Fara í innihald

Alfredo Di Stéfano

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alfredo Di Stéfano
Upplýsingar
Fullt nafn Alfredo Stéfano Di Stéfano Laulhé
Fæðingardagur 4. júlí 1926
Fæðingarstaður    Buenos Aires, Argentína
Dánardagur    7. júlí 2014 (88 ára)
Hæð 1,78 m
Leikstaða framsækinn miðherji, framherji
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1945-1949 River Plate 66 (49)
1945-1946 Huracán 25 (10)
1949-1953 Millonarios 101 (90)
1953-1964 Real Madrid 282 (216)
1964-1966 Espanyol 47 (11)
Landsliðsferill
1947
1957-1961
Argentína
Spánn
6 (6)
31 (23)
Þjálfaraferill
1967-1968
1969-70
1970-1974
1974
1975-1976
1976-1977
1979-1980
1981-1982
1982-1984
1985
1986-1988
1990-1991
Elche
Boca Juniors
Valencia
Sporting Clube
Rayo Vallecano
Castellón
Valencia
River Plate
Real Madrid
Boca Juniors
Valencia
Real Madrid

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Alfredo Di Stéfano (4. júlí 19267. júlí 2014) var argentínskur knattspyrnumaður sem einnig lék fyrir spænska landsliðið. Hann er jafnan talinn einn af bestu leikmönnum sögunnar og kunnastur fyrir afrek sín hjá Real Madrid á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Di Stéfano vann gullknöttinn tvívegis; 1957 og 1959.

Að keppnisferli loknum sneri hann sér að þjálfun með góðum árangri.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Alfredo Di Stéfano fæddist í Barracas-hverfinu í Buenos Aires. Föðurfjölskylda hans var ítalskir innflytjendur en móðir hans var argentínsk af frönskum og írskum ættum. Faðir hans, sem einnig hét Alfredo, hafði verið varnarmaður hjá River Plate en þurft að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla árið 1912. Hann hvatti son sinn dáða á knattspyrnusviðinu og vakti hann snemma athygli fyrir hæfileika sína.

Fyrstu skref í meistaraflokki[breyta | breyta frumkóða]

Átján ára gamall, árið 1944, gekk Di Stéfano til liðs við River Plate og hóf að leika með varaliðinu. Þegar árið eftir þreytti hann frumraun sína með aðalliðinu sem gekk undir nafninu La Máquina (ísl: Maskínan), enda sigursælt með afbrigðum. River Plate varð argentínskur meistari á leiktíðinni 1945 en Di Stéfano kom þó ekki við sögu nema í einni viðureign á þessu fyrsta meistaraflokksári sínu.

Eini leikur Di Stéfano árið 1945 var gegn Huracán sem fékk hann að láni árið eftir. Þar spilaði leikmaðurinn ungi undir stjórn gömlu landsliðskempunnar Guillermo Stábile. Alls skoraði hann tíu mörk fyrir Huracán, þar á meðal eitt gegn félögum sínum í River Plate eftir einungis tíu sekúndna leik, sem taldist skjótasta mark í sögu argentínskrar knattspyrnu fram að þeim tíma. Huracán reyndi að tryggja sér krafta Di Stéfano til frambúðar en gat ekki greitt hátt kaupverðið sem River Plate setti upp.

Tannhjól í vélinni[breyta | breyta frumkóða]

Di Stéfano sneri aftur til River Plate árið 1947 og var þegar settur á kantinn, þar sem hann átti erfitt með að fóta sig. Á miðju tímabili fékk hann að spreyta sig í stöðu framherja og sló þegar í gegn. Hann varð markakóngur deildarinnar með 27 mörk og átti stóran þátt í meistaratitli sinna manna, þrátt fyrir að hafa orðið að taka sér hlé frá keppni til að sinna herþjónustu.

Hann var potturinn og pannan í sigri argentínska landsliðsins í Copa America 1947 og skoraði þar sex mörk í jafnmörgum leikjum. Það reyndust þó einu landsleikir hans fyrir fósturjörðina af ástæðum sem síðar áttu eftir að koma í ljós.

Sem argentínskur meistari tók River Plate þátt í keppni suður-amerískra meistaraliða í febrúar 1948, sem talin er óbeinn forveri Copa Libertadores-keppninnar sem stofnuð var mun síðar. Þar mátti River Plate sætta sig við annað sætið á eftir brasilísku meistarana í Vasco da Gama. Glæst framtíð virtist bíða Di Stéfano hjá liði sínu, en það breyttist snögglega þegar hann gerðist einn helsti forsprakki leikmanna í launadeilu þeirra sem varð til þess að keppni í argentínsku deildinni var hætt á miðju tímabili 1948. Verkfall leikmanna stóð í átta mánuði og varð til þess að margir af snjöllustu knattspyrnumönnum Argentínu yfirgáfu land.

Kólumbíska ævintýrið[breyta | breyta frumkóða]

Eftir Superga-flugslysið í maí 1949, þar sem leikmannahópur ítalska stórliðsins Torino fórst á einu bretti var handsalað loforð um að Di Stéfano gengi í raðir félagsins. Áður en til þess kom fékk hann hins vegar tilboð frá félaga sínum Adolfo Pedernera, sem gengið hafði til liðs við Millonarios frá Bogotá í Kólumbíu. Kólumbíska deildin hafði slitið tengslin við knattspyrnusamband landsins og heyrði því ekki lengur undir reglur FIFA. Það þýddi að félög í landinu gátu fengið til sín leikmenn án þess að hirða um að greiða þeirra gömlu liðum fyrir þá. Við tók skammvinn gullöld, El Dorado, þar sem knattspyrnumenn fengu miklu hærri laun en annars staðar voru í boði og fjöldi leikmanna lét slag standa.

Með Di Stéfano, Perdenera og Nestor Rossi, þriðja River Plate-leikmanninn, innanborðs urðu Millonarios öflugasta félagið í Kólumbíu og urðu meistarar árin 1949, 1951 og 1952. Di Stéfano var ætíð markahæstur eða í hópi allra markahæstu manna í deildinni. Gullaldarskeið kólumbísku knattspyrnunnar varð þó skammlíft, því eftir samningaviðræður við FIFA féllust stjórnendur deildarinnar á að hætta að lokka til sín erlenda leikmenn og hétu því að þeir yrðu allir á bak og burt ekki síðar en árið 1954.

Í marsmánuði 1952 efndi spænska liði Real Madrid til fimmtíu ára afmælismóts félagsins. River Plate hafði verið boðið til keppninnar sem fulltrúi Suður-Ameríku, en þegar fréttist af því að fram væri komið enn öflugra kólumbískt lið var ákveðið að bjóða Millonarios í staðinn. Kólumbíumennirnir fóru með sigur af hólmi eftir að hafa gert jafntefli við Norrköping frá Svíþjóð og unnið 4:2 sigur á Real Madrid undir stjórn Héctor Scarone. Spánarförin markaði upphafið að heimsreisu Millonarios þar sem liðið sigraði bæði hið dáða ungverska landslið og heimsmeistara Úrúgvæ.

Áhugi evrópskra liða á Di Stéfano var vakinn fyrir alvöru og héldu fulltrúar Barcelona til Buenos Aires og náðu samkomulagi við River Plate um kaup á leikmanninum fyrir stórfé. Var samningurinn gerður í ljósi þess að síðasti löglegi samningur Di Stéfano við félag innan vébanda FIFA væri við argentínska félagið. Real Madrid, sem einnig hafði hug á að tryggja sér krafta leikmannsins, sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og við tóku harðar deilur milli spænsku risanna. Á sama tíma íhugaði Di Stéfano að leggja skóna á hilluna og gerast kaupsýslumaður í heimalandinu.

FIFA fól fyrrum forseta spænska knattspyrnusambandsins að miðla málum í deilu Barcelona og Real Madrid um réttinn til að semja við Di Stéfano. Niðurstaða hans varð sú að leikmaðurinn skyldi leika í Madríd leiktíðirnar 1953-54 og 1955-56 en í Barselóna árin 1954-55 og 1956-57. Bæði lið féllust á þessa málamiðlun en hún kom þó aldrei til framkvæmda þar sem Barcelona endaði á að selja Madrídar-liðinu sinn hluta af samningi leikmannsins. Di Stéfano fékk hærri laun en dæmi voru um í knattspyrnuheiminum og tvöfalt hærri bónusa en liðsfélagar sínir. Illindin í tengslum við félagaskiptin urðu til þess að gera sambúð stórliðanna tveggja enn verri.

Í hvítri treyju[breyta | breyta frumkóða]

Di Stéfano var 27 ára gamall þegar hann gekk til liðs við Real Madrid haustið 1953. Tveir áratugir voru þá liðnir frá því að félagið hafði síðast orðið spænskur meistari. Hann var nokkurn tíma að aðlagast evrópskum fótbolta, en þegar líða tók á keppnistímabilið sprakk Di Stéfano út og varð markakóngur. Lið Real fagnaði meistaratitlinum, þeim fyrsta af átta sem liðið vann þau ellefu ár sem Argentínumaðurinn var í leikmannahópnum.

Real Madrid varði titilinn veturinn 1954-55, sem gerði það að verkum að félagið var fulltrúi Spánar þegar Evrópukeppni meistaraliða fór fram í fyrsta sinn árið eftir. Þar reyndust Madrídingar sérlega sigursælir og urðu meistarar fimm fyrstu skiptin sem keppnin var haldin. Di Stéfano missti naumlega af Gullknettinum þegar hann var fyrst veittur árið 1956 en hlaut verðlaunin í tvígang árin 1957 og 1959.

Árið 1956 gekk franski landsliðsmaðurinn Raymond Kopa til liðs við Real Madrid, en gat lítið leikið með félaginu þar óheimilt bar að tefla fram nema tveimur erlendum leikmönnum. Þetta jók þrýstinginn á að Di Stéfano fengi spænskt ríkisfang sem gekk eftir síðar á árinu. FIFA var tregt í taumi að heimila leikmanninum að spila fyrir spænska landsliðið þar sem hann hafði áður keppt í argentínsku landsliðstreyjunni, en að lokum tókst Knattspyrnusambandi Spánar að fá grænt ljós á það og átti Di Stéfano eftir að keppa fyrir Spán í rúmlega þrjátíu landsleikjum frá 1957 til 1961.

Real Madrid og brasilíska liðið Santos með ungstirnið Pelé innanborðs mættust á Santiago Bernabeu síðla árs 1959 í viðureign sem vakti gríðarlega athygli. Leiknum lauk með 5:3 sigri heimamanna.

Spænskur landsliðsmaður[breyta | breyta frumkóða]

Di Stéfano lánaðist aldrei að taka þátt í úrslitakeppni HM í knattspyrnu. Lið Spánverja var talið líklegt til afreka á HM í Svíþjóð 1958 en féllu úr leik fyrir Skotum í forkeppninni. Fjórum árum síðar tókst spænska liðinu að tryggja sér sæti á HM í Síle en Di Stéfano meiddist áður en til hennar kom og þrátt fyrir að vera í leikmannahópnum kom hann ekkert við sögu.

Svipaða sögu má segja af þátttöku Di Stéfano í EM. Spánverjar tefldu fram sterku liði í fyrstu Evrópukeppninni árið 1960 en eftir að liðið dróst gegn Sovétmönnum í fjórðungsúrslitum ákváð Spænska knattspyrnusambandið að gefa leikinn enda pólitískur fjandskapur milli ríkisstjórna landanna tveggja. Fjórum árum síðar urðu Spánverjar Evrópumeistarar á heimavelli en þá var Di Stéfano hættur í landsliðinu.

Líður að lokum ferilsins[breyta | breyta frumkóða]

Real Madrid tapaði fyrir Inter Mílanó í úrslitum Evrópukeppninnar 1964. Eftir leikinn bauð forseti Real Di Stéfano að færa sig yfir í þjálfarateymi félagsins í stað leikmannasamnings, en hann var þá orðinn 37 ára gamall sem þótti óvenjumikið fyrir framherja á þeim árum. Di Stéfano hafnaði boðinu og fljótlega bárust honum tilboð frá fjölda evrópskra liða. Eftir mikið kapphlaup varð Barselónaliðið Espanyol hlutskarpast. Hann lék með liðinu í tvær leiktíðir og endaði á að skora mikilvægt mark sem tryggði sæti Espanyol í efstu deild.

Síðasti deildarleikur Di Stéfano var þann 3. apríl árið 1966, hann var þá 39 ára og 274 daga gamall.

Knattspyrnustjórinn[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að skórnir voru komnir upp á hilluna sneri Di Stéfano sér að þjálfun. Hann stýrði liðum í Argentínu, Portúgal og á Spáni frá 1967 til 1991. Hann gerði bæði Boca Juniors og River Plate að argentínskum meisturum. Hann gerði Valencia að spænskum meisturum árið 1971 í fyrsta af þremur skiptum sínum við stjórnvölinn hjá liðinu. Síðar gerði hann liðið að meisturum í Evrópukeppni bikarhafa eftir sigur á Arsenal í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik árið 1980. Síðasta knattspyrnustjórastarf hans var hjá Real Madrid leiktíðina 1990-91.

Alfredo Di Stéfano bjó á Spáni síðustu ár ævi sinnar þar sem hann lést árið 2014. Hann fékk heiðursútför á vegum Real Madrid.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]