Tungnahryggsjökull

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Tungnahryggsjökull er stærsti jökull á Tröllaskaga og situr hátt innst í afdölum Kolbeinsdals. Hann myndar ekki samfellda hjarnbreiðu því hann er klofinn í tvennt af Tungnahrygg en hryggurinn skilur Austur- og Vesturdal Kolbeinsdals að. Vestari jökullinn er 6,3 km2 og tengist Barkárdalsjökli í Hólamannaskarði. Eystri jökullinn er rúmlega 4,8 km2 og nær skækill af honum suður yfir skörðin til Barkárdals. Upp af jöklinum gnæfa háir hnjúkar 1300-1400 m háir (ef farið er eftir Herforingjaráðskortunum en nokkru hærri ef farið er eftir AMS og DMA kortunum). Upp af jöklinum að vestan rís Múrinn mikli, samfelldur klettaveggur undir efstu brúnum margra kílómetra langur.

Fjallvegir[breyta | breyta frumkóða]

Um Tungnahryggsjökul eru gamlir fjallvegir sem farnir hafa verið frá aldaöðli milli byggða. Þetta eru annarsvegar Hólamannavegur eða Hólamannaskarð og hins vegar Tungnahryggsleið. Báðar leiðir hefjast við Baugasel í Barkárdal og enda á Hólum í Hjaltadal.

Ef farinn er Hólamannavegur er farið upp úr dalbotni Barkárdals og upp á Barkárdalsjökul. Þaðan er haldið um Hólamannaskarð. Þar tengist Barkárdalsjökull Tugnahryggsjökli vestari. Gengið er áfram á jökli undir dökkum hamraveggnum Múrsins og farið niður í botn Víðinessdals. Leiðin er auðrötuð því klettaveggurinn varðar veginn. Hún er skemmri en aðrir fjallvegir úr Hörgárdal til Hóla en torfærari og lengri á háfjöllum og talin ófær hestum. Gæta þarf að sér gagnvart jökulsprungum. Fyrr á tímum var þessi leið tíðfarin.

Tungnahryggsleið (stundum nefnd Tungnahryggsjökull) liggur frá Baugaseli í Barkárdal inn undir dalbotn. Þar er mjór hryggur, Tungnahryggur, sem liggur upp norðurhlíð dalsins. Um hann brött en góð gönguleið. Farið er upp í skarðið austan við Eiríkshnjúk. Þar er komið upp á jökulinn sjálfan. Síðan er gengið eftir jöklinum niður með Leiðarhnjúkum og niður í Kolbeinsdal. Þessi leið var jafnan heldur fáfarin.

Tungnahryggsskáli[breyta | breyta frumkóða]

Á Tungnahryggsjökli er Tungnahryggsskáli. Hann var reistur 1982 og stendur vestan í Tungnahrygg, milli austur- og vesturjökulsins. Hann er í um 1200 m y.s. og standa ekki aðrir skálar hærra nema þeir sem Jöklarannsóknafélag Íslands hefur byggt á Vatnajökli og Langjökli. Skálinn er góður viðkomustaður fyrir þá sem fara Hólamannaveg eða Tungnahryggsleið enda er hann miðja vegu á milli þeirra á jöklinum. Hann er einnig vinsæll áningarstaður vélsleðamanna.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Tungnahryggsjökull er ekki nefndur í fornritum. Hans er fyrst getið í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar en þar er sagt að hann sé oft farinn milli sveita í Skagafirði og Eyjafirði.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]