Kansellíið
Kansellíið (danska Kancelli eða Kancelliet) var stjórnarskrifstofa konungsríkisins Danmerkur og átti rætur að rekja til miðalda. Frá miðri 15. öld var það í Kaupmannahöfn sem miðstöð stjórnsýslu, lagt niður 1848.
Danska kansellíið
[breyta | breyta frumkóða]Danska kansellíið var frá 1454 fram að stjórnarskrárbreytingunni 1848 stjórnarskrifstofa konungsríkisins Danmerkur og afgreiddi öll málefni ríkisins. Undir kansellíinu var sérstök deild, rentukammer, sem sá um fjármál ríkisins. Málefni hertogadæmanna voru afgreidd í þýska kansellíinu.
Kansellíinu var lengst af stjórnað af kanslara og var sú skrifstofa sem tók við bréfum og erindum, og þar voru mál afgreidd og gengið frá bréfum og tilskipunum konungs. Þegar einveldi var komið á 1661, voru stjórnardeildir (kollegier) endurskipulagðar og verkaskiptingu breytt. Kansellíið fór þá með yfirstjórn dóms-, kirkju- og fræðslumála, en kirkjumál voru á árabilinu 1737–1791 lögð undir kirkjustjórnarráð. Forsetar kansellísins og annarra stjórnardeilda sátu í Leyndarráði konungs (gehejmekonseil), þar sem mikilvægustu mál hlutu afgreiðslu.
Danska kansellíið var lagt niður með konunglegri tilskipun 24. mars 1848 og skipt í forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og kirkjumálaráðuneyti. Verkefni Rentukammersins gengu til fjármálaráðuneytis. Stjórnarskrá Danmerkur (Grundloven) var undirrituð af Friðrik 7. 5. júní 1849. Þá breyttist Danska ríkið formlega úr einveldi í þingbundna konungsstjórn.
Málefni Íslands heyrðu undir Danska kansellíið, sem var alltaf kallað Kansellíið. Voru þau talin hluti af málefnum Noregs þar til Noregur fór undan dönsku krúnunni 1814. Með auglýsingu konungs 24. nóvember 1848 var í fyrsta sinn stofnuð sérstök stjórnardeild fyrir íslensk mál, undir forstöðu Brynjólfs Péturssonar lögfræðings.
Þýska kansellíið
[breyta | breyta frumkóða]Þýska kansellíið varð til 1523 og var í fyrstu í Gottorp-höll í Slésvík, en var síðar flutt til Kaupmannahafnar. Það hlaut þetta nafn af því að stjórnsýslumálið var þýska. Það var annars vegar sú stjórnardeild sem sá um utanríkismál, og hins vegar æðsta stjórn hertogadæmanna sem lutu dönsku krúnunni, en voru ekki hluti af konungsríkinu Danmörku. Um þann hluta kansellísins var venjulega notað nafnið: Tyske Kancellis Indenrigske Afdeling. Árið 1770 voru utanríkismálin sett undir sérstaka stjórnardeild. Árið 1806 var nafni Þýska kansellísins breytt í Slesvig-Holstenske Kancelli, og eftir að Láenborg varð danskt hertogadæmi, 1816, hét það Slesvig-Holsten-Lauenborgske Kancelli. Við kerfisbreytinguna 1849 var þýska kansellíið lagt niður, og heyrðu málefni hertogadæmanna eftir það undir ráðuneytin fyrir Slésvík, Holtsetaland og Láenborg.
Skjalasafn kansellísins
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1928 afhenti Ríkisskjalasafn Danmerkur Þjóðskjalasafni Íslands meginhluta þeirra skjala kansellísins, sem snerta íslensk málefni. Eru þau varðveitt þar sem sérstök deild: Kansellískjöl.
Elstu gögn í skjalasafni kansellísins sem varða Ísland, eru frá 1514.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Einar Laxness: Íslandssaga i–r, 2. útg., Rvík 1998:32–33.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Kancelli“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. september 2009.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Þýska kansellíið Geymt 24 maí 2011 í Wayback Machine, Grænseforeningen, København