Tékkneska
Tékkneska Čeština | ||
---|---|---|
Málsvæði | Tékkland, Slóvakía | |
Fjöldi málhafa | 12 milljónir | |
Sæti | 66 | |
Ætt | Indóevrópskt | |
Opinber staða | ||
Opinbert tungumál |
Tékkland | |
Tungumálakóðar | ||
ISO 639-1 | cs
| |
ISO 639-2 | cze/ces
| |
SIL | ces
| |
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode. |
Tékkneska (tékkneska čeština) er indóevrópskt tungumál af ætt vesturslavneskra tungumála. Hún er náskyld pólsku og slóvakísku.
Tékkneska er opinbert tungumál Tékklands og er auk þess töluð af Tékkum um allan heim. Um 12 milljón manns tala tékknesku.
Tékkneska er heldur flókið tungumál og því eiga margir erfitt með að læra hana. Málfræðin er flókin. Fallorð og sagnir beygjast. Orðaröð er mjög frjálsleg og mjög mikið er um forskeyti. Elstu textar af nokkurri lengd eru frá 13. öld þótt finna megi glósur og einstök orð í latneskum og þýskum textum frá 12. öld og kirkjuslavneskum frá 11. öld.
Ritháttur
[breyta | breyta frumkóða]Tékknеska er rituð með latneska stafrófinu, en auk þess eru nokkrir sérstakir stafir. Það eru mjúku samhljóðarnir ď, ť, ň, ž, š, č, ř, löngu sérhljóðarnir á, é, í, ó, ú/ů, ý og mjúki sérhljóðinn ě.
Tékkneska stafrófið í heild sinni:
A | Á | B | C | Č | D | Ď | E | É | Ě | F | G | H | CH | I | Í | J | K | L | M | N | Ň | O | Ó | P | R | Ř | S | Š | T | Ť | U | Ú | Ů | V | Y | Ý | Z | Ž |
a | á | b | c | č | d | ď | e | é | ě | f | g | h | ch | i | í | j | k | l | m | n | ň | o | ó | p | r | ř | s | š | t | ť | u | ú | ů | v | y | ý | z | ž |
Athugið að farið er með "ch" sem sérstakan staf.
Framburður
[breyta | breyta frumkóða]Framburður er nokkuð erfiður þar sem tékkneska hefur mörg hljóð sem reynast útlendingum, m.a. Íslendingum, erfið. Tékkneska hefur eitt hljóð sem er talið vera einstakt í heiminum. Það er hljóðið ř, borið fram svipað og hrzh. Auk þess geta verið fjölmargir samhljóðar í röð og heilu orðin geta jafnvel verið án sérhljóða (dæmi: čtvrthrst, smrt, scvrkl, zmrzl). Þetta skýrist vitaskuld að hluta af vanritun sérhljóða, þannig er smrt sem þýðir -dauði- borið fram smrt. Þó er ljóst að meira er um samhljóðarunur en í vestur evrópskum málum, orð geta byrjað á prs- og trs-. Í vestur-evrópskum málum byrja mörg orð á bl-, pl-, kl- og gl- en aldrei á dl- og tl-. Þetta er hinsvegar ekki óalgengt í tékkesku þar sem 'tlustý' þýðir þykkur eða feitur og 'dlouho' þýðir langt.
Hér að neðan er útskýrður framburður þeirra stafa sem eru ekki eins og í íslensku. Komma yfir sérhljóði táknar lengd en ekki hljóðgildi. Niðurbendandi ör yfir samhljóði táknar eftirfilgjandi -j nema i tilfelli -r þar sem örin táknar -sj.
- Á er borið fram sem langt "a"
- Au er borið fram sem "á"
- C er borið fram sem "ts"
- Č er borið fram eins og "ch" í ensku
- Ď er borið fram sem "dj"
- É er borið fram sem langt "e"
- Ě er borið fram sem "é"
- CH er borið fram eins og "ch" í "Achtung" í þýsku
- Ň er borið fram eins og "nj"
- Ou er borið fram sem "ó"
- Ř er borið fram svipað og "hrzh"
- Š er borið fram eins og "sh" í ensku
- Ť er borið fram sem "tj"
- Ú og ů eru borin fram sem langt "ú"
- Ž er borið fram eins og "dsh"
Í tékknesku fallbeygjast nafnorð í sjö föll: nefnifall, þolfall, þágufall, eignarfall, ávarpsfall, staðarfall og tækisfall. Nafnorð hafa einnig kyn (karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn) og tölu (eintölu og fleirtölu).
Líkt og nafnorð taka lýsingarorð í tékknesku einnig kyn og tölu og þau fallbeygjast í sömu sjö föll.
Öll lýsingarorð enda í nefnifalli á löngum sérhljóða. Til eru tveir flokkar lýsingarorða:
1) Lýsingarorð með harðri endingu í nefnifalli eintölu:
- -ý (karlkyn)
- -á (kvenkyn)
- -é (hvorugkyn)
2) Lýsingarorð með mjúkri endingu:
- -í (í öllum kynjum)
Í tékknesku er persónufornöfnum oftast sleppt. Þau eru einkum notuð til áherslu. Persónufornöfnin fallbeygjast.
Tékknesku persónufornöfnin eru:
- já (ég)
- ty (þú)
- on (hann)
- ona (hún)
- ono (það)
- my (við)
- vy (þið)
- oni (þeir)
- ony (þær)
- ona (þau)
Í tékknesku eru fjórir flokkar sagnorða:
- sagnir sem enda á -at eða -át
- sagnir sem enda á -ovat, -ýt eða -ít
- sagnir sem enda á -it, -et eða -ět
- sagnir sem enda á -out eða -ci og fleiri sjaldgæfum endingum
Einnig er til nokkur fjöldi óreglulegra sagna.
Tölurnar 1 og 2 eru mismunandi eftir kynjum. Aðrar tölur eru eins í öllum kynjum.
Talan 1 tekur með sér eintölu. Tölurnar 2, 3 og 4 taka með sér fleirtölu. Talan 5 og hærri tölur taka með sér fleirtölu í eignarfalli.
Sýnishorn texta
[breyta | breyta frumkóða]Tékkneska
Všichni lidé se rodí svobodní a sobě rovní co do důstojnosti a práv. Jsou nadáni rozumem a svědomím a mají spolu jednat v duchu bratrství.
Íslenska
Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvizku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.