Kristín Ingólfsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Kristín Ingólfsdóttir (f. 14. febrúar 1954) er fyrrum rektor Háskóla Íslands. Hún tók við stöðu rektors árið 2005 af Páli Skúlasyni og sat í embætti tvö tímabil, til ársins 2015 og var fyrsta konan til að gegna embættinu. Kristín starfaði áður sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Foreldrar Kristínar eru Ingólfur Þ. Steinsson og Sólveig Pálmadóttir. Eiginmaður Kristínar er Einar Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum og fyrrum forstjóri Mjólkursamsölunnar og eiga þau tvær dætur.[1]

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Kristín lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík árið 1974, stundaði nám í efnafræði og frönsku í Frakklandi og lauk BS gráðu í lyfjafræði við Háskóla Íslands árið 1978 og doktorsprófi (PhD) frá lyfjafræðideild King's College, University of London 1983.[2] Rannsóknir Kristínar hafa einkum beinst að lyfjaefnafræðilegri greiningu á efnum í íslenskum plöntum og sjávarlífverum sem hafa bólgueyðandi, veiruhemjandi, bakteríuhemjandi og ónæmisörvandi virkni sem og efnum sem hemja vöxt illkynja frumna. Kristín hefur flutt erindi fyrir fagfólk í heilbrigðisvísindum víða um heim auk fjölda erinda og námskeiða fyrir innlend fagfélög, félagasamtök og almenning.[3]

Auk kennslu-, vísinda- og stjórnunarstarfa við Lyfjafræðideild sat Kristín í fjármálanefnd háskólaráðs HÍ, deildarráði Læknadeildar og stjórn Reykjavíkur apóteks. Kristín sat í stjórn Rannsóknarráðs Íslands og var varamaður í stjórn Vísindasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Kristín var formaður vísindanefndar Krabbameinsfélags Íslands og fulltrúi Íslands í stjórn Nordisk Forskerutdannings Akademi (NorFA, nú NordForsk). Kristín hefur unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir heilbrigðisráðuneytið, átti um árabil sæti í Lyfjanefnd ríkisins og Lyfjanefnd Lyfjastofnunar og hefur tekið þátt í starfi evrópsku lyfjamálastofnunarinnar (EMEA). Kristín hefur einnig setið í stjórnum Samtaka norrænna háskóla (NUS) og Samtaka evrópskra háskóla (EUA).

Kristín var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007 fyrir framlag til menntunar og rannsókna.[4] Hún var sæmd Mykolas Romeris verðlaununum af Mykolas Romeris háskólanum í Vilnius í Litháen árið 2006.

Kristín hefur sem rektor flutt fjölda erinda innanlands og utan. Af nýlegum erindum má nefna: Fræ til framtíðar - menntun, vísindi, nýsköpun á ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga (feb. 2009); Menntun á tímum endurreisnar á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins (mars 2009); Changes in Challenging Times við Harvard háskóla, Boston (mars 2009); Role of Universities in Times of Economic Recovery við Waseda og Kinki háskólana í Japan (okt. 2009); Framkvæmd fjárlaga 2010: Áætlanagerð, ákvarðanataka og aðgerðir á ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Fjármálaráðuneytisins (nóv. 2009); Road to Equality – Overcoming Barriers á ráðstefnu kvenrektora frá Evrópu og Asíu, Istanbúl, Tyrklandi (apríl 2010); Sino-Icelandic Collaboration in Research and Higher Education við Fudan háskóla, Shanghai, Kína (maí 2010)

Eftir að Kristín lauk störfum sem háskólarektor starfaði hún um tíma sem gestaprófessor við MIT háskólann í Bandaríkjunum.[5] Árið 2018 var hún skipuð formaður ráðgjafarnefndar Landspítala.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Krefjandi starf framundan“, Morgunblaðið, 20. mars 2005, (skoðað 13. júní 2019)
  2. Háskóli Íslands, Kristín Ingólfsdóttir prófessor (skoðað 13. júní 2019)
  3. Vísindavefurinn, „Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Ingólfsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 24. desember 2018, (sótt 13. júní 2019)
  4. Mbl.is, „Fjórtán sæmdir fálkaorðunni í dag“ (skoðað 13. júní 2019)
  5. Kjarninn.is, „Kristín Ingólfsdóttir verður gestaprófessor við MIT“ (skoðað 13. júní 2019)
  6. Landspítali, „Kristín Ingólfsdóttir skipuð formaður ráðgjafanefndar Landspítala“ (skoðað 13. júní 2019)