Tröllaskagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gervihnattamynd af Tröllaskaga

Tröllaskagi er skagi fyrir miðju Norðurlandi Íslands á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Skaginn er fjöllóttur og ná margir fjallatindar yfir 1200 m yfir sjávarmál og nokkrir yfir 1400 m, hæst er Kerling (1538 m). Fjölmargir smájöklar eru í fjöllum og dölum Tröllaskaga, þeirra stærstir eru Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull.

Djúpir dalir skerast inn í fjalllendi Tröllaskaga, þeirra stærstir eru: Hjaltadalur, Hörgárdalur, Norðurárdalur og Svarfaðardalur. Dalirnir mótuðust af greftri vatnsfalla og svörfun skriðjökla á jökulskeiðum ísaldar.

Byggð á svæðinu einskorðast við láglendi nálægt ströndum og í dölum, landbúnaður er þar mikill og sjávarútvegur stundaður frá nokkrum þéttbýlisstöðum. Þéttbýlisstaðir í kringum Tröllaskaga eru: Hólar, Hofsós, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Árskógssandur, Hauganes, Hjalteyri, Akureyri og Hrafnagil.

Hálendi Tröllaskaga er nokkuð erfitt viðureignar fyrir samgöngur á svæðinu en tveir akvegir liggja nú um það. Lágheiði liggur á milli Ólafsfjarðar og Fljóta í Skagafirði, sú leið er yfirleitt lokuð meirihluta árs vegna snjóa. Þjóðvegur 1 liggur um Öxnadalsheiði, þar fer vegurinn hæst í 540 metra yfir sjávarmál og er nokkuð snjóþungur að vetrum en þó kemur sjaldan til lokana þar sem mikið er lagt í að halda honum opnum. Tillögur eru uppi um jarðgöng sem gætu leyst veginn yfir heiðina af hólmi, annað hvort undir núverandi vegarstæði eða frá Hörgárdal yfir í Hjaltadal sem myndi stytta verulega vegalengdina milli Akureyrar og Sauðárkróks. Jarðgöng eru milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar Múlagöng og milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar Héðinsfjarðargöng.

Örnefnið Tröllaskagi er ungt, sennilega búið til undir lok 19. aldar. Áður mun skaginn hafa verið nafnlaus.[1]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum - fyrirspurnir“.