Fara í innihald

Ingiríður Rögnvaldsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ingiríður Rögnvaldsdóttir, Ingi krypplingur og Gregorius Dagsson.

Ingiríður Rögnvaldsdóttir (d. eftir 1161) var sænsk konungsdóttir á 12. öld og síðar drottning Noregs, móðir Magnúsar Hinrikssonar Svíakonungs og Inga krypplings Noregskonungs.

Ingiríður var dóttir Rögnvaldar stutthöfða Svíakonungs, sonar Inga eldri. Fyrsti maður hennar var Hinrik halti, sonur Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Sögur herma að hjónaband þeirra hafi ekki verið gott og að Ingiríður hafi einhverju sinni reynt að strjúka með ungum elskhuga sínum, klæddd karlmannsfötum, en maður hennar náði henni og hafði hana í haldi þar til hann féll í orrustu 4. júní 1134. Sonur þeirra var Magnús, sem varð konungur Svíþjóðar stuttan tíma um 1160. Aðrir synir þeirra voru Rögnvaldur, sem var ríkisjarl í Svíþjóð þegar bróðir hans ríkti þar, og Búris.

Ingiríður giftist þá Haraldi gilla Noregskonungi og átti með honum soninn Inga, sem síðar var kallaður krypplingur. Það hjónaband er einnig sagt hafa verið óhamingjusamt og Haraldur var drepinn 14. desember 1136 í rúminu hjá einni af mörgum frillum sínum. Strax um nóttina ráðgaðist Ingiríður drottning við helstu höfðingja sem voru við hirðina og átti stóran þátt í því að smádrengirnir Ingi sonur hennar og Sigurður munnur, stjúpsonur hennar, voru lýstir samkonungar. Hún var einn helsti ráðgjafi Inga alla tíð sem hann ríkti.

Ingiríður átti svo í sambandi við mann sem kallaðist Ívar sneis og eignaðist með honum soninn Orm, sem kallaður var konungsbróðir og varð seinna helsti herforingi Magnúsar konungs Erlingssonar. Þau giftust þó ekki en þriðji eiginmaður Ingiríðar var Óttar birtingur, valdamikill norskur höfðingi. Hann var drepinn af launmorðingja í Niðarósi um 1146.

Ingiríður giftist svo í fjórða sinn Árna Ívarssyni á Stoðreimi, öðrum valdamiklum höfðingja, og var hann eftir það kallaður konungsmágur. Þau fóru til Danmerkur eftir fall Inga konungs og er ekkert minnst á Ingiríði eftir það. Þau áttu fjögur börn, Filippus í Herðlu, Inga, Nikulás, sem varð biskup og einn helsti foringi Baglanna, og Margéti, móður baglakonungsins Filippusar Símonarsonar.