Fara í innihald

Sveinn Ástríðarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sveinn Úlfsson)
Mynt sem slegin var fyrir Svein Ástríðarson um 1050.

Sveinn Ástríðarson eða Sveinn Úlfsson (um 101928. apríl 1076) var konungur Danmerkur frá 1047 til dauðadags. Hann var sonur Úlfs jarls og Ástríðar, dóttur Sveins tjúguskeggs, og kenndi sig sjálfur við móður sína til að leggja áherslu á að hann var af ætt Danakonunga.

Sveinn ólst upp í Englandi en þegar Hörða-Knútur lést 1042, síðastur sona Knúts ríka, gerði hann kröfu til dönsku krúnunnar. Af því varð þó ekki þá; Magnús góði Noregskonungur hafði gert samning við Hörða-Knút um að sá þeirra sem lifði lengur skyldi eignast bæði ríkin og tók hann því við konungdæmi en Sveinn var gerður að jarli yfir Danmörku. Magnús lést 1047 og hafði áður gefið yfirlýsingu um að Sveinn skyldi verða konungur í Danmörku en Haraldur harðráði í Noregi. Sveinn var síðan kjörinn konungur á landsþingum í Danmörku en Haraldur var ekki sáttur og herjaði á Danmörku; það var ekki fyrr en 1064 sem þeir sömdu frið. Sveinn reyndi líka að gera tilkall til ensku krúnunnar en hafði ekki erindi sem erfiði.

Sveinn er álitinn sá konungur sem færði Danmörku frá víkingaöld inn í miðaldir. Hann vildi eiga gott samband við kirkjuna og reyndi að koma á erkibiskupsdæmi í Danmörku til að losna undan valdi þýskra erkibiskupa. Áður en það markmið náðist lést hann þó í Søderup á Suður-Jótlandi og var jarðsettur í Hróarskeldudómkirkju.

Hann átti þrjár konur, Gyðu, dóttur Önundar Jakobs Svíakonungs, Gunnhildi Sveinsdóttur, ekkju Önundar og þvi móður eða stjúpmóður Gyðu, og Þóru Þorbergsdóttur, sem áður hafði verið gift Haraldi harðráða.

Með Gunnhildi átti hann soninn Svein, sem dó ungur, og með Þóru Knút Magnús, sem Sveinn sendi til Rómar til að hljóta smurningu sem ríkisarfi en hann dó í ferðalaginu. Auk þess er hann sagður hafa átt fjórtán frillusyni og nokkrar dætur. Fimm sona hans urðu Danakonungar, þeir Haraldur hein, Knútur helgi, Ólafur hungur, Eiríkur góði og Níels. Enn einn sonur hans var Sveinn krossfari, sem gat sér mjög gott orð fyrir frammistöðu sína í fyrstu krossferðinni.


Fyrirrennari:
Magnús góði
Konungur Danmerkur
(1047 – 1076)
Eftirmaður:
Haraldur hein