Fara í innihald

Jacob Brønnum Scavenius Estrup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Estrup)
Jacob Brønnum Scavenius Estrup
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
11. júní 1875 – 7. ágúst 1894
ÞjóðhöfðingiKristján 9.
ForveriC. A. Fonnesbech
EftirmaðurTage Reedtz-Thott
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. apríl 1825
Sórey, Danmörku
Látinn24. desember 1913 (88 ára) Kongsdal, Danmörku
StjórnmálaflokkurHægriflokkurinn
MakiRegitze Holsten (g. 1857)

Jacob Brønnum Scavenius Estrup (16. apríl 1825 – 24. desember 1913) var danskur landeigandi og stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Danmerkur frá 1875 til 1894. Á nítján ára stjórnartíð sinni stjórnaði Estrup í óþökk danska þjóðþingsins með því að leysa það ítrekað upp og beita konunglegum stjórnartilskipunum til að fá vilja sínum framgengt. Estrup var einn voldugasti stjórnmálamaður Danmerkur á 19. öld og um leið einn sá umdeildasti og hataðasti. Estrup er jafnframt sá forsætisráðherra Danmerkur sem lengst hefur setið í embætti.[1]

Jacob B. S. Estrup fæddist árið 1825 í Sórey, en þar var faðir hans stórgósseigandi, söngkennari og síðar skólameistari. Móðir Estrups lést þegar hann var barn og hann ólst því upp hjá föður sínum og stjúpmóður, sem var jafnframt móðursystir hans. Estrup var undir miklum áhrifum af föður sínum, sem var þekktur fræðimaður og hafði skrifað kennslubækur og ritgerðir um samband Danmerkur og Slésvíkur.[2] Estrup var heilsuveill í æsku og því var hann skráður til náms í skógræktarfræði í stað langskólanáms þar sem útivera var talin honum til góðs.[2]

Faðir Estrups lést þegar hann var 21 árs og Estrup erfði eftir hann óðalið Kongsdal á Jótlandi og síðar óðalið Skaffögaard, þar sem hann átti eftir að búa til æviloka.[1] Estrup hóf þátttöku í dönskum stjórnmálum þegar hann var kjörinn á danska þjóðþingið árið 1854. Slæm heilsa Estrups olli því að hann sat aðeins á þinginu í eitt ár en eftir ósigur Dana í síðara Slésvíkurstríðinu árið 1863 ákvað Estrup að snúa sér aftur að stjórnmálum. Hann var aftur kjörinn á þingið árið 1864 og var útnefndur innanríkisráðherra Danmerkur árið 1865. Í því embætti beitti Estrup sér fyrir umtalsverðri iðnvæðingu í Danmörku, meðal annars með byggingu járnbrauta og byggingu hafnar og hafnarborgar í Esbjerg.[1]

Forsætisráðherratíð

[breyta | breyta frumkóða]

Vorið 1875 bauð Kristján 9. Danakonungur Estrup að gerast forsætisráðherra Danmerkur eftir að tvær stjórnir hægrimanna höfðu hrunið á síðustu fimm árum. Estrup þáði boðið og gerðist forsætisráðherra (eða „stjórnarforseti“; sbr. konseilspræsident) þann 11. júní. Á þessum tíma var mikil stjórnmálaólga í Danmörku þar sem vinstrimenn höfðu meirihluta á þjóðþinginu en hægri- og íhaldsmenn viðhéldu jafnan meirihluta á efri deild þingsins, landsþinginu, þar sem kjörgengi var talsvert takmarkaðara. Stjórnarskrá Danmerkur kvað á um að ríkisstjórnin þyrfti staðfestingu beggja þingdeilda á fjárlögum en þegar vinstrimenn í neðri deildinni hugðust hafna fjárlögum Estrups árið 1877 fór hann á sveig við reglurnar með því að leysa upp þingið og setja bráðabirgðafjárlög með samþykki konungsins.[1]

Estrup endurtók sama leik ítrekað á næstu árum og fór margsinnis gegn vilja þjóðþingsins með því að leysa það upp og setja bráðabirgðalög. Estrup og bandamenn hans áttu í hörðum deilum við vinstrimenn á þinginu um málefni eins og hernaðarútgjöld, sem Estrup vildi auka til muna til þess að geta tryggt hlutleysi Danmerkur ef til stríðs kæmi. Þingmenn á neðri deild neituðu að endingu að vinna með Estrup og beittu svokallaðri „visnunarpólitík“ gegn stjórn hans, sem þeir álitu ekki hlýða lýðræðislegum þjóðarvilja.[2] Estrup lét sömuleiðis jarða öll frumvörp sem komu frá stjórnarandstöðunni með því að senda þau í svokallaða „jarðarfararnefnd“. Í kosningum árið 1884 hlaut stjórn Estrups aðeins 19 af 102 sætum á þjóðþinginu.[1]

Tilræðið gegn Estrup árið 1885 í myndskreytingu úr dagblaðinu Illustreret Tidende.

Eftir þingfund þann 21. október árið 1885 reyndi ungur prentari að nafni Julius Rasmussen að ráða Estrup af dögum. Rasmussen sat fyrir Estrup fyrir utan heimili hans og skaut á hann þegar hann nálgaðist. Forsætisráðherranum varð ekki meint af þar sem vestishnappur hans stöðvaði byssukúluna sem hæfði hann. Vegfarendur og lögreglumenn yfirbuguðu síðan Rasmussen og fóru með hann til lögreglustöðvarinnar í Store Kongensgade.[3]

Morðtilræðinu á Estrup fylgdi mikill pólitískur æsingur. Stuðningsmenn forsætisráðherrans flykktust til heimilis hans til að hylla hann en fjölmargir andstæðingar hans lögðu einnig leið sína þangað til að gera aðköll að honum.[3] Estrup notaði tilræðið sem tylliástæðu til þess að hefja ofsóknir gegn stjórnarandstöðunni og lét meðal annars handtaka tvo höfuðandstæðinga sína, vinstrileiðtogana Christen Berg og Viggo Hørup.[1] Estrup lét jafnframt seinka þinginu til þess að geta sett fleiri bráðabirgðalög og lét þá meðal annars setja á fót sérstakar löggæsluhersveitir og breytingar á hegningarlögum sem takmörkuðu mjög prent- og málfrelsi í Danmörku.[4][5]

Árið 1894 var gert samkomulag við stjórnarandstöðuna sem fól m. a. í sér að Estrup sagði af sér sem forsætisráðherra.[2] Estrup sat þó áfram á þingi til æviloka. Hann lifði nógu lengi til að upplifa stórtækar breytingar á stjórnarskrá Danmerkur í átt til aukins frjálslyndis og þingræðis og var lítt hrifinn af þeim. Hann sagði þó að breytingarnar hefðu orðið verri ef hans hefði ekki notið við.[3]

Fjölskylduhagir

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1857 kvæntist J.B.S. Estrup Regitze Holsten, dóttur barónsins Adams Christophers Holsten-Charisius.[6] Meðal barna hjónanna voru kammerherrann og hirðveiðimaðurinn Hector Estrup, Adam Estrup og fræðimaðurinn Jacob Estrup.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Einvaldur Danmerkur og Íslands“. Tíminn. 8. mars 1987. Sótt 4. júlí 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Jón Þ. Þór (13. júní 1996). „Afturhaldskurfur eða föðurlandsvinur?“. Tíminn. Sótt 4. júlí 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Vestishnappurinn barg lífi ráðherrans“. Morgunblaðið. 21. júní 1992. Sótt 5. júlí 2019.
  4. „Útlendar fréttir“. Suðri. 30. nóvember 1885. Sótt 5. júlí 2019.
  5. „Hænsnin fljúga af prikunum“. Tíminn. 6. febrúar 1966. Sótt 5. júlí 2019.
  6. Regitze Charlotte Conradine baronesse Holsten-Charisius f. 21 aug. 1831 Itzehoe, Schleswig-Holstein, Germany d. 20 maj 1896 Bregentved Gods, Haslev (Ringsted H., Sorø): Skeel-...


Fyrirrennari:
Christen Andreas Fonnesbech
Forsætisráðherra Danmerkur
(11. júní 18757. ágúst 1894)
Eftirmaður:
Tage Reedtz-Thott