Guðlaugur Þorvaldsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Guðlaugur Þorvaldsson (fæddur 13. október 1924, dáinn 25. mars 1996) var íslenskur viðskiptafræðingur, rektor Háskóla Íslands og ríkissáttasemjari.

Guðlaugur fæddist í Grindavík og voru foreldrar hans Þorvaldur Klemensson útvegsbóndi og Stefanía Margrét Tómasdóttir. Eiginkona Guðlaugs var Kristín Hólmfríður Kristinsdóttir ritari og eignuðust þau fjóra syni.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Guðlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1944 og kandítatsprófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1950. Hann starfaði sem kennari við Núpsskóla í Dýrafirði veturinn 1944-1945, var blaðamaður við vikublaðið Fálkann frá 1946-1958, stundakennari í hagfræði við Verzlunarskóla Íslands árið 1950-1961, fulltrúi á Hagstofu Íslands 1950-1956 og deildarstjóri þar frá 1956-1966. Hann hóf störf sem stundakennari við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 1956 en var settur prófessor við deildina veturinn 1960-1961. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu 1966-1967 en var skipaður prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1967. Hann var rektor Háskóla Íslands frá 1973-1979 og ríkissáttasemjari frá 1979-1994.[1]

Forsetaframboð[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1980 var Guðlaugur í framboði til embættis forseta Íslands ásamt Albert Guðmundssyni, Pétri J. Thorsteinsson og Vigdísi Finnbogadóttur. Baráttan stóð einkum á milli Guðlaugs og Vigdísar en úrslit kosninganna urðu á þann veg að Vigdís var kjörin forseti með 33,8% atkvæða en Guðlaugur varð næstur með 32,3% atkvæða.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Guðlaugur var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1975 og Stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1979.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Minningargreinar: Guðlaugur Þorvaldsson“, Morgunblaðið, 2. apríl 1996 (skoðað 13. júní 2019)