Héctor Castro

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Héctor Castro (f. 29. nóvember 1904 - d. 15. september 1960) var knattspyrnumaður og síðar þjálfari frá Úrúgvæ. Hann var í fyrsta sigurliði Úrúgvæ á HM 1930

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Sigurmark Héctor Castro gegn Argentínu í úrslitum fyrsta heimsmeistaramótsins.

Héctor Castro fæddist í Montevideo árið 1904. Þrettán ára gamall missti hann framan af annarri höndinni í vélsagarslysi og var einhentur upp frá því. Það skapaði honum talsverða sérstöðu meðal knattspyrnumanna síns tíma og hlaut hann því viðurnefnið El Mancho eða „sá einhenti“.

Félagsliðaferill hans hófst leiktíðina 1923/24 með Nacional og í herbúðum þess liðs varð hann þrívegis úrúgvæskur meistari áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1936. Landsliðsferill hans varð nálega jafnlangur. Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 1926 og þann síðasta árið 1935. Leikirnir urðu alls 23 og í þeim skoraði Castro 15 mörk.

Héctor Castro var í liði Úrúgvæ sem varð Ólympíumeistari 1928 og skoraði í sigri liðsins gegn Þýskalandi í fjórðungsúrslitum. Hann var sömuleiðis meðal leikmanna í heimsmeistaraliði Úrúgvæ á heimavelli árið 1930. Þar skoraði hann fyrsta og eina markið gegn Perú í opnunarleik Estadio Centenario í Montevideo. Hann kom aftur við sögu í sjálfum úrslitaleiknum þar sem hann gulltryggði 4:2 sigur á Argentínu í blálokin.

Eftir að keppnisferlinum lauk hóf Héctor Castro þjálfun og varð margfaldur meistari með Nacional. Þá stýrði hann landsliði Úrúgvæ um tíma.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]