Wagner-hópurinn
Wagner-hópurinn Группа Вагнера | |
---|---|
Stofnun | 2014 |
Gerð | Hernaðarsamtök, málaliðasamtök |
Meðlimir | 8.000 (apríl 2022)[1] |
Forstöðumaður | Jevgeníj Prígozhín (eigandi og stjórnandi; d. 2023) Dmítríj Útkín(en) (hernaðarleiðtogi; d. 2023) |
Wagner-hópurinn (rússneska: Группа Вагнера; umritað Grúppa Vagnera) er hópur rússneskra málaliða sem var stofnaður árið 2014 af ólígarkanum Jevgeníj Prígozhín. Prígozhín var náinn bandamaður Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, og Wagner-hópurinn hefur starfað í ýmsum löndum sem nokkurs konar óformlegur armur rússneska hersins eða „hulduher“ ríkisstjórnar Pútíns. Hópurinn hefur meðal annars barist með Rússum eða bandamönnum þeirra í Úkraínu, Sýrlandi og í Vestur-Afríku.
Hernaðarleiðtogi Wagner-hópsins var lengst af Dmítríj Útkín(en), fyrrum sérsveitarmaður innan leyniþjónustu rússneska hersins, GRU. Útkín, sem var áhugamaður um þýska hernaðarsögu og var skreyttur húðflúrum með nasistamerkjum, nefndi hópinn eftir þýska tónskáldinu Richard Wagner.
Bandaríkin hafa skilgreint Wagner-hópinn sem alþjóðleg glæpasamtök frá árinu 2023.[2]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun og skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Wagner-hópurinn var stofnaður árið 2014 og var þá notaður við innlimun Rússlands á Krímskaga frá Úkraínu og sendur til að berjast gegn Úkraínumönnum í Donbas-héruðunum.[3] Hópurinn var stofnaður og fjármagnaður af rússneska auðkýfingnum Jevgeníj Prígozhín, sem er veitingahúsarekandi sem hefur gert fjölda starfssamninga við ríkisstjórn Rússlands og er gjarnan kallaður „kokkur Pútíns“.[4] Prígozhín neitaði því í mörg ár að hafa nokkur tengsl við Wagner-hópinn og höfðaði dómsmál gegn þeim sem bendluðu hann við samtökin. Í september 2022 viðurkenndi Prígozhín loks að hann væri stofnandi og eigandi Wagner-hópsins og kallaði hópinn „eina af grunnstoðum Móðurlandsins“.[5]
Árið 2022 hafði Wagner-hópurinn alls um 6.000 hermenn á sínum snærum. Margir þeirra voru fyrrverandi hermenn í rússneska hernum á aldrinum 30 til 50 ára sem áttu erfitt með að aðlagast daglegu lífi eftir stríðin í Téténíu og Georgíu. Dmítríj Útkín(en), fyrrum yfirmaður í sérsveit rússneska hersins, varð hernaðarleiðtogi hópsins. Hann hafði lokið störfum hjá Rússlandsher árið 2013 og hafið að starfa sjálfstætt. Útkín var aðdáandi þriðja ríkis Hitlers og er skreyttur húðflúrum af nasistatáknum. Talið er að Útkín hafi valið nafn Wagner-hópsins til heiðurs Richard Wagner, einu eftirlætis tónskáldi Hitlers.[4]
Opinberlega er Wagner-hópurinn ekki til. Þótt hópurinn njóti verndar, fjármagns og stuðnings stjórnvalda í Kreml neitar ríkisstjórn Rússlands því opinberlega að hópurinn eigi í tengslum við rússneska ríkið. Talið er að með þessu móti geti rússnesk stjórnvöld stýrt hernaði og landvinningum Wagner-hópsins án þess að gangast við stríðsglæpum eða mannréttindabrotum hans á alþjóðavettvangi.[6] Jafnframt er talið að með því að neita beinum tengslum við Wagner-hópinn hafi rússnesk stjórnvöld getað beitt honum til að meta hve hart sé hægt að ganga fram í samskiptum við Bandaríkin. Bent hefur verið á að Wagner-liðar hafi ráðist á gasbirgðastöð í Sýrlandi sem var vöktuð af bandarískum hermönnum árið 2017 en ríkisstjórn Rússlands hafi ekkert sagst kannast við árásina.[4]
Aðgerðir í Afríku og Mið-Austurlöndum
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2015 voru málaliðar Wagner-hópsins sendir til Sýrlands til að taka þátt í hernaðaraðstoð Rússa við stjórn Bashars al-Assad í sýrlensku borgarastyrjöldinni.[3] Í nóvember 2019 komst myndband í dreifingu á netinu þar sem Wagner-liðar sjást berja sýrlenskan fanga ítrekað með sleggju, skera síðan af honum höfuðið, hengja líkið upp á hvolfi og loks brenna það. Talið er að myndbandið hafi verið tekið upp árið 2017 í Homs í Sýrlandi.[7]
Wagner-hópurinn hefur tekið þátt í ýmsum hernaðardeilum í Afríku, þar sem ríkisstjórn Rússlands hefur reynt að auka áhrif sín á síðustu árum. Meðal annars hafa Wagner-liðar barist í Mið-Afríkulýðveldinu til að aðstoða stjórn forsetans Faustin-Archange Touadéra í baráttu hennar gegn uppreisnarmönnum. Stjórnin hafði áður notið aðstoðar hermanna frá Frakklandi og Sameinuðu þjóðunum en ákveðið var að hætta þjálfum hermanna í Mið-Afríkulýðveldinu vegna tengsla margra þeirra við Wagner-hópinn. Frakkar yfirgáfu landið í febrúar 2022.[3] Í skiptum fyrir þjónustu sína við stjórnvöld hefur Wagner-hópurinn fengið aðgang að nokkrum gullnámum í landinu.[8]
Árið 2018 voru þrír rússneskir blaðamenn frá blaðinu Novaja Gazeta, þeir Kíríll Radtsjenko, Aleksandr Rastorgújev og Orkhan Dzhemal, drepnir í Mið-Afríkulýðveldinu. Þeir voru staddir þar til að rannsaka starfsemi Wagner-hópsins í landinu.[9]
Wagner-hópurinn hefur einnig verið stjórnvöldum í Malí innan handar í yfirstandandi borgarastyrjöld gegn íslamistum þar. Eftir að forsetanum Ibrahim Boubacar Keïta var steypt af stóli í valdaráni árið 2020 hefur herforingjastjórn Malí í auknum mæli reitt sig á stuðning Wagner-hópsins í stað Frakka, sem höfðu veitt malískum stjórnvöldum hernaðaraðstoð frá árinu 2015.[3] Wagner-hópurinn hefur tekið þátt í fjöldamorðum og -aftökum á óbreyttum borgurum í hernaði sínum í Malí, meðal annars aftökum á um 400 manns í bænum Moura í mars 2022.[10][11]
Innrásin í Úkraínu
[breyta | breyta frumkóða]Wagner-hópurinn hefur tekið þátt í innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í febrúar 2022. Snemma í innrásinni er talið að málaliðum Wagner-hópsins hafi verið falið að myrða Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, á meðan rússneski herinn sat um úkraínsku höfuðborgina Kænugarð. Hópurinn hafi verið með lista skotmarka undir höndum sem ætti að ráða af dögum en hafi lítið orðið ágegnt og hafi beðið mikið mannfall.[12] Í mars 2022, áður en Rússar hörfuðu frá Kænugarði, var reiknað með því að um 400 Wagner-liðar væru staddir í borginni.[4]
Úkraínski herinn sagðist hafa gert árásir á höfuðstöðvar Wagner-hópsins í austurhluta Úkraínu þann 15. ágúst 2022.[13]
Í september 2022 var myndbandi lekið á netið þar sem Jevgeníj Prígozhín sást heimsækja fangelsi í Rússlandi og bjóða föngunum þar sakaruppgjöf gegn því að þeir gengju til liðs við Wagner-hópinn og berðust með honum í Úkraínu.[14][15] Í kjölfar birtingar myndbandsins viðurkenndi Prígozhín í fyrsta sinn opinberlega að hann ætti Wagner-hópinn eftir að hafa neitað því í mörg ár.[5]
Í nóvember birti Telegram-stöð tengd Wagner-hópnum myndband þar sem meðlimir hópsins sáust taka af lífi mann með sleggju. Maðurinn, Jevgeníj Núzhín, hafði gengið til liðs við Wagner-hópinn úr fangelsi en hafði verið handsamaður af Úkraínumönnum og síðan komist aftur í hendur Rússa. Prígozhín hrósaði myndbandinu og sagði Núzhín hafa verið svikara gegn Rússlandi.[16]
Wagner-hópurinn lék lykilhlutverk í mánaðalangri orrustu um bæinn Bakhmút sem leiddi til nær algerrar eyðileggingar bæjarins. Jevgeníj Prígozhín hefur ítrekað gagnrýnt yfirstjórn rússneska hersins, sér í lagi varnarmálaráðherrann Sergej Shojgú, fyrir að veita Wagner-hópnum ekki nægilegt liðsinni í orrustunni um bæinn og fyrir að senda hópnum ekki næg skotfæri.[17]
Í júní 2023 tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið að sjálfboðaliðasamtök á borð við Wagner-hópinn yrðu látin gangast undir samning við rússneska herinn fyrir fyrsta júlí. Hópurinn yrði þannig formlega settur undir yfirstjórn hersins. Jevgeníj Prígozhín sagði að Wagner-hópurinn myndi sniðganga þessa samninga, enda væru þeir fallnir til að draga úr skilvirkni hópsins og rússneskir hershöfðingjar væru ekki færir um að stýra honum.[18]
Uppreisn gegn Rússlandi
[breyta | breyta frumkóða]Þann 23. júní 2023, eftir langvarandi deilur milli Prígozhíns og leiðtoga rússneska hersins, gerði Wagner-hópurinn uppreisn og tók yfir rússnesku borgirnar Rostov við Don og Voronezh. Prígozhín lýsti því yfir að hópurinn hygðist halda til Moskvu til að vinna bug á óstjórn í hernaðarmálum landsins sem hefði opinberast í innrásinni í Úkraínu.[19] Vladímír Pútín sakaði Prígozhín um landráð og hét því að gerð yrði gagnsókn gegn Wagner-hópnum.[20]
Uppreisninni lauk síðar sama dag eftir að Prígozhín gerði samning við ríkisstjórnina með milligöngu Alexanders Lúkasjenkó, forseta Belarús.[21] Samkvæmt samkomulaginu fengu Wagner-liðar sem tóku þátt í uppreisninni sakaruppgjöf, ákærur gegn Prígozhín voru felldar niður og hann fékk að fara til Belarús.[22]
Jevgeníj Prígozhín og Dmítríj Útkín létust báðir ásamt fleiri leiðtogum Wagner-hópsins þann 23. ágúst 2023, tveimur mánuðum eftir uppreisnina, þegar flugvél þeirra brotlenti í Tverfylki í Rússlandi.[23] Í kjölfarið undirritaði Pútín tilskipun um að málaliðar Wagner-hópsins og annarra málaliðahópa yrðu að sverja Rússlandi hollustueið.[24]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Rai, Arpan (21. apríl 2022), Nearly 3,000 of Russia's notorious Wagner mercenary group have been killed in the war, UK MPs told, Independent
- ↑ Samúel Karl Ólason (21. janúar 2023). „Skilgreina Wagner sem alþjóðleg glæpasamtök“. Vísir. Sótt 21. janúar 2023.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 „Trójuhestur Rússa?“. mbl.is. 28. febrúar 2022. Sótt 2. október 2022.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 Freyr Gígja Gunnarsson (21. mars 2022). „Málaliðarnir sem eru fjármagnaðir af „kokki Pútíns"“. RÚV. Sótt 2. október 2022.
- ↑ 5,0 5,1 Samúel Karl Ólason (26. september 2022). „Kokkur Pútíns játar að eiga Wagner“. Vísir. Sótt 2. október 2022.
- ↑ Sigurður Kaiser (30. maí 2022). „Óvæginn Wagnerher Pútíns eirir engu“. RÚV. Sótt 2. október.
- ↑ Samúel Karl Ólason (22. nóvember 2019). „Rússneskur málaliði myndaði aðra pynta, myrða, afhöfða og brenna fanga“. Vísir. Sótt 2. október 2022.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (9. apríl 2023). „Wagner-liðar sagðir auka áhrif sín og sýnileika“. RÚV. Sótt 5. maí 2023.
- ↑ „Engin merki um pyntingar“. mbl.is. 2. ágúst 2018. Sótt 31. janúar 2022.
- ↑ „Rússar orðaðir við fjöldamorð í Malí“. mbl.is. 3. apríl 2022. Sótt 3. október 2022.
- ↑ Samúel Karl Ólason (31. maí 2022). „Hermenn og rússneskir málaliðar tóku hundruð af lífi í Malí“. Vísir. Sótt 3. október 2022.
- ↑ „Þrjú misheppnuð morðtilræði á einni viku“. mbl.is. 4. mars 2022. Sótt 3. október 2022.
- ↑ Árni Sæberg (15. ágúst 2022). „Segjast hafa ráðist á höfuðstöðvar Wagner-hópsins“. Vísir. Sótt 2. október 2022.
- ↑ Bogi Ágústsson (11. ágúst 2022). „Fangar berjast fyrir Rússa í Úkraínu“. RÚV. Sótt 2. október.
- ↑ Samúel Karl Ólason (15. september 2022). „„Kokkur Pútíns" býður föngum frelsi fyrir herþjónustu í Úkraínu“. Vísir. Sótt 3. október 2022.
- ↑ Samúel Karl Ólason (14. nóvember 2022). „Tóku eigin málaliða af lífi með sleggju“. Vísir. Sótt 14. nóvember 2022.
- ↑ Andri Yrkill Valsson (5. maí 2023). „Gagnrýnir Kreml og hótar að draga Wagner-liða frá Bakmút“. RÚV. Sótt 5. maí 2023.
- ↑ „Rússar vilja taka yfir Wagner-liða“. mbl.is. 11. júní 2023. Sótt 11. júní 2023.
- ↑ „Kokkur-Pútíns og uppreisn málaliðanna þokast í átt að Moskvu – En hver er þessi Prigozhin?“. DV. 24. júní 2023. Sótt 24. júní 2023.
- ↑ „Pútín: „Þetta eru landráð!"“. mbl.is. 24. júní 2023. Sótt 24. júní 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (23. júní 2023). „Prigozhin segir uppreisninni lokið“. Vísir. Sótt 23. júní 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason; Hólmfríður Gísladóttir (24. júní 2023). „Wagner-liðar fá sakaruppgjöf og Prigozhin fer til Belarús“. Vísir. Sótt 25. júní 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (23. ágúst 2023). „Prigozhin látinn eftir flugslys“. Vísir. Sótt 23. ágúst 2023.
- ↑ Magnús Jochum Pálsson (26. ágúst 2023). „Skipar málaliðum Wagners að sverja hollustueið“. Vísir. Sótt 27. ágúst 2023.