Fara í innihald

Vichy-stjórnin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir skiptingu Frakklands eftir ósigurinn 1940

Vichy-stjórnin var ríkisstjórn Frakklands eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum í orrustunni um Frakkland í júlí 1940 þar til Bandamenn leystu Frakkland undan hernámi Þjóðverja í ágúst 1944.

Eftir ósigurinn skipaði forseti Frakklands, Albert Lebrun, Philippe Pétain forsætisráðherra. Stjórnin kom saman í bænum Vichy í Auvergne. Eftir undirritun friðarsamninga við Þýskaland fékk Pétain aukin völd og heimild til að afnema lagareglur og endurskrifa stjórnarskrána. Pétain kom á alræði í verki þótt hann legði ekki niður stofnanir Þriðja lýðveldisins: lýðræði var afnumið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar látnir víkja fyrir skipuðum fulltrúum stjórnarinnar, borgaraleg réttindi voru afnumin og refsingar teknar upp fyrir gagnrýni á stjórnina. Engu að síður studdi meirihluti fransks samfélags nýju stjórnina til að byrja með. Hún var álitin nauðsynleg til að Öxulveldin, Þýskaland og Ítalía, skiptu Frakklandi ekki á milli sín. Þessi stuðningur fór minnkandi eftir því sem á leið og andspyrna óx að sama skapi.

Friðarsamningarnir við Þjóðverja fólu í sér að Vichy-stjórnin hélt stjórn alls Frakklands að nafninu til. Þjóðverjar réðu í reynd yfir öllu Norður- og Vestur-Frakklandi (Zone occupée) en Vichy-stjórnin yfir Mið- og Suður-Frakklandi (Zone libre) að undanskilinni mjórri ræmu við landamæri Ítalíu og Sviss sem Ítalir höfðu hernumið í upphafi styrjaldarinnar. Af nýlendum Frakka réði stjórnin yfir norðurhluta Alsír og Frönsku Vestur-Afríku en missti fljótlega yfirráð yfir nýlendum í Mið-Afríku og Asíu. Sumar nýlendur kusu heldur að taka afstöðu með útlagastjórninni í London en Vichy-stjórninni. Tvær milljónir franskra hermanna voru áfram í haldi Þjóðverja og notaðir sem vinnuafl í Þýskalandi. Franskir hermenn sem störfuðu áfram í Zone libre voru undir stjórn þýska hersins. Stjórninni bar auk þess að greiða fyrir uppihald þýskra hermanna í Zone occupée. Vichy-stjórnin vann náið með þýsku hernámsstjórninni enda réði þýski herinn í raun líka yfir Zone libre. Meðal þess sem stjórnin gerði var að handtaka gyðinga og pólitíska flóttamenn og koma þeim í hendur Þjóðverja sem fluttu þá í fangabúðir. Í samstarfi við þýska herinn stóð Vichy-stjórnin fyrir stofnun vopnaðra hópa, Milices, til að berjast gegn andspyrnumönnum.

Í London myndaði hópur franskra landflótta herforingja, undir stjórn Charles de Gaulle, útlagastjórn Vichy-stjórninni til höfuðs. Eftir innrás Bandamanna í Frakkland myndaði De Gaulle bráðabirgðastjórn Franska lýðveldisins. Eftir ósigur Þjóðverja voru þeir ráðamenn Vichy-stjórnarinnar sem ekki tókst að flýja handteknir af bráðabirgðastjórninni og kærðir fyrir landráð. Pétain var dæmdur til dauða en dómnum var breytt í lífstíðarfangelsi. Þúsundir fylgismanna stjórnarinnar voru teknar af lífi án dóms og laga af frönskum andspyrnumönnum.