Fara í innihald

Steingeitin (stjörnumerki)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Steingeitinni í myndaröðinni Spegill Úraníu (Uranias Mirror) frá árinu 1824 eftir Sidney Hall. Myndin er eftirgerð myndar á gömlu stjörnukorti A Calestial Atlas eftir Alexander Jamieson)

Steingeitin er eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Latneskt heiti merkisins er capricornus sem þýðir hornótt geit eða geitarhorn og á myndum er það venjulega sýnt sem sægeit sem er goðsagnavera að hálfu geit og að hálfu fiskur. Þetta er lítið og dauft stjörnumerki á suðurhveli himins. Bjartasta stjarnan í því nefnist Deneb Algedi (Delta Capricorni) sem þýðir „dindill geitarinnar“. Sólin er innan marka Steingeitarinnar frá 20. janúar til 16. febrúar en ekki frá 22. desember til 19. janúar eins og hún er staðsett í stjörnuspeki.

Steingeitin sést að hluta frá Íslandi. Miðja merkisins er um 20° sunnan við miðbaug himins og liggur merkið því illa við athugun frá Íslandi því auk þess að liggja niður við sjóndeildarhring er engin björt stjarna í merkinu. Steingeitin er annað af daufustu stjörnumerkjum dýrahringsins, hitt er Krabbinn. Steingeitin sést best frá Íslandi að kvöldlagi í september og október og er þá lágt á lofti í suðri. Þegar reikistjarnan Neptúnus fannst árið 1846 var hún í Steingeitinni, skammt frá stjörnunni Deneb Algedi.

Steingeitin er talin í hópi elstu stjörnumerkja og rekja má tilvist hennar allt til Súmera. Merkið er eitt hinna 48 stjörnumerkja sem gríski stjörnufræðingurinn Ptólmæos lýsti í riti sínu Almagest frá 2. öld e.Kr. Á tímum Forn-Grikkja var sólin í Steingeitinni um vetrarsólstöður. Hún er á þeim hluta himins þar sem svonefnd „vatnsmerki“ er að finna en í þeim hópi eru einnig stjörnumerkin Vatnsberinn, Fiskarnir, Höfrungurinn, Fljótið og Hvalurinn. Merkið er því stundum nefnt „sægeitin“ (Capra marii).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]