Fara í innihald

Björn Bjarnason frá Viðfirði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði (3. júlí 187318. nóvember 1918) var fræðimaður og kennari og þjóðsagnasafnari. Björn var einnig ritstjóri Skírnis á árunum 19101912. Hann er einna þekktastur fyrir bók sína Íþróttir fornmanna á Norðurlöndum. Þá þýddi hann m.a. skáldsöguna Föðurást eftir Selmu Lagerlöf, rússnesk ævintýri og fleiri sögur.

Dr. Björn Bjarnason var bóndason frá Viðfirði í Suður-Múlasýslu. Þar ólst hann upp, og kenndi sig síðan að jafnaði við fæðingarstað sinn. Hann kom fyrst í skóla 16 ára og varð stúdent 1895 með ágætiseinkunn. Í skóla hafði hann mikinn áhuga á íþróttum, en sá áhugi átti síðar eftir að blandast aðaláhugamáli hans: íslenskri tungu. Björn lagði stund á norræna tungu við Háskólann í Kaupmannahöfn. Í fyrstu ætlaði hann að verða lögfræðingur, en féll ekki það nám og hvarf að norrænunni. Hann lauk meistaraprófi í norrænum fræðum 1901 og hélt þá til Íslands og varð skólastjóri á Ísafirði, en þar ólst kona hans, Gyða Þorvaldsdóttir læknis Jónssonar, upp. Gyða var systir málarans Kristínar Þorvaldsdóttur, stundum nefnd Jónsson. Gyða og Björn gengu í hjónaband árið 1902. Þau eignuðust fjögur börn, Högna, Sigríði, Kristínu og Þórunni, hún dó ung.

Dr. Björn varði doktorsrit sitt, Íþróttir fornmanna, þann 27. september 1905, en það kom síðar út sem bók. Það rit er af mörgum talið skrifað á óvenju góðri íslensku, en dr. Björn var ætíð talinn mikill smekkmaður á málfar, og var til dæmis í miklum metum hjá Þórbergi Þórðarsyni eins og kemur fram í bók hans Ofvitanum. Árið 1908 tók Kennaraskólinn til starfa í Reykjavík og var Björn ráðinn þar til starfa sem kennari sama ár. Eftir fjögura ára starf við skólann bilaði heilsa hans skyndilega. Hann leitaði sér heilsubótar, fyrst hér heima en síðan erlendis, og dvaldi lengstum í Sviss. Vorið 1917 var hann loks það hress orðinn, að hann gat haldið heimleiðis eftir meira en fjögurra ára dvöl erlendis. Honum var þá falið að semja eða efna til íslensku orðabókarinnar. Hann lést ári síðar úr spænsku veikinni.

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.