Guðmundur Thoroddsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Thoroddsen (f. á Ísafirði 1. febrúar 1887 – d. 6. júlí 1968). Yfirlæknir og prófessor.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Guðmundar voru Skúli Thoroddsen (1859-1916) sýslumaður, bæjarstjóri, ritstjóri og alþingismaður, og kona hans Theodóra Friðrika Guðmundsdóttir Thoroddsen (1863-1954), húsfreyja og skáldkona.

Guðmundar var elsta barn þeirra hjóna. Systkini hans voru 12 að tölu; þau eru, Unnur (1885-1970) húsfreyja; Þorvaldur (1888-1889); Skúli (1890-1917) yfirdómslögmaður og alþingismaður (yngstur allra fulltrúa sem setið höfðu á þingi Íslendinga síðan það var stofnað); Þorvaldur (1892-1977) fór til Vesturheims; Kristín Ólína (1894-1961) yfirhjúkrunarkona og skólastýra; Katrín (1896-1970) læknir, alþingismaður og bæjarfulltrúi; Jón (1898-1925) lögfræðingur og skáld; Ragnhildur (1899-1966) húsfreyja; Bolli (1901-1974) borgarverkfræðingur; Sigurður (1902-1983) verkfræðingur og alþingismaður; Sverrir (1904-1982) bankafulltrúi; María Kristín (1906-1976) húsfreyja.

Guðmundur ólst upp á Ísafirði og Bessastöðum á Álftanesi. Hann varð stúdent úr Hinum almenna menntaskóla í Reykjavík í júní 1905, cand phil. í júní 1906 og cand. med. úr Hafnarháskóla 28. júní 1911, ávallt með hæstu einkunn.

Hann varð aðstoðarlæknir á Esbjerg komunitets hospital 1911-1912, síðar námskandídat 1913-1914 og ýmist kandídat, aðstoðarlæknir eða læknir á fæðingardeildum og handlæknisdeildum Rigshospitalet og Frederiksberg hospital, og starfaði einnig á Jótlandi og í Reykjavík 1914-1920. Námsferðir til Svíþjóðar, Noregs, Englands, Frakklands og Þýskalands 1923-1937. Sérfræðingur í handlækningum 1923, hafði stundað þær þá um hríð. Héraðslæknir í Húsavíkurhéraði 1915-1917. Dósent við Háskóla Íslands (almenn sjúkdómafræði og réttarlæknisfræði) 1924, skipaður prófessor 1925 (handlæknisfræði og yfirsetufræði), ráðinn jafnframt yfirlæknir við Landspítala 13. janúar 1931-1949; gegndi embætti til 1952. Sérfræðingur við Kleppsspítala 1953 til dauðadags; starfaði að handlækningum við Hvítabandið 1954-1955, en gegndi jafnframt læknisstörfum hjá Norræna námufélaginu í Meistaravík á Grænlandi 1954 og sjúkrahúslæknisstörfum við sjúkrahúsið á Akranesi 1955. Forstöðumaður Ljósmæðraskóla Íslands 1931-1948. Rektor Háskóla Íslands 1926-1927. Prófdómari við læknadeild Háskóla Íslands og Ljósmæðraskóla Íslands þá hann lét af embætti. Í læknaráði frá stofnun þess 1942-1951. Félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1925. Í stjórn læknafélags Íslands 1922-1926, formaður þess 1924-1926. Í stjórn Rauða kross Íslands frá 1924. Í fulltrúaráði Máls og menningar.                                                                                

Heiðursfélagi Svenska Läkaresällskapets 7. nóv. 1937, varð Kommendör av Kungliga Vasaorden 26. júní 1936, heiðursmerki Rauða kross Frakklands hlaut hann 1945 og heiðursmerki Rauða kross Íslands 6. des. 1849; hann varð handhafi Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1948 og stórriddarakross Fálkaorðunnar 12. okt. 1951. Nokkrir aðstoðarlæknar hans gáfu út afmælisrit Guðmundi til heiðurs á sjötugsafmæli hans.

Guðmundur var í ritstjórn Læknablaðsins 1921-1929 og 1955-1956, Nordisk medicinsk tidsskrift 1929-1938, Acta chirurgica Scandinavica síðan 1938 og Nordisk medicin frá 1939. Hefur ritað fjölda greina í blöð og tímarit, innlend sem erlend. Útg. m.a. Læknaljóð, Rvk. 1939; Ferðaþættir og minningar. Erindasafnið II, Rvk. 1943. Þýddi Meðgöngutími og barnsburður; Krabbamein í Heilsurækt og mannamein, Rvk. 1943; Gray, G.W.: Herlækningar, í Undur veraldar, Rvk. 1945.

Fyrri kona Guðmundar, 3. maí 1913, var Regína Magdalena Benediktsdóttir (1887-1929) húsfreyja. Seinni kona hans, 29. júní 1930, var Siglín/Lína Guðmundsdóttir (1901-1966) húsfreyja.

Börn Guðmundar og Regínu Magdalenu Thoroddsen eru sjö: Dóra (1914-2001) gullsmiður; Ásta (1916-1998) skrifstofumaður; Skúli (1918-1973) augnlæknir; Unnur (1922-1990) lyfjafræðingur; Hrafnhildur Gríma (1923-2012) meinatæknir; Regína Benedkta (1924-2000) hjúkrunarfræðingur; Katrín (1926-1926).

Börn hans og Línu Thoroddsen eru Þrándur (1931-2010) kvikmyndafræðingur og Ásta Björt (1942-2019) tannlæknir (kjördóttir, móðir: Hrafnhildur Gríma Thoroddsen).