Leiftur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Leiftur einnig leifturhnýðir
Lagenorhyncus acutus.jpg
Stærð leifturs miðað við meðalmann
Stærð leifturs miðað við meðalmann
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Tannhvalir (Odontoceti)
Ætt: Höfrungaætt (Delphinidae)
Ættkvísl: Lagenorhynchus
Tegund: L. acutus
Tvínefni
Lagenorhynchus acutus
(Gray, 1828)
Búsvæði
Búsvæði

Leiftur einnig leifturhnýðir (fræðiheiti: Lagenorhynchus acutus) er tannhvalur af höfrungaætt. Leiftur er náskyldur hnýðingi (Lagenorhynchus albirostris), en en er talsvert minni og frábrugðinn í litamynstri.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Leiftur er fremur lítill hvalur, og grannvaxinn. Höfuðið er stutt, ennið allkúpt og snjáldrið mjög stutt, líkt og á hnýðingnum. Stórt aftursveigt horn, rétt aftan við miðju á bakinu.

Litarmynstur leifturs er sérkennilegt, það er mjög afmarkað og þar með ólíkt flestum öðrum höfrungum. Bakið er svart eða mjög dökkgratt, hliðarnar eru gráar fyrir utan langan hvítan blett neðan og aftan við hornið en aftan við þennan blett er gulleit rönd næstum aftur að sporðblöku. Kviðurinn er hvítur, en efri kjálki er svartur og sá neðri hvítur.

Tarfarnir eru heldur stærri en kýrnar, um 2,8 metrar á lengd og um 230 kg á þyngd. Kýrnar um 2,4 metrar og 180 kg.

Útbreiðsla og hegðun[breyta | breyta frumkóða]

Leiftrar á hafnarbakka í Hvalba, Færeyjum

Útbreiðsla leifturs er bundin við tempruð svæði á Norður-Atlantshafi, frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og Biskajaflóa í suðri og í norður að suðurodda Grænlands, sunnan við Ísland og allt norðaustur til Svalbarða. Leiftur heldur sig venjulega talsvert sunnanvert við Ísland. Hann er hins vegar langalgengasti höfrungategundin við Færeyjar. Við Færeyjar sjást oft blandaðir hópar grindhvala og leiftra[1]. Annars er leiftur að mestu úthafstegund.

Fæðuval lefturs er fjölbreytt, einkum uppsjávarfiskar og botnfiskar, svo sem síld, makríl, silfurkód og þorskur. Smokkfiskur er einnig mikilvæg fæðutegund.

Leiftur heldur sig oftast í hópum um 20 dýr en þá má þó oft finna í miklu stærri hópum með hundruðum einstaklinga. Þeir halda sig of með öðrum hvalategundum, bæði höfrungategundum en einnig langreyð og hnúfubak. Á sama hátt og grindhvalir gengur leiftur oft á land í stórum hópum, allt að 150 dýr eða meir.

Það má oft sjá leiftur stökkva á hafi úti en hann fylgir ekki í kjölfar báta á sama hátt og hnýðingur. Hann kafar ekki mjög djúpt og er sjaldan lengur en 4 - 5 mínútur í kafi.

Veiðar og fjöldi[breyta | breyta frumkóða]

Heildarstofnfjöldi leifturs er óþekkt en við strendur Norður-Ameríku er áætlað að séu um 40 þúsund dýr. Sunnan við Ísland og við Færeyjar er talið að séu milli 50 og 100 þúsund dýr. Samanlagt er því giskað á að heildarstofninn sé fáein hundruð þúsunda[2].

Leiftur hefur verið veiddur í fremur litlum mæli með skotvopnum við Grænland, Kanada, Noreg og Færeyjar. Hins vegar er algengt að leiftur sé rekinn á land í Færeyjum og eru hundruðum dýra slátrað á hverju ári á þann hátt. Sömu veiðiaðferð var einnig beitt á Nýfundnalandi til skamms tíma.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bloch og Fuglø 1999
  2. Evans 1987

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Bjarni Sæmundsson, Íslensk dýr II: Spendýrin (Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 1932).
  • Bloch D. og E. Fuglø, Nordatlantens vilde pattedyr (Tórshavn: Føroya Skúlabókagrunnur, 1999).
  • Evans P.G.H., The natural history of whales and dolphins (London: Christopher Helm, 1987).
  • Hammond, P.S., G. Bearzi, A. Bjørge, K. Forney, L. Karczmarski, T. Kasuya, W.F. Perrin, M.D. Scott, J.Y. Wang, R.S. Wells og B. Wilson, „Delphinus delphis“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Reykjavík: Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Einkennismerki Wikiorðabókar
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist