Guðmundur Finnbogason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guðmundur Finnbogason (1934)
Guððmundur á Landsbókasafninu.

Guðmundur Finnbogason (6. júní 187317. júlí 1944)[1] var íslenskur heimspekingur, rithöfundur og mikilsvirtur þýðandi. Hann þýddi meðal annars hinar ýmsu heimspekiritgerðir og margar smásögur, sem og skáldsögu P.G. Wodehouse: Ráð undir rifi hverju.

Líf og störf[breyta | breyta frumkóða]

Guðmundur var fæddur á Arnarstapa við Ljósavatn, sonur Guðrúnar Jónsdóttur (1843-1900) og Finnboga Finnbogasonar (1843-1886)[2]. Hann lauk stúdentsprófi vorið 1896 frá Lærða Skólanum. Sama ár, 1896, hóf hann nám í heimspeki við Hafnarháskóla, sem hann lauk með meistaraprófi árið 1901, en hann hafði sálfræði sem aðalgrein.[3] Meðal lærifeðra Guðmundar í Kaupmannahöfn voru Harald Høffding (1843-1931) og Alfred Lehmann (1858-1921).[4]

Árin 1901-1902 ferðaðist Guðmundur um nokkur Norðurlönd og safnaði upplýsingum um stöðu kennslu í þeim löndum, eftir að hafa fengið styrk til verksins, en eftir þessa könnun skrifaði hann fyrstu bók sína, Lýðmenntun, þar sem hann fjallaði um hugmyndir sínar um hvernig standa ætti að barnafræðslu á Íslandi, og kom bókin út árið 1903. Sama ár skilaði Guðmundur skýrslu til Alþingis um þessa ferð sína og tillögur um úrbætur í menntamálum.[5] Árin 1903-1904 ferðaðist Guðmundur svo um Ísland til að rannsaka hvernig kennslu var háttað í landinu og skrifaði hann svo skýrslu um málið. Árið 1907 var svo samþykkt frumvarp á Alþingi um fræðslu barna og ungmenna, en frumvarpið var að mestu byggt á frumvarpi sem Guðmundur samdi fyrir stjórnina.[6]

Árin 1905-1906 fékkst Guðmundur við ritstjórn Skírnis og þýðingar. Meðal annars þýddi hann fyrirlestur William James um „ódauðleikann“ sem kom út árið 1905. Sama ár birti hann grein í Skírni um bók James, The Varieties of Religious Experience, og árið 1906 þýddi hann grein eftir Henri Bergson sem nefnist Um listir.[7]

Árin 1908-1910 vann Guðmundur að doktorsritgerð sinni með einum eða öðrum hætti.[8] Ritgerð Guðmundar hét „Den sympatiske forstaaelse“ eða Samúðarskilningurinn.[9] Hún vakti mikla athygli fræðimanna, enda um afar frumlegt verk að ræða auk þess sem hún er fyrsta íslenska doktorsritgerðin sem telja má sálfræðilega ritsmíð.[heimild vantar] Hún fjallar um það að skilningur manna á sálarlífi annarra sé svokallaður samúðarskilningur og að fólk hermir eða líkir ósjálfrátt eftir sálarástandi, röddu og svipbrigðum annarra.[10] Guðmundur varði ritgerð sína við Hafnarháskóla árið 1911.[2] Um svipað efni og hann fjallaði um í doktorsritgerðinni skrifaði hann líka bókina Hugur og heimur sem kom út árið 1912.

Um svipað leyti og Guðmundur varði ritgerð sína var Háskóli Íslands stofnaður og þá um leið prófessorsembætti í heimspeki við skólann, sem hann sótti um, en Ágúst H. Bjarnason fékk, og gerðist þá Guðmundur aðstoðarbókavörður við Landsbókasafnið.[11]

Guðmundur starfaði við Háskóla Íslands sem prófessor í sálfræði 1918-1924 og var einnig háskólarektor 1920-1921. Hann kenndi námskeið í hagnýttri sálfræði auk þess sem hann gerði sálfræðitilraunir með stúdentum.[heimild vantar] Þá var hann ritstjóri Skírnis 1905-1907, 1913-1920 og 1933-1943.[12]

Árið 2006 gaf Jörgen L. Pind (2005) út ævisögu Guðmundar, sem nefnist Frá sál til sálar. Ævisagan fjallar um ævi og störf Guðmundar, en einnig er fjallað rækilega um kenningu hans um samúðarskilninginn.

Verk og bækur[breyta | breyta frumkóða]

  • 1903: Lýðmenntun: Hugleiðingar og tillögur
  • 1905: Skýrsla um fræðslu barna og unglinga veturinn 1903-1904
  • 1907: Lesbók handa börnum og unglingum I-III (1907-1910) Ásamt Jóhannesi Sigfússyni og Þórhalli Bjarnasyni
  • 1911: Den sympatiske forstaaelse (Samúðarskilningurinn; Doktorsritgerð)
  • 1912: Hugur og heimur: Hannesar Árnasonar erindi
  • 1915: Vit og strit
  • 1917: Vinnan
  • 1918: Frá sjónarheimi
  • 1921: Land og þjóð
  • 1933: Íslendingar
  • 1943: Huganir
  • 1962: Mannfagnaður. Ný útgáfa aukin

Guðmundur þýddi verk A.N. WhiteheadAn Introduction to Mathematics“ og kom það út sem Stærðfræðin 1931.


Fyrirrennari:
Þorsteinn Gíslason
Ritstjóri Skírnis
(19051907)
Eftirmaður:
Einar H. Kvaran
Fyrirrennari:
Björn Bjarnason
Ritstjóri Skírnis
(19131920)
Eftirmaður:
Árni Pálsson
Fyrirrennari:
Árni Pálsson
Ritstjóri Skírnis
(19331943)
Eftirmaður:
Einar Ól. Sveinsson


[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jörgen L. Pind (2005), bls. 9 og 30
  2. 2,0 2,1 Jörgen L. Pind (2005), bls. 9
  3. Jörgen L. Pind (2005), bls. 10
  4. Jörgen L. Pind (2005), bls. 12, 13 og 15
  5. Jörgen L. Pind (2005), bls. 19, 20, og 21
  6. Jörgen L. Pind (2005), bls. 22 og 23
  7. Jörgen L. Pind (2005), bls. 23 og 24
  8. Jörgen L. Pind (2005), bls. 24 og 25
  9. Jörgen L. Pind (2005), bls. 25
  10. Jörgen L. Pind (2005), bls. 22
  11. Jörgen L. Pind (2005), bls. 28
  12. Jörgen L. Pind (2005), bls. 27
  13. Jörgen L. Pind (2005), bls. 7

Heimildir og ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

  • Jörgen L. Pind. „Guðmundur Finnbogason, sálfræðingur, ritstjóri Skírnis“. Skírnir - tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 179 (2005).
  • Jörgen L. Pind. Frá sál til sálar : ævi og verk Guðmundar Finnbogasonar sálfræðings (Reykjavík: Hið Íslenska bókmenntafélag, 2006).