Sergej Shojgú
Sergej Shojgú Сергей Шойгу | |
---|---|
![]() Sergej Shojgú árið 2014. | |
Varnarmálaráðherra Rússlands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 6. nóvember 2012 | |
Forseti | Vladímír Pútín |
Forsætisráðherra | Dmítríj Medvedev Míkhaíl Míshústín |
Forveri | Anatolíj Serdjúkov |
Ráðherra neyðarástandsmála | |
Í embætti 17. apríl 1991 – 11. maí 2012 | |
Forseti | Boris Jeltsín Vladímír Pútín Dmítríj Medvedev Vladímír Pútín |
Forsætisráðherra | Listi
|
Forveri | Fyrstur í embætti |
Eftirmaður | Vladímír Pútsjkov |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 21. maí 1955 Tsjadan, Túva, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Rússlandi) |
Þjóðerni | Rússneskur |
Stjórnmálaflokkur | Sameinað Rússland |
Maki | Írína Shojgú |
Börn | 2 |
Háskóli | Fjöltækniháskólinn í Krasnojarsk |
Undirskrift | ![]() |
Sergej Kúzhúgetovítsj Shojgú (rússneska: Сергей Кужугетович Шойгу; f. 21. maí 1955) er rússneskur stjórnmálamaður og hershöfðingi. Hann hefur verið varnarmálaráðherra Rússlands frá árinu 2012. Shojgú var áður ráðherra neyðarástandsmála frá 1991 til 2012 og sveitarstjóri Moskvufylkis í stuttan tíma árið 2012. Shojgú er einn af nánustu bandamönnum Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og hefur verið nefndur sem hugsanlegur eftirmaður hans.
Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]
Faðir Sergej Shojgú, Kúzhúget Shojgú (1921-2010) var Túvani en móðir hans, Alexandra Jakovlevna (1924-2011) var Rússi af úkraínskum ættum.[1] Árið 1977 útskrifaðist Sergej úr Fjöltækniháskólanum í Krasnojarsk. Næsta áratuginn vann hann við byggingaframkvæmdir og hlaut smám saman stjórnunarstöður. Árið 1988 varð hann embættismaður hjá Kommúnistaflokknum í Abakan og síðan hjá ungliðahreyfingunni Komsomol. Árið 1990 flutti Shojgú frá Síberíu til Moskvu.
Shojgú vakti athygli stjórnvalda í byrjun tíunda áratugarins með hæfni sinni við að stilla til sátta og varð árið 1991 ráðherra neyðarástandsmála, sem var embætti sem hann hafði sjálfur fundið upp.[2] Í þessu embætti mætti Shojgú oft á vettvangi náttúruhamfara og hryðjuverkaárása með teymi öryggissérfræðinga og hafði umsjón með ýmsum öryggisaðgerðum.[2] Hann varð á þessum tíma hátt skrifaður bæði meðal rússneskra valdsmanna og meðal almennra borgara.[2] Shojgú var álitinn hugsanlegur arftaki Borísar Jeltsín á forsetastól.[3]
Frá 1999 til 2001 var Shojgú leiðtogi stjórnmálaflokksins Einingar. Eftir að Eining rann inn í nýja stjórnmálaflokkinn Sameinað Rússland undir forystu Vladímírs Pútín árið 2001 varð Shojgú einn af þremur leiðtogum flokksins.[2] Shojgú hefur átt sæti í æðstaráði Sameinaðs Rússlands síðan þá.
Árið 1999 var Shojgú sæmdur æðstu heiðursorðu Rússlands, Hetju rússneska sambandsríkisins. Shojgú var sveitarstjóri Moskvufylkis í nokkra mánuði árið 2012.
Varnarmálaráðherra Rússlands (2012–)[breyta | breyta frumkóða]

Þann 6. nóvember 2012 var Shojgú útnefndur varnarmálaráðherra[4] eftir afsögn Anatolíj Serdjúkov.[5] Greint var frá þessari uppstokkun í rússneskum fréttablöðum í nóvember 2012.[6] Útnefningin kom á óvart þar sem Shojgú hafði aldrei gegnt herþjónustu, átti ekkert bakland innan rússneska hersins og forystuaðferðir hans höfðu fallið í grýttan jarðveg hjá gömlum herforingjum.[2] Útnefning Shojgú kom innan fárra vikna frá því að Valeríj Gerasímov var útnefndur yfirmaður rússneska herráðsins og var því álitin tengd henni.[3]
Eftir úkraínsku byltinguna árið 2014 og misheppnaðar aðgerðir rússnesku alríkislögreglunnar (FSB) til að binda á hana enda skipaði Vladímír Pútín rússneska hernum undir stjórn Shojgú að hernema og innlima Krímskaga í Rússland.[2] Í kjölfar þessara atburða var Shojgú sóttur til saka í Úkraínu fyrir að „stofna vopnaðar vígasveitir.“
Í desember 2015 stýrði Shojgú hernaðarinngripi Rússa í sýrlensku borgarastyrjöldina sem gerði Bashar al-Assad Sýrlandsforseta kleift að ná yfirhöndinni gagnvart uppreisnarmönnum.[2]
Shojgú hefur farið ásamt Vladímír Pútín í opinberar heimsóknir til ýmissa ríkja, þar á meðal Sýrlands, Katar og Ísraels. Þar sem slíkar ferðir teljast almennt á verksviði utanríkismála fremur en varnarmála hafa stjórnmálaskýrendur túlkað þetta sem staðfestingu á auknu mikilvægi hersins í rússneskum stjórnmálum.[7]

Sem varnarmálaráðherra lét Shojgú stofna nýja netvarnadeild og sameina rússneska flug- og geimherinn í nýjar loftvarnadeildir.[2] Hann hefur búið svo um hnútana að erfiðara sé fyrir unga Rússa að sleppa við herþjónustu.[2] Árið 2017 lét hann breyta einkennisbúningum rússneska hersins til að gera þá líkari sovéskum einkennisbúningum frá árinu 1945, sem kallaðir eru „búningar sigurvegarans.“[2] Shojgú hefur umsjón með GRU, leyniþjónustu rússneska hersins. Stofnunin er grunuð um að hafa á öðrum áratugi 21. aldar framið fjölda pólitískra morða í Evrópu.[3] Shojgú náði fram hækkun á fjárframlögum til rússneska hersins og jók áhrif sín og vinsældir í Kreml.[2] Hann hefur verið kallaður „maðurinn sem kom hernum aftur til æðstu metorða í Kreml á kostnað leyniþjónustunnar“[2] eða „táknmynd hervæðingarinnar í Rússlandi.“[8]
Rússneskir ríkisfjölmiðlar hafa gert mikið úr vináttu Shojgú og Vladímírs Pútín frá lokum annars áratugar 21. aldar.[9] Því hefur verið bent á Shojgú sem mögulegan eftirmann Pútíns.[9][10]
Þann 25. febrúar var Shojgú settur á lista bandaríska fjármálaráðuneytisins yfir rússneskra ráðamenn sem sæta persónulegum refsiaðgerðum í Bandaríkjunum.[11] Hann hefur verið skilgreindur sem ógn við bandarískt þjóðaröryggi vegna hlutverks hans við innrás Rússa í Úkraínu.
Shojgú er einn fárra á æðstu stöðum í Rússlandi sem hafa verið í áhrifastöðu bæði á valdatíð Borísar Jeltsín og Vladímírs Pútín.[3] Undir lok ágúst 2022 voru hins vegar orðrómar á kreiki um að Pútín hefði að mestu ýtt Shojgú til hliðar frá ákvarðanatöku vegna slælegs árangurs við innrásina í Úkraínu. Pútín tæki nú við skýrslum frá hershöfðingjum sínum án milligöngu Shojgú.[12][13]
Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]
Shojgú á tvær dætur, Júlíu (f. 1977) og Kseníu (f. 1991).
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ „Первой школе Кызыла - 95 лет“. Tuvaonline.ru. Sótt 6. mars 2022.
- ↑ 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 2,10 2,11 Andrei Soldatov; Irina Borogan (2. mars 2022). „Sergueï Choïgou, le militaire qui murmure à l'oreille de Poutine“. courrierinternational.com (franska). Courrier International. Sótt 6 mars 2022.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Sébastian Seibt (3. mars 2022). „Sergueï Choïgou et Valéri Guerassimov, les maîtres de guerre de Vladimir Poutine“. france24.com. France 24. Sótt 6 mars 2022.
- ↑ « Russie : M. Choïgou nommé à la Défense », Le Figaro, 6. nóvember 2012.
- ↑ « Russie : Poutine limoge son ministre de la défense », Le Monde, 6. nóvember 2012.
- ↑ « SMI20 : Key people mentioned in Russian media - Monthly Review – November 2012 », RussoScopie, 3. desember 2012.
- ↑ Andrew Osborn; Jack Stubbs. „Russia's defense minister has been showing up in unexpected places as the military increases its influence under Putin“. businessinsider.com (enska). Business Insider. Sótt 6. mars 2022.
- ↑ Julian Colling (4. mars 2022). „Isolé dans sa tour d'ivoire : comment Poutine en est arrivé à lancer l'invasion de l'Ukraine“. mediapart.fr. Sótt 6. mars 2022.
- ↑ 9,0 9,1 François Bonnet (15. janúar 2020). „Russie : Poutine s'aménage une place au premier rang pour l'après-2024“. Mediapart. Sótt 6. mars 2022.
- ↑ Marc Nexon avec Katia Swarovskaya (20. maí 2016). „Sergueï Choïgou, le grognard de Poutine“. lepoint.fr. Sótt 6. mars 2022.
- ↑ „Russia-related Designations“ (enska). Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna. Sótt 6. mars 2022.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (29. ágúst 2022). „Pútín sagður hafa ýtt Shoigu til hliðar“. RÚV. Sótt 25. september 2022.
- ↑ „Varnarmálaráðherra Rússlands ýtt til hliðar“. mbl.is. 29. ágúst 2022. Sótt 25. september 2022.