Sagnadans
Sagnadansar (líka kallaðir íslensk fornkvæði, fornir dansar eða danskvæði) eru epísk miðaldadanskvæði sem að öllum líkindum voru notuð hér á landi við hópdans eða hringdans fyrr á öldum. Sagnadansar, sem í raun eru samevrópskur arfur, urðu afar vinsælir á Norðurlöndunum og lifa enn góðu lífi í Færeyjum. Í Færeyjum kallast sagnadansar einfaldlega „kvæði". Á Íslandi eru sagnadansar einnig gjarnan þekktir undir nafninu vikivakar en ekki má rugla þeim saman við svokölluð vikivakakvæði þar sem slík danskvæði eru lýrísk.
Höfundar kvæðanna eru nær undantekningalaust óþekktir en kvæðin eiga sér hliðstæður á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar. Lítið er um stuðlasetningu nema í viðlagi en sérhljóða hálfrím tíðkast.
Uppruni og varðveisla
[breyta | breyta frumkóða]Varðveittir sagnadansar á Íslandi eru u.þ.b. 110 talsins og fjallaði Vésteinn Ólason bókmenntafræðingur (prófessor emeritus) um þá flesta í doktorsritgerð sinni sem hann varði árið 1982. Einstakir sagnadansar teljast séríslenskir og má sem dæmi nefna Gunnars kvæði á Hlíðarenda og Tristrams kvæði. Vinsælasti sagnadansinn hér á landi er þó vafalaust Ólafur liljurós.
Óvíst er hvenær Íslendingar kynntust fyrst sagnadönsum en talið er að það hafi verið á kaþólskum tíma eða fyrir siðaskiptin. Þeir voru þó ekki skráðir á bækur fyrr en á 17. öld og síðar. Þeir voru því hluti af munnlegri hefð í nokkrar aldir.
Efni og flokkun sagnadansa á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Sögusvið sagnadansa eru oft ástir og samskipti kynjanna. Þá voru kvæði af riddurum og frúm sérstaklega vinsæl hér á landi en mun minna er til af svokölluðum kappakvæðum. Talið er að kvæði af köppum hafi mun fremur fallið undir hatt rímna hér á landi, ólíkt í Færeyjum. Þar eru þau geysimörg og má þar t.d. nefna Orminn langa sem Færeyingar dansa á Ólafsvöku og Regin smið.
Sagnadansar eru ein af fimm tegundum íslenskra þjóðkvæða ásamt vikivökum, þulum, sagnakvæðum og barnagælum.
Hefð er fyrir því að flokka íslenska sagnadansa í þrjá eftirfarandi flokka:
- Kvæði af riddurum og frúm
- Kvæði af köppum og helgum mönnum
- Gamankvæði
Þjóðlög við sagnadansa á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Nokkur sagnadansalög birti Bjarni Þorsteinsson, prestur á Siglufirði og þjóðlagasafnari, í riti sínu Íslenzkum þjóðlögum.
Sagnadansar lifðu enn á vörum örfárra Íslendinga til sveita um miðja 20. öld þegar þjóðfræðingar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar ferðuðust um landið með segulbandstæki að vopni sem þá var nýjung. Segulböndin eru nú varðveitt í Árnagarði. Þá gátu sumir þessara heimildarmanna sýnt tóndæmi. Dæmi um sagnadansa og sagnadansalög sem lifðu enn á vörum einstaklinga um miðja 20. öld, samkvæmt þessum rannsóknum, má nefna Ásukvæði, Draumkvæði, Harmabótarkvæði, Konuríki, Ólaf liljurós, Prestkonukvæði, Tófukvæði, Vallarakvæði systrabana, ofl.
Í byrjun og um miðja 20. öld voru gerðar tilraunir til þess að endurvekja nokkra sagnadansa með gömlum þjóðlögum sem komu annars staðar frá, þar á meðal úr gömlum tónlistarhandritum (þ.á.m. Melodiu og ritverki Thomas Laubs: Danske Folkeviser med gamle Melodier). Þar var fremstur í flokki Bjarni Þorsteinsson þjóðlagasafnari. Dæmi um slíka sagnadansa sem reynt var að endurvekja á þessum tíma voru Ásudans, Eljakvæði, Gunnhildarkvæði, Karlamagnúsarkvæði, Ólöfarkvæði, Soffíukvæði, Taflkvæði ofl.
Dæmi um sagnadansa á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]- Ásudans (kvæði af riddurum og frúm)
- Ásukvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Bjarnasonakvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Draumkvæði (Stjúpmóðurkvæði) (kvæði af riddurum og frúm)
- Elenar ljóð (kvæði af riddurum og frúm)
- Gunnars kvæði á Hlíðarenda (kvæði af köppum og helgum mönnum)
- Gunnbjarnarkvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Ólafur liljurós (kvæði af riddurum og frúm)
- Ólöfarkvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Harmabótarkvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Hildibrandskvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Húfukvæði (gamankvæði)
- Hörpukvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Karlamagnúsarkvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Klerkskvæði (gamankvæði)
- Konuríki (gamankvæði)
- Kvæði af Loga í Vallarhlíð (kvæði af riddurum og frúm)
- Prestkonukvæði (gamankvæði)
- Svíalín og hrafninn (kvæði af riddurum og frúm)
- Taflkvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Tófukvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Tristramskvæði (kvæði af riddurum og frúm)
- Vallarakvæði systrabana (kvæði af riddurum og frúm)
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Samsonarson (2002). Ljóðmál : fornir þjóðlífsþættir. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. ISBN 9979-819-79-0.
- Vésteinn Ólason (1982). „The Traditional Ballads of Iceland“. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.
- Sigríður Þ. Valgeirsdóttir (2010). Íslenskir söngdansar í þúsund ár. Háskólaútgáfan.