Fara í innihald

Persónufornafn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Persónufornöfn)

Persónufornöfn eru fornöfn sem vísa til málfræðilegra persóna sem í flestum tungumálum eru tvær eða þrjár: fyrsta persóna vísar til þess sem talar (eins og í íslensku ég), önnur persóna vísar til viðmælandans (eins og í íslensku þú) og þriðja persóna vísar til þess sem talað er um (eins og í íslensku hann, hún, þau). Persónufornöfn geta beygst eftir tölu, falli og kyni, þar sem það á við. Persónufornöfn vísa ekki bara til fólks heldur líka til hluta, hugtaka og svo framvegis.

Nokkur tungumál nota persónufornöfn til að sýna virðingu eða lotningu eða skapa samskiptafjarlægð milli viðmælenda. Í samhengi Evrópumála er talað um þérun. Þá er til dæmis önnur persóna í fleirtölu notuð sem eintala eins og í frönsku: tu verður vous í formlegu máli.

Tegundir og beygingarmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Persónufornöfn hafa oft ólíkar myndir eftir því hvort viðfangið er í eintölu, tvítölu eða fleirtölu í tungumálum þar sem þessar tölur eru notaðar. Í íslensku nútímamáli er fleirtalan dregin af gamalli tvítölumynd og þérun lengi dregin af gamalli fleirtölumynd en er nú að mestu horfin úr málinu.[1]

Sum tungumál gera auk þess greinarmun á innifelandi og útilokandi fyrstu persónu fleirtölu (ég og þú eða ég og hann). Þannig er tok pisin til dæmis með sjö fyrstu persónufornöfn: útilokandi í eintölu mi („ég“), tvítölu mitupela („ég og hún“), þrítölu mitripela („ég og þau bæði“), fleirtölu mipela („ég og þau öll“); og innifelandi tvítölu yumitupela („við tvö“), þrítölu yumitripela („við þrjú“) og fleirtölu yumipela („við öll“).[2]

Í sumum málum, eins og makedónsku og latínu, eru ábendingarfornöfn notuð í stað þriðju persónufornafna. Þriðju persónufornöfn í mörgum rómönskum málum þróuðust út frá latneskum ábendingarfornöfnum.

Stundum eru persónufornöfn notuð í stað óákveðinna fornafna. Í stað þess að segja one should not do this („maður gerir þetta ekki“) í ensku er sagt you should not do this, þannig að annarar persónufornafn kemur í stað óákveðins fornafns.

Kyngreinandi tungumál geta haft ólík form persónufornafna eftir málfræðilegu kyni orðsins sem vísað er til eða kyni þeirrar manneskju sem vísað er til. Þar sem ekki er vitað hvers kyns tilvísunin er er notast við kynhlutlaust fornafn eða sjálfgefið kyn, sem getur verið eftir atvikum hvorugkyn (í ensku it), karlkyn (í frönsku il) eða kvenkyn (í velsku hi). Í sumum tungumálum getur verið ótækt að vísa til fullorðinnar manneskju með hvorugkynsfornafni og er þá annað fornafn notað þegar óvíst er um kyn eins og til dæmis they í eintölu í ensku. Sama gildir um fleirtöluna þegar vísað er til hóps fólks af blönduðu kyni, en í sumum málum, eins og íslensku, getur hvorugkynið („þau“) í því tilviki komið í staðinn fyrir sjálfgefna kynið („þeir“).

Þar sem málfræðilegt og líffræðilegt kyn flækist saman með ýmsum hætti[3] hefur í sumum tungumálum komið upp þörf til að búa til ókyngreind persónufornöfn sem vísa til fólks þar sem kynið er óvíst, vísað er til kynsegin manneskju eða hið sjálfgefna kyn á annan hátt óviðeigandi. Þannig hefur verið stungið upp á þriðju persónufornafninu hen í sænsku (ókyngreinda fornafnið hän var til fyrir í samísku), hin í norsku og hán í íslensku.[4] Þessi ókyngreindu fornöfn hafa áunnið sér mismikinn sess í málunum.

Mörg tungumál sem ekki hafa kyngreind persónufornöfn hafa komið sér upp staðgenglum fyrir kyngreiningu vegna áhrifa frá öðrum málum, eða vegna þýðinga. Snemma á 20. öld tók mandarín til dæmis upp sértákn fyrir „hún” (她) þótt fornafnið sé það sama í talmáli. Í kóresku er orðið geunyeo (그녀) notað í ritmáli til að þýða „hún“, en það hljómar óeðlilega í talmáli þar sem það þýðir bókstaflega „þessi kona“.

Fallbeygjandi tungumál beygja oft persónufornöfn eins og önnur nafnorð. Í þýsku koma persónufornöfn til dæmis fyrir í nefnifalli, eignarfalli, þágufalli og þolfalli (ich, meiner, mich, mir) og enska gerir greinarmun á aðalfalli (I, we, they) í frumlagi setningar og aukafalli (me, us, them) í andlagi setningar. Sum tungumál sem hafa þróast út frá fallbeygjandi málum, eins og þýska, enska og rómönsku málin, en hafa hætt að nota sum eða flest föllin, halda notkun þeirra áfram í persónufornöfnum. Í íslensku beygjast persónufornöfn í öllum fjórum föllum (ég, mig, mér, mín).

Í sumum tungumálum eru notaðar ólíkar beygingarmyndir fyrir sundurgreinandi fornöfn (persónufornöfn sem standa ein og sér) eins og moi í frönsku í setningunni Les autres s'en vont, mais moi, je reste („Hinir fara, en ég, ég verð eftir“).

Formlegt mál

[breyta | breyta frumkóða]

Mörg tungumál nota ólík persónufornöfn til að sýna virðingu eða samfélagslega fjarlægð, sérstaklega í annarri persónu. Þannig eru notuð ólík fornöfn til að ávarpa fjölskyldumeðlimi, vini, börn og dýr, en til að ávarpa yfirmenn, kennara og ókunnugt fólk. Dæmi um slíkt er að finna í frönsku þar sem eintölumyndin tu er notuð óformlega, en fleirtölumyndin vous í formlegum aðstæðum. Þýska notar þriðju persónu fleirtölu Sie sem formlega aðra persónu í bæði eintölu og fleirtölu, og pólska notar pan („herra“) sem formlegt annarar persónufornafn. Ítalska hefur notað bæði aðra persónu fleirtölu Voi og þriðju persónu í kvenkyni Lei (dregið af kvenkynsorðum eins og altezza „hátign“ og signoria „yfirvald“), og síðarnefnda myndin er mun algengari í nútímamáli. Íslenska notaðist áður við fleirtölumyndina þér sem formlega aðra persónu, en þérun er nú nánast alveg horfin úr málinu.

Í sumum tungumálum, til dæmis japönsku og kóresku, endurspegla persónufornöfn flóknari félagslega aðgreiningu. Í þessum málum er algengt að notast við nafnorð, bendivísanir eða titla til að vísa til þátttakenda í samræðum, allt eftir stöðu, aldri, kyni, virðingu og svo framvegis. Í japönsku er til dæmis algengt að fullorðið fólk noti orðið watashi eða watakushi um sig sjálft, en ungir karlmenn geta notað boku og lögreglumenn notað honkan („þessi lögregla“). Í óformlegum aðstæðum geta konur notað atashi og karlar ore.

Setningafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Undanfari persónufornafns er nafnliður sem vísar til sama hlutar og fornafnið vísar til. Fornafnið getur þá verið staðgengill fyrir nafnliðinn. Oftast kemur undanfarinn á undan fornafninu. Dæmi um þetta eru setningar eins og „Jón faldi sig og við fundum hann ekki“, þar sem „hann“ stendur fyrir „Jón“. Stundum getur notkun fornafna orðið uppspretta tvíræðni þegar ekki er ljóst til hvers fornafnið vísar í setningum eins og „Sigrún reifst við Maríu um málið. Hún var ekki sammála niðurstöðu hennar“ þar sem er óljóst hvort „hún“ og „hennar“ í seinni setningunni vísar til Sigrúnar eða Maríu.

Niðurfelling

[breyta | breyta frumkóða]

Í sumum málum má fella fornafnið niður í tilteknum aðstæðum (til dæmis fornafnafellumálum eins og arabísku, tyrknesku, svahílí og svo framvegis). Dæmi um þetta er núllfrumlag í mörgum rómönskum málum, þar sem persónufornafn í frumlagsstöðu fellur niður og skilst þá af persónu sagnarinnar. Dæmi um þetta er í ítölsku Lei non vuole mangiare („Hún vill ekki borða“) sem jafngildir Non vuole mangiare („(Hún) vill ekki borða“). Í þessum málum eru fornöfnin aðeins notuð þegar ástæða er til að forðast tvíræðni eða til að skapa áherslu. Franska er mikilvæg undantekning meðal rómanskra mála, og niðurfelling fornafna er ekki til í germönskum málum. Í þeim málum er líklegra að notast sé við fornöfn sem gervifrumlag eins og „það“ og „hann“ í setningum eins og „það rignir“ og „hann er að hvessa“.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Hvað er tvítala og hvaða dæmi um greinarmun tvítölu og fleirtölu finnast í nútíma íslensku?“. Vísindavefurinn.
  2. Verhaar, John W.M. (1995). Toward a reference grammar of Tok Pisin : an experiment in corpus linguistics. Honolulu: Univ. of Hawai'i Press. bls. 354. ISBN 9780824816728.
  3. Eiríkur Rögnvaldsson (18.10.2019). „Kynusli“. Sótt 30.7.2021.
  4. Auður Magndís Auðardóttir, Íris Ellenberger. „Hán - Kynhlutlaus persónufornöfn“. Hinsegin frá Ö til A.