Fara í innihald

Gyða af Svíþjóð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gyða Önundardóttir (d. um 1049) eða Gunnhildur Önundardóttir var sænsk konungsdóttir á 11. öld og síðar drottning Danmerkur, fyrsta kona Sveins Ástríðarsonar Danakonungs.

Gyða var dóttir Önundar Jakobs Svíakonungs. Kona Önundar var Gunnhildur Sveinsdóttir og ber heimildum ekki saman um hvort Gyða var dóttir hennar eða stjúpdóttir. Fátt er vitað um Gyðu en talið er að hún hafi verið gift Sveini Ástríðarsyni árið 1047 eða 1048, um sama leyti og hann varð konungur Danmerkur. Þó má vera að þau hafi gifst fyrr, þegar Sveinn var í útlegð við sænsku hirðina. Hún lést eftir um eins árs hjónaband og voru þau Sveinn líklega barnlaus.

Önundur Jakob lést árið 1050 og skömmu síðar giftist Sveinn Gunnhildi, fyrrverandi tengdamóður (eða stjúptengdamóður) sinni. Slíkt hjónaband var óheimilt samkvæmt lögum kirkjunnar og neyddust þau til að skilja. Þeim mæðgum er oft ruglað saman, enda hétu þær líklega sama nafni og voru báðar giftar Sveini.