Fara í innihald

Haraldur gilli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Haraldur 4. Magnússon)
Haraldur gilli gengur yfir glóandi járn til að sanna faðerni sitt.

Haraldur gilli eða Haraldur 4. Magnússon (110314. desember 1136) var konungur Noregs frá 1130-1136, þar af fyrstu fimm árin með Magnúsi blinda, bróðursyni sínum.

Haraldur ólst upp á Írlandi og varð aldrei vel talandi á norræna tungu. Hann kom til Noregs frá Suðureyjum einhverntíma á 3. áratug 12. aldar. Þegar þangað kom gekk hann á fund Sigurðar konungs Jórsalafara og tjáði honum að hann væri hálfbróðir hans, sonur Magnúsar berfætts, og þá getinn í síðustu herför Magnúsar til Bretlandseyja. Sigurður lét hann sanna orð sín með járnburði og var Haraldur leiddur af tveimur biskupum yfir glóandi heit plógjárn; þremur dögum síðar voru fætur hans skoðaðir og reyndust heilir og viðurkenndi Sigurður hann þá sem bróður sinn en fékk hann til að heita því að krefjast ekki krúnunnar meðan Sigurður og Magnús sonur hans lifðu.

Haraldi tókst að afla sér vinsælda við hirðina en Magnús bróðursonur hans var aftur á móti óvinsæll og þegar Sigurður Jórsalafari dó 1130 brást Haraldur skjótt við og tókst að fá sig kjörinn konung ásamt Magnúsi. Þeir ríktu saman nokkur ár en árið 1134 kom til átaka; Magnúsi tókst að reka Harald úr landi en hann sneri svo aftur, náði Magnúsi á sitt vald, lét blinda hann, gelda og lemstra og kom honum fyrir í klaustri.

Skömmu síðar gaf sig fram maður sem nefndur var Sigurður slembidjákn og kvaðst einnig vera launsonur Magnúsar berfætts. Haraldur neitaði að viðurkenna hann. Nokkru síðar gerði Sigurður aðför að Haraldi konungi þar sem hann gisti hjá frillu sinni, Þóru Guttormsdóttur, og drap hann. Sigurður lýsti svo morðinu á hendur sér og vildi láta taka sig til konungs en var dæmdur útlægur og varð að flýja frá Björgvin. Þess í stað voru barnungir synir Haraldar, Sigurður munnur og Ingi, kjörnir konungar og börðust menn þeirra við menn Sigurðar slembidjákns og Magnúsar blinda 1139. Þar var Magnús drepinn og Sigurður handtekinn og síðan píndur til bana.

Haraldur kvæntist Ingiríði, dóttur Rögnvaldar stutthöfða Svíakonungs, og áttu þau soninn Inga sem síðar var kallaður krypplingur. Hann átti einnig fjölda frillubarna; Sigurður munnur og Eysteinn urðu konungar og Magnús sonur Haraldar fékk einnig konungsnafnbót 1142, þá sjö ára að aldri, en dó þremur árum síðar og er ekki talinn með í norsku konungaröðinni.


Fyrirrennari:
Sigurður Jórsalafari
Noregskonungur
með Magnúsi blinda (til 1135)
(1130 – 1136)
Eftirmaður:
Sigurður munnur
Ingi krypplingur