Gunnhildur Sveinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rústir Guðheimsklausturs. Það var trú manna að Gunnhildur hefði stofnað það en klaustrið var þó ekki stofnað fyrr en 100 árum eftir dauða hennar. Hún kann þó að vera grafin þar.

Gunnhildur Sveinsdóttir (d. um 1060), samkvæmt sumum heimildum Gunnhildur Haraldsdóttir, var norskættuð hefðarkona á 11. öld, drottning Svíþjóðar og síðan drottning Danmerkur.

Faðerni Gunnhildar er óvíst; samkvæmt sumum heimildum var hún Haraldsdóttir en líklegra er talið að hun hafi verið dóttir Sveins Hákonarsonar Hlaðajarls og Hólmfríðar, sem var dóttir eða systir Ólafs skotkonungs. Ekki er vitað hvenær Gunnhildur gekk að eiga Önund Jakob Svíakonung. Samkvæmt sumum heimildum var hjónabandið barnlaust en aðrar heimildir segja að Gyða dóttir Önundar, sem giftist Sveini Ástríðarsyni Danakonungi um 1048, hafi einnig verið dóttir Gunnhildar. Þeim mæðgum eða stjúpmæðgum er oft ruglað saman.

Önundur Jakob dó árið 1050 og Gyða hafði dáið árið áður. Gunnhildur ekkjudrottning hélt til Danmerkur og giftist þar Sveini (stjúp)tengadyni sínum. Slíkt hjónaband var óheimilt samkvæmt lögum kirkjunnar, hvort sem Gyða var dóttir Gunnhildar eða ekki, og er sagt að páfi hafi hótað þeim bannfæringu. Þau slitu þá samvistir og Gunnhildur hélt aftur til Svíþjóðar 1051 eða 1052. Ekki er vitað hvort Gunnhildur var móðir einhvers hinna fjölmörgu barna Sveins.

Gunnhildur eyddi síðustu æviárunum í Vestur-Gautlandi við bænaiðkun og hannyrðir og er sögð hafa stofnað vefstofu þar sem unnin voru messuklæði og ýmis vefnaður fyrir kirkjur. Adam frá Brimum kallaði hana Sanctissima og dásamaði gestrisni hennar við kristna trúboða sem konungur hafði hrakið á brott.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]