Stríð Rússlands og Georgíu
Stríð Rússlands og Georgíu | |||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Kort af hreyfingum rússneska hersins inn í Georgíu árið 2008. | |||||||||
| |||||||||
Stríðsaðilar | |||||||||
Rússland Suður-Ossetía Abkasía | Georgía | ||||||||
Leiðtogar | |||||||||
Mikhaíl Saakasvili | |||||||||
Fjöldi hermanna | |||||||||
27.000 manns | |||||||||
Mannfall og tjón | |||||||||
163–170 drepnir, 354 særðir, 1 týndur, 39 handteknir | 180 drepnir, 1.174 særðir, 4 týndir, 49 handteknir | ||||||||
Óbreyttir borgarar drepnir: |
Stríð Rússlands og Georgíu var stríð sem háð var á milli Rússlands og Georgíu í ágúst árið 2008. Með Rússum börðust einnig aðskilnaðarsinnar í héruðunum Abkasíu og Suður-Ossetíu gegn Georgíumönnum. Stríðið hefur verið kallað fyrsta evrópska stríð 21. aldar.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Upptök stríðsins má rekja til deilna um stöðu héraðanna Abkasíu og Suður-Ossetíu innan Georgíu. Þegar Georgía var hluti af Sovétríkjunum voru þessi héruð skilgreind sem sjálfstjórnarhéruð innan georgíska sovétlýðveldisins. Þegar Georgía hlaut sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 urðu héruðin hluti af nýja sjálfstæða lýðveldinu Georgíu, en Georgíumenn héldu ekki yfirráðum þar lengi. Suður-Ossetía lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 og Abkasía sömuleiðis árið 1992. Sjálfstæðisyfirlýsing Abkasíu frá Georgíu leiddi til blóðugs stríðs sem lauk með því að Georgíumenn glötuðu að mestu yfirráðum yfir héraðinu og Abkasar hófu þjóðernishreinsanir gegn Georgíumönnum sem enn bjuggu þar. Héruðin hafa ráðið eigin ráðum frá tíunda áratuginum en eru þó skilgreind af meirihluta alþjóðasamfélagsins sem hluti af Georgíu. Eftir átök milli Georgíu og Suður-Ossetíu í byrjun tíunda áratugarins tóku Rússar að sér friðargæslu í Suður-Ossetíu.[6]
Í ágústbyrjun árið 2008 hófu aðskilnaðarsinnar í Suður-Ossetíu sprengjuárásir á georgísk þorp. Georgísk stjórnvöld brugðust við með því að senda herlið inn í Suður-Ossetíu og hertóku fljótlega borgina Tskhinvali, eitt af höfuðvígjum aðskilnaðarsinnanna. Eftir hernám Georgíumanna á bænum sökuðu Rússar Georgíumenn um tilefnislausa árás gegn Suður-Ossetíu og gerðu innrás í Georgíu þann 8. ágúst í því skyni að koma á friði. Rússar réttlættu inngrip sitt meðal annars með því að saka Georgíumenn um þjóðernishreinsanir gegn Suður-Ossetum og um að jafna suður-ossetíska bæi við jörðu.[7]
Rússneskir og georgískir hermenn börðust í nokkra daga í Suður-Ossetíu uns Georgíumenn voru reknir á flótta. Rússar réðust einnig inn í Georgíu sjálfa frá Abkasíu og af Svartahafi. Þann 12. ágúst sömdu Rússar og Georgíumenn um vopnahlé með milligöngu Nicolasar Sarkozy Frakklandsforseta, sem þá var í forsæti evrópska ráðsins.
Eftir stríðið viðurkenndi Dmítríj Medvedev Rússlandsforseti formlega sjálfstæði Abkasíu og Suður-Ossetíu.[8] Frá því að stríðinu lauk hefur Rússland haldið hernámsliði í bæði Abkasíu og Suður-Ossetíu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ James Hider (27. ágúst 2008). „Russian-backed paramilitaries 'ethnically cleansing villages'“ (enska). The Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. ágúst 2008.
- ↑ 2,0 2,1 „Мы полагаем, что мы в полной мере доказали состав преступления“ (rússneska). Interfax. 3. júlí 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. maí 2011.
- ↑ „Deceased victims list“ (enska). Ossetia-war.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. maí 2009.
- ↑ „Список погибших граждан Южной Осетии на 04.09.08“ (rússneska). osetinfo.ru. 4. september 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. september 2008.
- ↑ „BASIC FACTS: CONSEQUENCES OF RUSSIAN AGGRESSION IN GEORGIA“ (enska). Utanríkisráðuneyti Georgíu. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. ágúst 2014.
- ↑ „Rússland tekur land af Georgíu“. RÚV. 27. júlí 2015. Sótt 21. febrúar 2019.
- ↑ Sölvi Karlsson (1. júní 2009). „Réttur hverra til hvers? Sjálfsákvörðunarréttur og breytingar á honum“. Sagnir. bls. 75-81.
- ↑ Halldór Arnarson (27. ágúst 2008). „Enn hitnar í kolunum“. Morgunblaðið. bls. 16.