obseqvio“ („Heiður í að þjóna“). Árið 1776 varð hann forseti Hæstaréttar og gegndi því embætti til æviloka, 1777 geheimeráð. Hann varð forseti Vísindafélagsins 1776 og árið eftir heiðursfélagi í Dönsku listakademíunni. Hann dó í Kaupmannahöfn 18. júlí 1780.

Í störfum sínum naut Hielmstierne almennrar virðingar fyrir réttsýni, dugnað og óþreytandi iðni. Bolle Willum Luxdorph kallaði hann: „óbifanlegan málsvara sannleikans, fyrirmynd að mannkostum og mann, sem alltaf tók föðurlandið fram yfir sjálfan sig“. Peter Friderich Suhm vakti athygli á dugnaði hans, áreiðanleika og tryggð. Christian Frederik Jacobi hélt minningarræðu um hann í Vísindafélaginu og kom þar fram að hann mat þennan „velgjörðamann sinn og vin“ mjög mikils.

Hielmstierne var ekki afkastamikill rithöfundur. Af prentuðum ritum er helst að nefna nokkrar tækifærisræður. Ófullgerð minningarræða um Hans Gram, lesin upp í Vísindafélaginu eftir dauða hans, var síðar prentuð í útgáfu P. F. Suhms: Nye Samlinger IV:165 og áfram. Með Luxdorph og Langebek átti hann frumkvæðið að útgáfu á latneskum bréfaskiptum Ole Worms (1751).

Rithönd hans og stafsetning var fremur fljótfærnisleg; en fræðileg bréfaskipti hans voru mjög umfangsmikil, bæði fyrr og síðar.

Bókasafnið[breyta | breyta frumkóða]

Agnete Marie Hielmstierne, dóttir Henriks Hielmstierne, gift Marcus Gerhard Rosencrone.

Allt frá æskuárum var Hielmstierne ástríðufullur bókasafnari. Hann takmarkaði sig mest við bækur um danska menningu og skyld efni, og þar sem hann var vel efnaður varð safn hans með tímanum einstætt fyrir hvað það var heildstætt og glæsilegt. Hann lagði sig fram um að komast yfir bestu eintök sem völ var á, og ef bækur voru ófáanlegar vegna fágætis lét hann gera eftirprentun. Dönskum vísinda- og fræðimönnum veitti hann aðgang að safni sínu.

Elsta dóttir Hielmstiernes, og sú eina sem komst upp, var Agnete Marie Hielmstierne (f. 21. júlí 1752, d. 3. september 1838). Hún giftist 1773 Marcus Gerhard Rosencrone (1738–1811), síðar greifa, syni Everts eða Edvards Londemann (1680–1749), sem ólst upp á Eyrarbakka. Ákvað Hielmstierne þá að söfn hans af bókum, handritum, landakortum og myndum, skyldu framvegis varðveitt sem eins konar sjóður eða legat innan fjölskyldunnar; og eftir hans dag skyldi prenta ítarlega skrá um safnið og auka við það. Bókaskráin kom út í þremur bindum (1782–1786), með formálum eftir P. F. Suhm. Safnið stóð síðan lengi ónotað, því að Rosencrone greifi kunni ekki við að ganga gegn óskum tengdaföður síns. Að lokum afhenti hann konunginum safnið, og var með tilskipun 6. mars 1807 ákveðið að það skyldi afhent Konunglega bókasafninu og varðveitt þar sem sérstök deild undir nafninu Hielmstierne-Rosenkrónska bókasafnið (Den Hielmstierne-Rosencronske Bogsamling). Marmarastytta af stofnandanum, eftir Bertel Thorvaldsen, stendur vörð um safnið.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir IV:313.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jürgen Beyer: Henrik Hielmstierne [1715-1780], í: Jürgen Beyer og Johannes Jensen (ritstj.): Sankt Petri Kopenhagen 1575-2000. 425 Jahre Geschichte deutsch-dänischer Begegnung in Biographien, København 2000:45-49.
  • Eiler Nystrøm: Den grevelige Hielmstierne Rosencroneske Stiftelse. Et historisk Tilbageblik, København 1925.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Henrik Hielmstierne“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. september 2009.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]