Fara í innihald

Sergej Shojgú

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sergej Shojgú
Сергей Шойгу
Sergej Shojgú árið 2014.
Aðalritari öryggisráðs Rússlands
Núverandi
Tók við embætti
12. maí 2024
ForveriNíkolaj Patrúshev
Varnarmálaráðherra Rússlands
Í embætti
6. nóvember 2012 – 12. maí 2024
ForsetiVladímír Pútín
ForsætisráðherraDmítríj Medvedev
Míkhaíl Míshústín
ForveriAnatolíj Serdjúkov
EftirmaðurAndrej Beloúsov
Ráðherra neyðarástandsmála
Í embætti
17. apríl 1991 – 11. maí 2012
ForsetiBoris Jeltsín
Vladímír Pútín
Dmítríj Medvedev
Vladímír Pútín
Forsætisráðherra
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurVladímír Pútsjkov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. maí 1955 (1955-05-21) (69 ára)
Tsjadan, Túva, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Rússlandi)
ÞjóðerniRússneskur
StjórnmálaflokkurSameinað Rússland
MakiÍrína Shojgú
Börn2
HáskóliFjöltækniháskólinn í Krasnojarsk
Undirskrift

Sergej Kúzhúgetovítsj Shojgú (rússneska: Сергей Кужугетович Шойгу; f. 21. maí 1955) er rússneskur stjórnmálamaður og hershöfðingi. Hann var varnarmálaráðherra Rússlands frá árinu 2012 til ársins 2024. Shojgú var áður ráðherra neyðarástandsmála frá 1991 til 2012 og sveitarstjóri Moskvufylkis í stuttan tíma árið 2012. Shojgú er einn af nánustu bandamönnum Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og var um skeið nefndur sem hugsanlegur eftirmaður hans.

Faðir Sergej Shojgú, Kúzhúget Shojgú (1921-2010) var Túvani en móðir hans, Alexandra Jakovlevna (1924-2011) var Rússi af úkraínskum ættum.[1] Árið 1977 útskrifaðist Sergej úr Fjöltækniháskólanum í Krasnojarsk. Næsta áratuginn vann hann við byggingaframkvæmdir og hlaut smám saman stjórnunarstöður. Árið 1988 varð hann embættismaður hjá Kommúnistaflokknum í Abakan og síðan hjá ungliðahreyfingunni Komsomol. Árið 1990 flutti Shojgú frá Síberíu til Moskvu.

Shojgú vakti athygli stjórnvalda í byrjun tíunda áratugarins með hæfni sinni við að stilla til sátta og varð árið 1991 ráðherra neyðarástandsmála, sem var embætti sem hann hafði sjálfur fundið upp.[2] Í þessu embætti mætti Shojgú oft á vettvangi náttúruhamfara og hryðjuverkaárása með teymi öryggissérfræðinga og hafði umsjón með ýmsum öryggisaðgerðum.[2] Hann varð á þessum tíma hátt skrifaður bæði meðal rússneskra valdsmanna og meðal almennra borgara.[2] Shojgú var álitinn hugsanlegur arftaki Borísar Jeltsín á forsetastól.[3]

Frá 1999 til 2001 var Shojgú leiðtogi stjórnmálaflokksins Einingar. Eftir að Eining rann inn í nýja stjórnmálaflokkinn Sameinað Rússland undir forystu Vladímírs Pútín árið 2001 varð Shojgú einn af þremur leiðtogum flokksins.[2] Shojgú hefur átt sæti í æðstaráði Sameinaðs Rússlands síðan þá.

Árið 1999 var Shojgú sæmdur æðstu heiðursorðu Rússlands, Hetju rússneska sambandsríkisins. Shojgú var sveitarstjóri Moskvufylkis í nokkra mánuði árið 2012.

Varnarmálaráðherra Rússlands (2012–)

[breyta | breyta frumkóða]
Sergej Shojgú ásamt Vladímír Pútín forseta og Valeríj Gerasímov, yfirmanni rússneska herráðsins, við hernaðaræfingar árið 2019.

Þann 6. nóvember 2012 var Shojgú útnefndur varnarmálaráðherra[4] eftir afsögn Anatolíj Serdjúkov.[5] Greint var frá þessari uppstokkun í rússneskum fréttablöðum í nóvember 2012.[6] Útnefningin kom á óvart þar sem Shojgú hafði aldrei gegnt herþjónustu, átti ekkert bakland innan rússneska hersins og forystuaðferðir hans höfðu fallið í grýttan jarðveg hjá gömlum herforingjum.[2] Útnefning Shojgú kom innan fárra vikna frá því að Valeríj Gerasímov var útnefndur yfirmaður rússneska herráðsins og var því álitin tengd henni.[3]

Eftir úkraínsku byltinguna árið 2014 og misheppnaðar aðgerðir rússnesku alríkislögreglunnar (FSB) til að binda á hana enda skipaði Vladímír Pútín rússneska hernum undir stjórn Shojgú að hernema og innlima Krímskaga í Rússland.[2] Í kjölfar þessara atburða var Shojgú sóttur til saka í Úkraínu fyrir að „stofna vopnaðar vígasveitir.“

Í desember 2015 stýrði Shojgú hernaðarinngripi Rússa í sýrlensku borgarastyrjöldina sem gerði Bashar al-Assad Sýrlandsforseta kleift að ná yfirhöndinni gagnvart uppreisnarmönnum.[2]

Shojgú hefur farið ásamt Vladímír Pútín í opinberar heimsóknir til ýmissa ríkja, þar á meðal Sýrlands, Katar og Ísraels. Þar sem slíkar ferðir teljast almennt á verksviði utanríkismála fremur en varnarmála hafa stjórnmálaskýrendur túlkað þetta sem staðfestingu á auknu mikilvægi hersins í rússneskum stjórnmálum.[7]

Sergej Shojgú við hernaðaræfingar árið 2019.

Sem varnarmálaráðherra lét Shojgú stofna nýja netvarnadeild og sameina rússneska flug- og geimherinn í nýjar loftvarnadeildir.[2] Hann hefur búið svo um hnútana að erfiðara sé fyrir unga Rússa að sleppa við herþjónustu.[2] Árið 2017 lét hann breyta einkennisbúningum rússneska hersins til að gera þá líkari sovéskum einkennisbúningum frá árinu 1945, sem kallaðir eru „búningar sigurvegarans.“[2] Shojgú hefur umsjón með GRU, leyniþjónustu rússneska hersins. Stofnunin er grunuð um að hafa á öðrum áratugi 21. aldar framið fjölda pólitískra morða í Evrópu.[3] Shojgú náði fram hækkun á fjárframlögum til rússneska hersins og jók áhrif sín og vinsældir í Kreml.[2] Hann hefur verið kallaður „maðurinn sem kom hernum aftur til æðstu metorða í Kreml á kostnað leyniþjónustunnar“[2] eða „táknmynd hervæðingarinnar í Rússlandi.“[8]

Rússneskir ríkisfjölmiðlar hafa gert mikið úr vináttu Shojgú og Vladímírs Pútín frá lokum annars áratugar 21. aldar.[9] Því hefur verið bent á Shojgú sem mögulegan eftirmann Pútíns.[9][10]

Þann 25. febrúar var Shojgú settur á lista bandaríska fjármálaráðuneytisins yfir rússneskra ráðamenn sem sæta persónulegum refsiaðgerðum í Bandaríkjunum.[11] Hann hefur verið skilgreindur sem ógn við bandarískt þjóðaröryggi vegna hlutverks hans við innrás Rússa í Úkraínu.

Shojgú er einn fárra á æðstu stöðum í Rússlandi sem hafa verið í áhrifastöðu bæði á valdatíð Borísar Jeltsín og Vladímírs Pútín.[3] Undir lok ágúst 2022 voru hins vegar orðrómar á kreiki um að Pútín hefði að mestu ýtt Shojgú til hliðar frá ákvarðanatöku vegna slælegs árangurs við innrásina í Úkraínu. Pútín tæki nú við skýrslum frá hershöfðingjum sínum án milligöngu Shojgú.[12][13]

Eftir að Pútín hóf fimmta kjörtímabil sitt sem forseti árið 2024 stokkaði hann upp rússnesku ríkisstjórnina og leysti Shojgú úr embætti varnarmálaráðherra. Andrej Beloúsov tók við af Shojgú sem varnarmálaráðherra en Shojgú tók við embætti aðalritara öryggisráðs Rússlands.[14]

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn gaf í júní 2024 út handtökuskipun gegn Shojgú vegna meintra stríðsglæpa hans. Shojgú var gefið að sök að hafa beint árásum rússneska hersins að óbreyttum borgurum í Úkraínu og innviðum á borð við raforkukerfi landsins. Shojgú var jafnframt sakaður um glæpi gegn mannúð og „ómannúðlega gjörn­inga“ í Úkraínu.[15]

Shojgú á tvær dætur, Júlíu (f. 1977) og Kseníu (f. 1991).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. „Первой школе Кызыла - 95 лет“. Tuvaonline.ru. Sótt 6. mars 2022.
 2. 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 2,10 2,11 Andrei Soldatov; Irina Borogan (2. mars 2022). „Sergueï Choïgou, le militaire qui murmure à l'oreille de Poutine“. courrierinternational.com (franska). Courrier International. Sótt 6 mars 2022.
 3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Sébastian Seibt (3. mars 2022). „Sergueï Choïgou et Valéri Guerassimov, les maîtres de guerre de Vladimir Poutine“. france24.com. France 24. Sótt 6 mars 2022.
 4. « Russie : M. Choïgou nommé à la Défense », Le Figaro, 6. nóvember 2012.
 5. « Russie : Poutine limoge son ministre de la défense », Le Monde, 6. nóvember 2012.
 6. « SMI20 : Key people mentioned in Russian media - Monthly Review – November 2012 », RussoScopie, 3. desember 2012.
 7. Andrew Osborn; Jack Stubbs. „Russia's defense minister has been showing up in unexpected places as the military increases its influence under Putin“. businessinsider.com (enska). Business Insider. Sótt 6. mars 2022.
 8. Julian Colling (4. mars 2022). „Isolé dans sa tour d'ivoire : comment Poutine en est arrivé à lancer l'invasion de l'Ukraine“. mediapart.fr. Sótt 6. mars 2022.
 9. 9,0 9,1 François Bonnet (15. janúar 2020). „Russie : Poutine s'aménage une place au premier rang pour l'après-2024“. Mediapart. Sótt 6. mars 2022.
 10. Marc Nexon avec Katia Swarovskaya (20. maí 2016). „Sergueï Choïgou, le grognard de Poutine“. lepoint.fr. Sótt 6. mars 2022.
 11. „Russia-related Designations“ (enska). Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna. Sótt 6. mars 2022.
 12. Markús Þ. Þórhallsson (29. ágúst 2022). „Pútín sagður hafa ýtt Shoigu til hliðar“. RÚV. Sótt 25. september 2022.
 13. „Varnarmálaráðherra Rússlands ýtt til hliðar“. mbl.is. 29. ágúst 2022. Sótt 25. september 2022.
 14. Ólafur Björn Sverrisson (12. maí 2024). „Pútín skiptir um varnar­mála­ráð­herra“. Vísir. Sótt 12. maí 2024.
 15. „Handtökuskipun gefin út fyrir Gerasím­ov og Shoígú“. mbl.is. 25. júní 2024. Sótt 25. júní 2024.