Hellarnir við Hellu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjóshellir
Fjóshellir, inngangur
Í Fjóshellinum

Hellarnir við Hellu eru staðsettir við bæinn Ægissíðu sem stendur við Ytri-Rangá rétt áður en komið er að Hellu úr vesturátt. Bærinn hefur um aldir verið vinsæll áningarstaður, en beint fyrir neðan bæinn er vað yfir Ytri-Rangá sem oft á tíðum reyndist erfitt yfirferðar. Ægissíða var miðstöð vöru- og póstflutninga fyrir sveitina auk þess sem fyrsta símstöðin á svæðinu var reist á bænum árið 1909. Það gat því orðið gestkvæmt á Ægissíðu og þurfti vinnufólk og börn stundum að gista í hellunum til að skapa rúm fyrir gesti í íbúðarhúsinu.[1]

Manngerðir hellar[breyta | breyta frumkóða]

Manngerðir hellar eru víða á Suðurlandi. Vitað er um vel á annað hundrað hella á svæðinu frá Ölfusi og austur í Mýrdal. Fyrir framan marga hella hafa verið hlaðnir forskálar og tengjast þeir oft útihúsum og bæjarhúsum. Hellarnir eru einkennandi fyrir Suðurland og einungis er vitað um fjóra hella af sama tagi á Norðurlandi. Hellarnir hafa verið notaðir í áranna rás enda traustari og endingarbetri en húsin sem hlaðin voru úr torfi og grjóti og sumir þeirra eru glettilega stórir samanborið við þau. Sandsteinninn sem hellarnir eru hoggnir í er orðinn til úr foksandi og stundum vatnsbornum sandi á jökulsáraurum í ísaldarlok fyrir um 10.000 árum. Laus sandurinn rann síðan saman í berg, þ.e. mjúkan sandstein. Sandsteinninn er víðast mjög einsleitur að innri gerð og lítið sem ekkert af steinum og hnullungum er í honum. Það gerir það að verkum að auðvelt er að vinna á honum með öxum, hökum, meitlum og öðrum grafartólum. Hellagerð hefur sennilega verið stunduð á Íslandi allt frá landnámstíð og fram á miðja 20. öld. Elsta heimild um manngerða hella á Íslandi er í Jarteinabók Þorláks helga frá 1199. Hellagerð er ekki þekkt í Noregi og landnámsmenn hafa því annað hvort fundið upp á því að grafa hellana, hellarnir að einhverju leyti verið til staðar þegar þeir komu eða þeir lært þá list af öðrum, jafnvel fólki sem fyrir var í landinu. Á víkingaöld var hellagerð til að mynda mikið stunduð á Írlandi og tengdust þeir ýmist hernaði eða trúariðkun. Aldur íslensku hellanna er ekki þekktur en margir hafa reynt að geta sér til um uppruna þeirra.

Munnmælasögur á Suðurlandi, sem sumir rekja til Einars Benediktssonar skálds, segja að hellarnir hafi verið gerðir af Pöpum fyrir landnám norrænna manna. Hellarnir eru því hjúpaðir dulúð og í mörgum þeirra má finna veggristur, fangamörk, ártöl, krossmörk, búmerki og jafnvel rúnir. Hellarnir hafa aðallega verið notaðir fyrir búfénað, hey og matvæli. Eftir tilkomu steinsteyptra húsa á Íslandi fór hlutverk hellanna minnkandi og flestir þeirra standa nú auðir.[2]

Nafngift[breyta | breyta frumkóða]

Bæjarstæðið er fornt en bæjarnafnið er þó hvorki að finna í Landnámu eða í fornsögum. Ægissíðu er fyrst getið í máldaga Oddakirkju frá 1270 en bærinn er þó að öllum líkindum mun eldri. Nafnið „Ægissíða“ hefur vafist fyrir mönnum en bærinn stendur átján kílómetra frá sjó. Landnámsbærinn Hrafntóftir stendur fyrir neðan Ægissíðu, nær sjónum, og því ómögulegt að Ægissíða hafi staðið við sjó við landnám.

Fjórar skýringar hafa verið gefnar fyrir nafngiftinni á bænum. Í fyrsta lagi sé nafnið tilkomið vegna tengingarinnar við sjóinn. Ekki vegna þess að bærinn stendur við sjóinn heldur hafi verið siglt frá sjónum upp Rangá og að Ægissíðufossi sem er örlitlu neðar í ánni en þar sem bærinn stendur.

Í öðru lagi  hefur því verið haldið fram að „Ægi“ sé komið af því að æja. Bærinn stendur við vaðið yfir Ytri-Rangá og því hafa margir ferðalangar í gegnum tíðina komið við á Ægissíðu á leið sinni um landið.

Í þriðja lagi má finna ástæður nafngiftarinnar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þjóðsagan er á þá leið að í harðæri endur fyrir löngu hafi jörðin verið seld fyrir eina reykta ærsíðu. Eftir það hafi bærinn fengið nafnið Ærsíða sem með tíð og tíma breyttist í nafnið Ægissíða. 

Í fjórða lagi er til sú skýring að nafnið sé af keltneskum toga. Í fornírskum sögum er fjallað mikið um undirheimaguði eða hulduþjóð sem búa í hellum og fornsögulegum grafhýsum Írlands. Bústaðir hulduþjóðarinnar nefndust síde (et. síd). Hulduþjóðin eða guðaþjóðin var kennd við dvalarstað sinn og nefndist áes síde. Þessar hulduverur líktust álfum en Keltar gerðu ekki skýran greinamun á guðum, goðsagnahetjum, álfum og dísum. Írskar þjóðsögur segja því af áes síde, undirheimaþjóð eða hellisbúum. Hugsanlega gæti Ægissíða dregið nafn sitt af þessum írsku hellisbúum.[3]

Skráðar heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu skráðu heimildir um hellana á Ægissíðu eru í þulu sem Guðlaug Stefánsdóttir í Selkoti á að hafa farið með fyrir Vigfús Þórarinsson sýslumann í lok 18. aldar þar sem hún nefnir átján hella á Ægissíðu.

Árið 1818 er hellanna getið í skýrslu séra Steingríms Jónssonar sem þá var prestur á Odda og varð síðar biskup. Þar segir hann mjög gamla hella standa á Ægissíðu. Helstu skráðu heimildir um hellana er að finna í minnisbókum og skýrslum um búskap hjá Jóni Guðmundssyni bónda á Ægissíðu. Jón hóf búskap á Ægissíðu 1885 og var mikill áhugamaður um hellana, hélt þeim vel við og nýtti þá á ýmsa vegu. Auk þess að nýta hella sem höfðu áður verið í notkun lét hann hreinsa út og taka í gegn nokkra hella sem lengi höfðu legið í vanhirðu.[4]

Hellarnir[breyta | breyta frumkóða]

Hlöðuhellir[breyta | breyta frumkóða]

Hlöðuhellir er nyrsti hellirinn á Ægissíðu. Hann er tengdur Fjárhelli með göngum. Framan af 20. öld voru hellarnir tveir notaðir, eins og nöfnin benda til, sem hlaða og fjárhús.

Um aldamótin 1900 var Hlöðuhellir nær fullur að mold en hægt var að skríða á maganum inn eftir honum. Árið 1913 var mokað út úr hellinum að þeim hluta þar sem hrunið hafði úr loftinu og strompur gerður við endann. Árið 1927 voru grafin 10 metra göng milli Hlöðuhellis og Fjárhellis.

Hellirinn var notaður sem kartöflugeymsla frá miðri 20. öld og fram á 9. áratuginn. Árið 1967 var forskála hellisins breytt og steyptur breiður og hár inngangur svo að dráttarvél kæmist inn.

Árið 2016 var innri hluti hellisins grafinn upp í samvinnu við Minjastofnun. Hellirinn reyndist vera nákvæmlega helmingi lengri en áður virtist, eða um 22 metrar að lengd. Við uppgröftinn fannst hellisafkimi með ferhyrndu þversniði, en aðrir hellar á Ægissíðu eru hvelfdir. Innst í hellinum fannst sérstök steinhleðsla sem ekki hefur fengist skýring á.

Fjárhellir[breyta | breyta frumkóða]

Fjárhellir var í notkun þegar Jón Guðmundsson tók við búinu á Ægissíðu árið 1885 og hafði þá verið í notkun í nokkurn tíma. Í búskrá sína ritaði Jón árið 1906 að í Fjárhelli væru hafðar nítján ær og tveir lambhrútar en þegar Þorgils Jónsson var bóndi á Ægissíðu voru allt upp í 60-70 kindur í hellinum. Forskálinn er hlaðinn úr hellugrjóti og torfi og í þakinu eru stórar þunnar basaltshellur eins og tíðkaðist í þekjum húsa á Suðurlandi til að verjast mikilli úrkomu. Hellirinn var ekki eingöngu notaður sem fjárhús heldur var einnig grafið þar fyrir brunni. Brunnurinn er 0,65 metrar í þvermál og 4,5-5 metra djúpur en niður að grunnvatni eru 3,6 metrar. Vatnið var að mestu notað fyrir kindur í hellinum.

Skagahellir[breyta | breyta frumkóða]

Skagahellir stendur í hólnum Skaga sem bærinn Ægissíða IV hvílir á. Hellirinn er lítill og er nú notaður sem búr, aðallega fyrir kartöflur, og er því eini hellirinn á Ægissíðu sem er enn í notkun. Á þriðja áratug 20. aldar var reist refabú á Skaga rétt við Skagahelli. Hellirinn var þá notaður til að geyma fóður fyrir refina, aðallega kjöt, og svo það skemmdist ekki var hafður ís í hellinum. Á sumum stöðum þekktist að nota hella sem íshús, þá var snjó mokað ofan í hellana að vetri og geymd matvæli í snjónum. Hægt var að halda matvælum köldum með þessum hætti langt fram eftir sumri.

Fyrsta árið eftir að hjónin á Ægissíðu IV byggðu íbúðarhúsið nýttu þau hellinn sem kæligeymslu í staðinn fyrir ísskáp. Þau notuðu hellinn alla tíð til að geyma jarðávexti, saft og sultur enda eru hellar vel til þess fallnir að geyma matvæli því hitastigið í þeim helst nokkurn veginn við þrjár til fimm gráður allan ársins hring.

Fjóshellir[breyta | breyta frumkóða]

Fjóshellir er ásamt Hlöðuhelli meðal stærstu manngerðu hella sem vitað er um á Íslandi. Hellirinn var ekki notaður sem fjós eins og nafn hans bendir til heldur var hann notaður sem hlaða fyrir fjósið á Ægissíðu fram til ársins 1975. Hellirinn hafði þá verið notaður sem fjóshlaða svo lengi sem elstu menn mundu. Lengi vel lá aðalinngangur hellisins niður úr fjósgólfinu. Niður í hellinn lágu 22 tröppur og yfir tröppurnar voru lagðir teinar og smíðaður trévagn svo auðveldara væri að hífa hey upp úr hellinum. Teinar þessir voru úr gömlu járnbrautinni sem notuð var við gerð Reykjavíkurhafnar. Nú er gengið inn um upprunalega innganginn þar sem reistur var nýr forskáli árið 1999. Innst í hellinum er gólfið hærra, líta má á það sem eins konar svið og nefnist þessi staður í hellinum Kapella eða Gafhlað. Á veggnum innst í Kapellunni er að finna merkilegt krossmark. Í hellinum er einnig að finna tvö hoggin sæti vinstra megin við innganginn og fjölmarga stalla sem hægt er að nota til að lýsa upp hellinn með ljósgjafa eins og kertum, kolum o.fl.

Hellarnir á Ægissíðu eru margir með strompa sem eru að mestu hlaðnir úr grjóti. Stromparnir eru misstórir og mismunandi hve margir strompar prýða hvern helli fyrir sig. Í Fjóshelli eru tveir veglegir strompar, annar gerður af Torfa Jónssyni til að auðvelda vinnu við hey.

Einar Benediktsson þóttist sjá merki um fornkeltneskt letur, ogham, í Fjóshellinum en þar er að finna margar veggjaristur. Hellirinn hefur verið vinsæll ferðamannastaður í meira en öld og hefur hýst ýmsa viðburði eins og giftingar, tónleika og messur.

Kirkjuhellir[breyta | breyta frumkóða]

Örnefnið Kirkjuhellir gæti verið frá þeim tíma þegar sögur um Papa fengu byr undir báða vængi. Ástæðan fyrir nafngiftinni er lögun hellisins. Í fremri hluta hans er lágur forhellir en aftar er há hvelfing sem minnir á kirkjuhvelfingu. Margir töldu Kirkjuhelli vera tilkomumesta hellinn á Ægissíðu vegna hvelfingarinnar og hafa þar verið haldnar kaþólskar messur. Hellirinn var um langt árabil notaður sem fjárhús og seinna sem hlaða. Nokkuð hefur hrunið úr loftinu sem er þess vegna orðið óreglulegt en í forskálanum má vel sjá upprunalegt lag innri hellisins sem hefur verið hoggið í hvelfingu. Bæði veðrun og ágangur búfjár hefur gert það að verkum að hvelfingin er ekki jafn tilkomumikil og fyrir um hundrað árum.

Af öryggisástæðum er Kirkjuhellir lokaður.

Hrútshellir[breyta | breyta frumkóða]

Hrútshellir er lítill kúlulaga hellir staðsettur rétt vestan Kirkjuhellis. Jón Guðmundsson ritaði í minnisbók sína árið 1895: „Búinn til Hrútshellir“ en Einar Ólafsson á Ægissíðu II taldi að Jón hafi átt við að gerð var stór vegleg viðbygging við hellinn og að hellirinn sjálfur sé því eldri. Sú viðbygging er horfin og sést aðeins grunnur hennar í dag. Hellirinn og viðbyggingin hýstu hrúta eins og nafnið ber til kynna.

Sigurður Þorgilsson frá Ægissíðu byggði reykkofa fyrir ofan Hrútshelli og notaði hellinn fyrir eldstæði. Kveikt var upp í eldivið í hellinum og reykurinn leiddur um rör upp um strompinn og inn í kofann. Þegar reykurinn hafði stigið upp varð hitastigið hæfilegt til að kaldreykja kjöt.

Brunnhellir[breyta | breyta frumkóða]

Brunnhellir stendur á milli Hrútshellis og Fjóshellis. Hellirinn fannst árið 1913 þegar hestur festi fót í holu og í ljós kom hellir. Á þriðja áratugnum gróf Torfi Jónsson brunn í hellisgólfið sem notaður var fyrir bæinn og fjósið fram til 1940. Hellirinn hefur verið lokaður frá árinu 1949.

Búrhellir[breyta | breyta frumkóða]

Búrhellar eru sjaldgæfir en þekktastur þeirra er Búrhellir á Ægissíðu. Hellirinn er staðsettur undir einu íbúðarhúsanna á Ægissíðu og er innangengt í hann úr íbúðarhúsinu. Jón Guðmundsson skrifaði í dagbók sína að hann hafi grafið upp gamlan helli árið 1899 og mun það vera Búrhellir sem hafði þá staðið ónotaður um langt skeið. Hellirinn var staðsettur undir smiðju Jóns. Þegar Jón hreinsaði hellinn virtist sem hann hefði hrunið saman innst þar sem Jón taldi að líklega hefði verið forn uppgangur. Hann hlóð fyrir hrunið og er það því ekki sjáanlegt í dag. Brynjúlfur frá Minna-Núpi skrifaði að þegar Jón fann hellinn hafi mátt sjá á hellisveggjum og gólfi hellisins för eftir matarkeröld. Matthías Þórðarson skráði í bækur sínar í upphafi 20. aldar að í hellinum væru holur eftir sjö keröld, sáför, og að hellirinn væri 15 metra langur og með tveimur strompum. Holurnar eru enn sjáanlegar í gólfi hellisins og eru nokkuð djúpar. Á Þjóðminjasafni eru nokkrir munir frá Ægissíðu og fundust flestir þeirra við uppgröft Jóns á Búrhelli. Fyrst um sinn var hellirinn notaður sem geymsla fyrir hey, síðar fyrir eldsneyti og tað og loks sem búr.[5] Árið 1966 var íbúðarhúsið byggt og var þá hellirinn tengdur húsinu og tröppur steyptar frá kjallara að hellisopinu. Þegar grunnur var tekinn af húsinu var komið niður á forna rúst. Rústin reyndist vera forn skáli með langeldi. Var skálinn tengdur hellinum því inngangurinn í hann var úr skálagólfinu. Þar sem förin í gólfinu á Búrhelli benda til þess að þar hafi verið geysistór keröld má ætla að hann hafi verið búr fyrir skálann. Það sem meðal annars greinir húsafyrirkomulag í gegnum aldirnar í mismunandi tímabil er eldunaraðstaðan. Það sem einkennir skála frá landnámsöld eru langeldar. Frá landnámi til 13. aldar notuðust Íslendingar við langeld, og minni lágeldstæði, til að hita upp skála sína og mat, en ekki við útieldhús eða svo kallaðar hlóðir. Eftir 1300 eru eldstæðin hærri og færast út að vegg og hlóðir verða algengar. Skálinn sem fannst undir Ægissíðu gefur því vísbendingar um að þar hafi staðið bær sem byggður var fyrir 1300 og að hellarnir hafi verið notaðir af þeim sem byggðu skálann.[6]

Lambhellar[breyta | breyta frumkóða]

Tveir hellar eru grafnir í brekkuna sem liggur sunnarlega í landi Ægissíðu. Þeir voru nefndir Fjárhellir og Hlöðuhellir en oftast kallaðir Lambhellar. Hellarnir voru síðast notaðir árið 1962. Fjárhellir er bogalaga og í neðri hluta veggjanna eru hoggnar 30 cm breiðar jötur. Jöturnar eru gerðar úr hellusteinum sem reistir hafa verið upp á rönd. Á veggjum Fjárhellis má sjá nokkur fangamörk, t.d. fangamark Jóns Guðmundssonar, og ártal sem merkir fyrsta búskaparár hans, 1885. Einnig má sjá ÞOD ANO1844 sem líklegast er Þórunn Ólafsdóttir sem árið 1844 var heimasæta á Ægissíðu. Fangamark systur hennar, Valgerðar Ólafsdóttur, má sjá á veggnum á móti. Matthías Þórðarson nefnir einnig fangamark bróður þeirra, OOS, Ólafs Ólafssonar sem nú er horfið. Í Hlöðuhelli eru axarför mjög greinileg og veggjakrot mjög neðarlega á veggnum sem bendir til þess að gólfið sé orðið hátt og grafa megi meira úr honum til að komast niður á upprunalegt gólf. Af lýsingu Matthíasar Þórðarsonar má einnig greina að hellirinn hafi verið mun dýpri árið 1917 en hann er í dag.[7] Lambhellar eru lokaðir af öryggisástæðum.[8]

Hólahellir[breyta | breyta frumkóða]

Hólahellir er í Hellishólum á mýrunum vestur af Ægissíðu og var notaður fyrir sauðfé. Hætt var að nota hellinn árið 1972. Er hann að fyllast af mold og þarf að skríða til að komast inn í hann. Hellirinn var frekar stór, 21 metrar að lengd og 3-4 metrar að breidd með allt að 2 metra lofthæð. Lítill skúti fannst rétt við Hólahelli árið 1932 þegar fjárrétt var byggð. Skútinn eða holan fékk nafnið Grýluhellir en er á mörkum þess að geta talist til hella.

Stekkjartúnshellir[breyta | breyta frumkóða]

Hellirinn er staðsettur í svokölluðu Stekkjartúni skammt vestur af Ægissíðu, mitt á milli bæjarins og Hólahellis. Gengið var inn í hellinn úr gamalli hlöðu en hellirinn hefur ekki verið notaður í áratugi.

Sjá líka[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Álfrún Perla Baldursdóttir; Árni Freyr Magnússon (2016). Saga hellanna á Ægissíðu - Söfnun og greining á munnlegum og skriflegum heimildum um gerð og notkun hellanna frá Landnámi til dagsins í dag. Nýsköpunarsjóður námsmanna.
  2. Árni Hjartarson; Guðmundur J. Guðmundsson (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
  3. Árni Hjartarson; Guðmundur J. Guðmundsson (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
  4. Árni Hjartarson; Guðmundur J. Guðmundsson (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
  5. Árni Hjartarson; Guðmundur J. Guðmundsson (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
  6. Hallgerður Gísladóttir (2007). "Eldamennska í torfbæjum", Smárit Byggðasafns Skagfirðinga 2. útg.
  7. Árni Hjartarson; Guðmundur J. Guðmundsson (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
  8. Álfrún Perla Baldursdóttir; Árni Freyr Magnússon (2016). Saga hellanna á Ægissíðu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]