Stökkull (tannhvalur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi grein fjallar um tannhval, fyrir aðrar merkingar orðsins „stökkuls“ má fara á aðgreiningarsíðuna.
Stökkull
Stökkull á eftir báti
Stökkull á eftir báti
Stærð stökkuls miðað við meðalmann
Stærð stökkuls miðað við meðalmann
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Ætt: Höfrungaætt (Delphinidae)
Ættkvísl: Tursiops
Gervais 1855
Tegund:
O. truncatus

Tvínefni
Tursiops truncatus
Útbreiðslusvæði stökkulls (blár litur)
Útbreiðslusvæði stökkulls (blár litur)

Stökkull[1][2] (fræðiheiti: Tursiops truncatus) einnig nefndur höfrungur og dettir er meðalstór tannhvalur og er ein af tveimur tegundum í ættkvíslinni Tursiops. Þeir eru hluti af ættinni Delphinidae og eru meðal algengustu höfrunga á hafsvæðinu við sunnanvert Ísland.[3]

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Stökklar eru sennilegast þekktasta höfrungategundin og sú sem líffræðingar hafa rannsakað mest.[4] Hvalurinn er grár á lit og er dekkri á baki en á kvið en litaskil ekki skörp. Hann er gildvaxinn og hefur breiðari haus og skrokk en flestar tegundir höfrunga. Trýnið er stutt og afmarkað frá kúptu enninu. Hornið er miðsvæðis á bakinu og er fremur stórt og eins eru bægslin hlutfallslega stór og aftursveigð. Munur er á stærð fullvaxinna dýra, tarfarnir eru ívið lengri en kýrnar, um 2,5 og allt að 4,1 metra en kýrnar 2,4 til 3,7) en talsvert gildvaxnari og þyngri.[5]

Vitað er að stökklar geta orðið allt að 40 ára í dýragörðum[6] en virðast villtir verða yfirleitt um 20 ára.[7]

Útbreiðsla og hegðun[breyta | breyta frumkóða]

Stökkulkýr ásamt tveimur kálfum í Moray Firth, Skotlandi

Stökkla má finna á hitabeltis- og heittempruðum hafsvæðum allt í kringum jörðina og er víða algengur. Þetta er ein algengasta tegund höfrunga við Ísland og er hafsvæðið suður af landinu á nyrðri útbreiðslumörkum tegundarinnar.

Eins og aðrir höfrungar eru stökklar hópdýr,[8] oftast um 15 til 20 dýr, en á hafi úti geta þeir verið mun fleiri tugir eða hundruð. Einfarar eru þó einnig algengir hjá báðum kynjum. algengt er að sjá stökkul í slagtogi við aðrar höfrungategundir sérlega grindhvali.

Stökklar éta fjölda tegunda fiska og smokkfiska auk rækju og er af mörgum álitin vera sú hvalategund sem sýnt hefur mesta aðlögunarhæfni. Meirihluti fæðutegunda eru botnfiskar en uppsjávartegundir eru einnig algengar. Samvinna við veiðar er algeng meðal stökkla og smala þeir bráðinni saman í hóp og gera svo árás. Djúpsjávarfiskar sem fundist hafa í maga stökkla benda til að þeir geti kafað allt að 500 metra dýpi. En þeir hafa einnig lært að notfæra sér fæðu sem til fellur frá fiskiskipum.

Helsta hætta stökkla eru árásir hákarla og bera þeir oft ör eftir hákarlskjafta.

Veiðar og fjöldi[breyta | breyta frumkóða]

Stofnstærð stökkla í heiminum er óþekkt, sést tegundin yfirleitt í öllum hvalatalningaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunnar við Ísland og ekkert gefur til kynna að henni sé að fækka hér við land.

Veiðar hafa verið stundaðar á tegundinni víða um heim, meðal annars í Svartahafi, í Perú, Sri Lanka og við Japan. Við Færeyjar veiðast árlega stökklar í blönduðum hópum með grindhval. Beinar veiðar á stökkli hafa aldrei verið stundaðar við Ísland.

Án efa eru stökklar sú tegund hvala sem algengust hefur verið til sýningarhalds í sædýrasöfnum.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Orðið „stökkull“ á Orðabanka íslenskrar málstöðvar úr orðasafninu „Sjávarútvegsmál (PISCES)“:íslenska: „stökkull“enska: bottlenose dolphinlatína: Tursiops truncatus
  2. Orðið „stökkull“ á Orðabanka íslenskrar málstöðvar úr orðasafninu „Sjávardýr“:íslenska: „stökkull“enska: bottlenose dolphinlatína: Tursiops truncatus
  3. Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér frá stökklum?“. Vísindavefurinn 7.9.2005. http://visindavefur.is/?id=5249. (Skoðað 13.4.2009).
  4. Wellsog Scott (2002): 122–127.
  5. Leatherwood og Reeves (1990).
  6. Reeves, Stewart, Clapham og Powell (2002).
  7. „Longevity and Causes of Death“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. september 2008. Sótt 13. apríl 2009.
  8. Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér frá stökklum?“. Vísindavefurinn 7.9.2005. http://visindavefur.is/?id=5249. (Skoðað 13.4.2009).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Leatherwood og Reeves, The bottlenose dolphin (Academic Press, 1990). ISBN 0124402801
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Reeves, R., B. Stewart, P. Clapham og J. Powell, National Audubon Society Guide to Marine Mammals of the World (New York: A.A. Knopf, 2002). ISBN 0-375-41141-0.
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
  • Wells, R. og M. Scott, „Bottlenose Dolphins“ hjá W. Perrin, B. Wursig og J. Thewissen (ritstj.), Encyclopedia of Marine Mammals (Academic Press, 2002): 122–127. ISBN 0-12-551340-2.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu

Erlendir tenglar