Fara í innihald

Club Nacional de Football

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Club Nacional de Football
Fullt nafn Club Nacional de Football
Gælunafn/nöfn Bolsos, Tricolores (Þrjú litir)
Stytt nafn Nacional
Stofnað 1899
Leikvöllur Estadio Gran Parque Central
Stærð 26 500
Stjórnarformaður Eduardo Ache
Knattspyrnustjóri Álvaro Gutiérrez
Deild Úrúgvæska úrvalsdeildin
2024 2. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Nacional (fullt nafn: Club Nacional de Football) er úrúgvæskt knattspyrnulið frá Montevídeó, og er eitt þekktasta og sigursælasta félagslið heims. Liðið var stofnað 14. maí árið 1899. Það var stofnað fyrst sem knattspyrnufélag, en núna eru starfræktar margar deildir innan félagsins. Félagið hefur unnið úrúgvæska meistaratitillinn 49 sinnum. Þá hefur félagið einnig unnið ameríkubikarinn og hina aflögðu heimsmeistaramótskeppni 3 sinnum. Þá hefur félagið unnið fjölmarga minni bikara bæði heima og erlendis.

Nacional var stofnað með sameiningu tveggja eldri félaga, Montevideo Football Club og Uruguay Athletic Club en hin ensku heiti þeirra voru til marks um þátt Breta í að kynna knattspyrnuna í Suður-Ameríku. Stúdentarnir sem stóðu að sameiningunni voru hins vegar úrúgvæskir þjóðernissinnar, völdu nýja liðinu spænskt nafn og ákváðu að einkennislitir þess skyldu vera rauður, blár og hvítur - en sú litasamsetning var sögulega tengd við þjóðhetjuna José Gervasio.

Úrúgvæski stíllinn

[breyta | breyta frumkóða]
Keppnislið Nacional árið 1905 eftir sigur á argentínskum mótherjum.

Árið 1900 hóf Nacional að leika á nýreistum Estadio Gran Parque Central, sem er enn í dag heimavöllur liðsins. Sama ár stofnsettu fjögur félög útlendra manna knattspyrnusamband Úrúgvæ og meistaramót. Nacional sótti um aðild en var synjað, þar sem hin félögin töldu að lið innfæddra væru ekki nægilega burðug. Ári síðar þurfti sambandið þó að endurskoða ákvörðun sína eftir að Nacional hafði náð góðum úrslitum í fjölda vináttuleikja og til tals kom að félagið gengi til liðs við argentínska sambandið.

Nacional hafnaði í öðru sæti úrúgvæsku deildarinnar á sínu fyrsta ári, 1901. Árin 1902 og 1903 varð það svo úrúgvæskur meistari í fyrsta og annað sinn. Seinna árið var liði Nacional teflt fram í heild sinni sem landsliði Úrúgvæ í fyrsta leik þess, 3:2 sigri á Argentínu.

Eftir þessa góðu byrjun tók við nokkurra ára titlaþurrð og Nacional náði ekki að hampa meistaratitlinum í heimalandinu fyrr en árið 1912. Það gerðist í kjölfar hallarbyltingar innan félagsins á árinu 1911 þar sem ákveðið var að heimila leikmönnum úr alþýðustétt að keppa undir merkjum félagsins, en fram að því hafði liðið einvörðungu verið skipað menntamönnum og mönnum úr efri lögum þjóðfélagsins.

Við tók sannkölluð gullöld í sögu Nacional, sem varð úrúgvæskur meistari níu sinnum á árabilinu 1912-24. Einkennismerki Nacional á velli var leikstíll sem byggði á hröðum samleik og mönnum sem gátu rakið boltann í stað þess að treysta á líkamlegan styrk, langar sendingar og harðar tæklingar. Þetta varð jafnframt leikstíll úrúgvæska landsliðsins sem hafði mikla yfirburði í knattspyrnukeppnum í Suður-Ameríku á öðrum og þriðja áratugnum og sló í gegn á Ólympíuleikunum 1924 og 1928.

Á faraldsfæti

[breyta | breyta frumkóða]
Nacional og Barcelona mætast í Evrópuferðinni miklu árið 1925.

Sigur Úrúgvæ á ÓL í París vakti gríðarlega athygli á suður-amersískri knattspyrnu utan álfunnar. Nacional hafði á að skipa mörgum bestu leikmönnum landsliðsins, s.s. þeim Héctor Castro og Ángel Romano og fékk í kjölfarið boð um keppnisferðir til Evrópu og Norður-Ameríku árin 1925 og 1927. Evrópuferðin tók hálft ár, þar sem ferðast var til níu landa. Nacional vann 26 sinnum, gerði sjö jafntefli en tapaði fimm sinnum. Áætlað var að 800 þúsund áhorfendur hefðu séð leiki liðsins, í því sem kalla má stærstu keppnisferð knattspyrnusögunnar. Í Norður-Ameríkuferðinni tveimur árum síðar lék Nacional nítján leiki og sigraði í sextán þeirra og tapaði aðeins einu sinni.

Þetta mikla heimshornaflakk setti vitaskuld þátttöku Nacional í deildinni heima fyrir í uppnám. Deilur um mótshaldið gerðu það að verkum að ekki var keppt öll árin á seinni hluta þriðja áratugarins og önnur félög nýttu sér tækifærið til styrkingar á meðan Nacional var með hugann við útlönd. Frá 1924 leið tæpur áratugur uns Nacional varð úrúgvæskur meistari á nýjan leik. Er það lengri bið en nokkru sinni aftur í sögu félagasins.

Hvíta maskínan

[breyta | breyta frumkóða]

Titlaþurrð Nacional lauk árið 1933. Árið áður hafði atvinnumennska verið innleidd í úrúgvæskri knattspyrnu, sem átti eftir að hafa talsverð áhrif. Nacional tefldi þá fram mikið breyttu liði sem síðar fékk viðurnefnið La Máquina Blanca eða Hvíta maskínan. Liðið var sókndjarft og sigursælt en Nacional og erkifjendurnir í Peñarol unnu á víxl nær alla titla sem í boði voru.

Argentínski leikmaðurinn Atilio García gekk til liðs við félagið árið 1938 og var lykilmaður í sigursælu Nacional-liði undir stjórn gömlu kempunnar Héctor Castro. García varð markakóngur úrúgvæsku deildarinnar átta sinnum á níu ára tímabili. Nacional varð meistari fimm ár í röð frá 1939-1943. Á þessu tímabili vann liðið t.d. sinn stærsta sigur á Peñarol fyrr og síðar, 6:0.

Afrek í alþjóðakeppni

[breyta | breyta frumkóða]

Orðspor Nacional á alþjóðavettvangi byggðist á fyrri helmingi tuttugustu aldar einkum á ýmsum mótum á Rio de la Plata-svæðinu með þátttöku liða frá Argentínu og Úrúgvæ. Slíkar keppnir urðu síðar fyrirmyndin að Copa Libertadores, þar sem öll lið Suður-Ameríku öttu kappi. Afleiðing þessara kappleikja varð sú að mikill rígur myndaðist ekki aðeins gagnvart erkifjendunum í Peñarol heldur einnig gamalgrónum liðum í argentínska boltanum á borð við Boca Juniors, River Plate, Racing, Independiente, San Lorenzo, Rosario Central og Newell's Old Boys.

Nacional keppti fyrst í Copa Libertadores árið 1962, þar sem liðið féll úr leik í undanúrslitum gegn Peñarol. Árin 1964 og 1967 komst liðið í úrslitaleikinn en tapaði í bæði skiptin, fyrst gegn Independiente og síðar gegn Racing. Stjórnendur Nacional kostuðu miklu til að ná að byggja upp lið sem gæti farið alla leið í keppninni og árið 1969 virtist markmiðið ætla að nást, en í þriðja sinn mátti félagið bíta í það súra epli að tapa fyrir argentínskum mótherjum, að þessu sinni Estudiantes de La Plata, í úrslitunum.

Árið 1971 rættist draumurinn loks, undir stjórn Washington Etchamendi. Líkt og tveimur árum fyrr voru mótherjarnir Estudiantes de La Plata í úrslitaleik í Lima í Perú. Sama ár varð liðið heimsmeistari félagsliða eftir sigur á gríska liðinu Panathinaikos, sem hlupu í skarðið fyrir Ajax frá Hollandi sem neitaði að keppa. Árið eftir fagnaði Nacional sigri í keppni Suður- og Norður-Amerkíumeistaranna. Árangurinn heimafyrir var ekki síðri. Nacional varð meistari fjögur ár í röð frá 1969-72 og tapaði ekki leik gegn erkióvinunum í Peñarol í nærri þrjú ár.

Fleiri titlar í sarpinn

[breyta | breyta frumkóða]

Frá 1972 til 1980 varð Nacional aðeins einu sinni úrúgvæskur meistari, árið 1977 og þurfti að horfa upp á Peñarol raka inn meistaratitlunum. Árið 1980 vannst meistaratitillinn loks aftur og það sem meira var, Nacional varð í annað sinn sigurvegari í Copa Libertadores, eftir sigur á Sport Club Internacional frá Brasilíu í úrsliitum. Önnur gullverðlaun fylgdu í kjölfarið í heimsmeistarakeppni félagsliða eftir sigur á Nottingham Forest.

Þriðji og jafnframt síðasti Copa Libertadores-titillinn til þessa dags, vannst árið 1988. Nacional hafði mikla yfirburði í úrslitaleiknum sem fram fór á Estadio Centenario og sigraði Newell's Old Boys með þremur mörkum gegn engu. Líkt og í fyrri skiptin varð liðið jafnframt heimsmeistari, að þessu sinni eftir vítaspyrnukeppni þar sem mótherjarnir voru PSV Eindhoven frá Hollandi. Árið eftir vann Nacional í keppni Norður- og Suður-Ameríkumeistaranna, sem og meistarakeppni sigurliðanna í álfukeppnum Suður-Ameríku, hinni svokölluðu Recopa-keppni, þar sem andstæðingurinn var Racing Club frá Argentínu.

Breyttar aðstæður

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir því sem mikilvægi peninga jókst í heimsknattspyrnunni reyndist það erfiðara fyrir úrúgvæsku félögin að keppa við argentínsku og brasilísku stórliðin. Erfið fjárhagsstaða Nacional á tíunda áratugnum gerði það líka að verkum að félagið vann færri titla heimafyrir en vant var. Meistaratitlinum 1998 var þó fagnað af sérstakri ákefð, enda tókst með honum að koma í veg fyrir að Peñarol setti nýtt met með því að vinna sex meistaratitla í röð.

Frá aldamótum hefur Nacional verið sigursælla af stóru liðunum tveimur í Úrúgvæ. Árið 2005 réðst félagið í að endurbyggja sinn gamla heimavöll, Estadio Gran Parque Central, eftir að hafa um alllangt skeið látið sér nægja að leika á þjóðarleikvangnum Estadio Centenario.

Úrúgvæskur meistari (49): 1902, 1903, 1912, 1915, 1916, 1917, 1919, 1920, 1922, 1923, 1924,1933, 1934, 1939, 1940, 1941, 1942, 1943, 1946, 1947, 1950, 1952, 1955, 1956, 1957, 1962, 1963, 1966, 1969, 1970, 1971, 1972, 1977, 1980, 1983, 1992, 1998, 2000, 2001, 2002, 2005, 2005-06, 2008-09, 2010-11, 2011-12, 2014–15, 2016, 2019, 2020, 2022

Erlendir titlar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Copa Libertadores (3): 1971, 1980, 1988.
  • Heimsmeistarakeppni félagsliða (3): 1971, 1980, 1988.
  • Keppni meistaraliða Norður- og Suður-Ameríku (2): 1972, 1989.
  • Ameríku Recopa (1): 1989.