G.E.M. Anscombe

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar
Nafn: Gertrude Elizabeth Margaret Anscombe
Fædd: 18. mars 1919
Látin: 5. janúar 2001 (81 árs)
Skóli/hefð: Rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverk: Intention, „Modern Moral Philosophy“ („Siðfræði nútímans“)
Helstu viðfangsefni: frumspeki, þekkingarfræði, hugspeki, málspeki, siðfræði, athafnafræði, rökfræði, heimspekisaga
Markverðar hugmyndir: dygðafræði
Áhrifavaldar: Ludwig Wittgenstein
Hafði áhrif á: Philippa Foot, Donald Davidson, Rosalind Hursthouse

Gertrude Elizabeth Margaret Anscombe (18. mars 19195. janúar 2001) (þekkt sem Elizabeth Anscombe, skrifaði undir nafninu G. E. M. Anscombe) var enskur rökgreiningarheimspekingur, guðfræðingur og nemandi Ludwigs Wittgenstein. Hún vann mikið verk í siðfræði, einkum með því að endurvekja áhuga á dygðasiðfræði, en einnig vann hún að hugspeki, athafnafræði, rökfræði og merkjafræði. Í grein hennar „Siðfræði nútímans“ frá 1958 kom orðið „consequentialism“ (leikslokasiðfræði eða afleiðingasiðfræði á íslensku) fyrst fyrir í ensku máli.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Gertrude Elizabeth Margaret Anscombe fæddist hjónunum Gertrude Elizabeth Anscombe og Alan Wells Anscombe 18. mars 1919, í Limerick á Írlandi (þar sem faðir hennar hafði starfað í hernum). Hún brautskráðist frá Sydenham High School árið 1937 og hélt þaðan í háskólanám í „Mods & Greats“, þ.e. í fornfræði, fornaldarsögu og heimspeki, við St Hugh's College í University of Oxford. Þaðan brautskráðist hún árið 1941. Á fyrsta ári sínu í háskólanum játaðist hún rómversk-kaþólskri trú og var æ síðan dyggur kaþólikki. Hún giftist Peter Geach, sem einnig hafði játast kaþólskri trú, hafði einnig verið nemandi Wittgensteins og varð þekktur breskur heimspekingur. Þau eignuðust þrjá syni og fjórar dætur.

Þegar Anscombe hafði útskrifast frá Oxford hlaut hún rannsóknarstyrk til námsvistar við Newnham College, Cambridge frá 1942 til 1945. Við Cambridge hóf hún að sækja fyrirlestra Ludwigs Wittgenstein. Hún varð áhugasamur nemandi, og fannst „læknandi“ aðferðir Wittgensteins hjálpa henni að losna undan heimspekilegum flækjum á þann hátt sem þjálfun hennar í hefðbundinni heimspeki gat ekki gert.

Að lokinni námsvist hennar í Cambridge hlaut hún rannsóknarstyrk til veru í Somerville College (Oxford), en hún hélt áfram að ferðast til Cambridge einu sinni í viku allt skólaárið 1946-1947, ásamt samnemanda sínum W. A. Hijab, til þess að geta sótt kennslustundir hjá Wittgenstein um trúarheimspeki. Hún varð einn af eftirlætisnemendum Wittgensteins og einn af hans nánustu vinum (Monk [1990] 497-498). Anscombe heimsótti Wittgenstein oft eftir að hann yfirgaf Cambridge árið 1947, og ferðaðist til Cambridge í apríl árið 1951 til að heimsækja hann á dánarbeðinu. Wittgenstein útnefndi hana, auk Rush Rhees og Georg Henrik von Wright, sem umsjónarmenn ritverka sinna, og eftir að hann lést árið 1951 bar hún ábyrgð á ritstjórn, þýðingum, og útgáfu margra handrita og minnisbóka Wittgensteins.

Anscombe var um kyrrt í Sommerville College frá 1946 til 1970. Sem ungur heimspekiprófessor öðlaðist hún fljótt orðstír sem skæður rökræðumaður. Vinir C. S. Lewis, svo sem George Sayer og Derek Brewer, sögðu að rökræða hennar við Lewis árið 1948 (um rökin fyrir tilvist Guðs í þriðja kafla bókar hans Miracles) hefði verið svo niðurlægjandi fyrir Lewis að hann hafi alfarið látið af guðfræði deilum og snúið sér að annars konar skrifum m.a. barnabókum. Anscombe andmælti þessari lýsingu á rökræðunni, og kvaðst ekki muna eftir neinum kala hjá Lewis, hvorki í rökræðunum sjálfum né við kvöldverðinn sem þau snæddu saman nokkrum vikum seinna. En hvaða tilfinningar sem Lewis hefur haft virðist öllum viðstöddum ljóst (þ.m.t. Lewis) að rök hans höfðu verið rústuð, og Lewis endurskrifaði að verulegu leyti þriðja kafla Miracles til þess að taka til greina andmæli Anscombe.

Hún var einnig þekkt fyrir að vera viljug til þess að mæta rammri opinberri deilu í nafni kaþólskrar trúar sinnar. Árið 1956, meðan hún var rannsóknarfélagi við Oxford University, andmælti hún ákvörðun Oxford um að veita Harry S. Truman heiðursdoktorsnafnbót, en hún fordæmdi hann sem fjöldamorðingja vegna ákvörðunar hans um að beita kjarnorkuvopnum á Hiroshima og Nagasaki. Hún hneykslaði frjálslynda samstarfsmenn sína með greinum þar sem hún varði andstöðu kaþólsku kirkjunnar við fóstureyðingum og getnaðarvörnum. Hún var einnig handtekin tvisvar sinnum fyrir að mótmæla fyrir utan fóstureyðingarstöð í Bretlandi.

Anscombe var kjörin prófessor í heimspeki við Cambridge University árið 1970 en þeirri stöðu gegndi hún til starfsloka árið 1986. Á síðari árum átti Anscombe við hjartasjúkdóm að stríða og var næstum því öll í bílslysi árið 1996. Síðustu árum sínum varði hún í Cambridge í umsjá fjölskyldu sinnar. Hún lést 81 árs að aldri þann 5. janúar 2001, í viðurvist eiginmanns síns og fjögurra barna þeirra.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1942 varð Anscombe framhaldsnemi við University of Cambridge, þar sem hún kynntist Ludwig Wittgenstein. Hún varð síðar einn helsti túlkandi hans. Árið 1959 skrifaði hún ítarlegan inngang að riti hans Tractatus Logico-Philosophicus frá því fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Þýðing hennar á öðru meistaraverki hans, Rannsóknum í heimspeki (1953), er enn aðalþýðingin á ensku; Hún þýddi einnig ýmis önnur minni verka Wittgensteins. Meðal hennar eigin bóka eru Intention frá 1957 og þrjú ritgerðasöfn, sem birtust árið 1981: From Parmenides to Wittgenstein; Metaphysics and the Philosophy of Mind; og Ethics, Religion and Politics.

Ritgerð hennar „Modern Moral Philosophy“ („Siðfræði nútímans“), sem birtist árið 1958, olli straumhvörfum í siðfræði. Þar hélt Anscombe fram aristótelískri dygðasiðfræði gegn tveimur ríkjandi straumum í siðfræði, skyldusiðfræði annars vegar (þar sem meginkenningin var siðfræðikenning Immanuels Kant, og leikslokasiðfræði hins vegar (þar sem meginkenningin var nytjastefna Johns Stuarts Mill. Síðan þá hefur dygðasiðfræðin rutt sér til rúms í nútímasiðfræði og nýtur aukinna vinsælda.

Anscombe bjó einnig til orðatiltækið brute facts (blákaldar staðreyndir), til aðgreiningar frá stofnunum. Hugtakið gegndi mikilvægu hlutverki hjá bandaríska heimspekingnum John Searle og í málgjörðarkenningu.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]