Fara í innihald

Norðhvalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norðhvalur
Norðhvalir, kálfur og kýr
Norðhvalir, kálfur og kýr
Stærð norðhvals miðað við meðalmanna
Stærð norðhvals miðað við meðalmanna
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Skíðishvalir (Mysticeti)
Ætt: Sléttbakar (Balaenidae)
Ættkvísl: Balaena
Tegund:
B. mysticetus

Tvínefni
Balaena mysticetus
Linnaeus, 1758
Útbreiðslusvæði norðhvals (blár litur)
Útbreiðslusvæði norðhvals (blár litur)

Norðhvalur (fræðiheiti: Balaena mysticetus), einnig nefndur grænlandssléttbakur og grænlandshvalur, er stór skíðishvalur. Auk hans eru einungis sléttbakurinn (Eubalaena glacialis) í ætt sléttbaka (Balaenidae).

Blástursop norðhvals

Norðhvalur er stærstur sléttbaka, hann er mjög gildvaxinn um bol og haus. Ummálið getur verið allt að 70% af heildarlengd. Hausinn er stór, um 40% af heildarlengd. Kjafturinn er sérkennilegur en svipaður og á sléttbak, munnvikin rísa í stórum boga frá trjónunni yfir neðra kjálkabein og taka síðan krappa beygju niður fyrir augun (augun eru aðeins fyrir neðan miðju á hliðunum). Bægslin eru stór og breið en ekki eins oddhvöss og hjá sléttbaknum. Eins og aðrir sléttbakar hefur tegundin ekkert horn á bakinu. Sporðurinn er mjög breiður, næstum 40% af lengd hvalsins.

Norðhvalurinn er að mestu svartur eða dökkbrúnn á litinn en með vel afmarkaða hvíta eða gráa flekki. Fremri hluti neðri kjálka er hvítur með gráum eða svörtum blettum.

Húðin er mun þykkari en á öðrum skíðishvölum sem vörn við núningi frá hafís. Spiklagið er mjög þykkt, allt að 70 cm.

Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir, 18 til 20 metra á lengd og upp undir 90 tonn á þyngd. Hámarksþyngd norðhvals hefur mælst 136 tonn.[2] Tarfarnir eru 16 til 18 metra langir en svipaðir á þyngd og kýrnar.

Norðhvalur er hægsyndur, meðalsundhraði á fartíma hefur mælst 1,5 til 6 kílómetrar á klukkustund.[3]

Útbreiðsla og hegðun

[breyta | breyta frumkóða]
Færeyskt frímerki með mynd af norðhval

Norðhval er einungis að finna í Norður-Íshafinu og á kaldtempruðu hafsvæði norðurhvels. Norðhvalir skiptast í fimm stofna, sá langstærsti hefur sumardvöl við Beringssund, annar minni stofn er í Kyrrahafi við austurströnd Síberíu. Í Norður-Atlantshafi eru leifar þriggja stofna, tveggja við Kanada og Vestur-Grænland og eins frá Austur-Grænlandi yfir að Novaya Zemlya. Suðurmörk síðastnefnda stofnsins lágu um eða norðan við Ísland á öldum áður; en engar heimildir eru um norðhvali við landið frá 1879 þegar sást til hans við ísrönd vestur af Arnarfirði.[4]

Norðhvalur heldur sig við ísröndina allt árið, fylgir henni norður að sumarlagi og aftur suður þegar haustar. Talið er að hann geti brotið allt að metra þykkan ís með hausnum til að komast upp til að anda.

Lítið er vitað um fæðuval norðhvals en sennilega étur hann nánast eingöngu smákrabbadýr. Hann veiðir, eins og sléttbakur, með svo kallaðri sundsíun sem felst i því að synda með opinn kjaft svo að sjórinn rennur stöðugt inn að framan og síast út í gegnum skíðin til hliðanna.

Norðhvalir eru einrænir og sjást oftast einir á ferð, þó einstaka dæmi séu um hópa með allt að 60 dýrum.[5] Tarfarnir gefa frá sér mjög kröftug lágtíðnihljóð sem þeir virðast nota til að laða að sér kýr, en hljóðin eru einnig talin geta gegnt öðrum samskiptahlutverkum.

Ekki er óalgengt að norðhvalur stökkvi þrátt fyrir klunnalegt vaxtarlag.

Norðhvalir virðast geta orðið mjög gamlir, gömul spjót, skutlar og önnur veiðarfæri sem hafa fundist í hvölum á síðustu árum benda til þess að þeir geti orðið allt að 150 til 200 ára gamlir.[6]

Veiðar og fjöldi

[breyta | breyta frumkóða]

Baskar hófu skipulagðar veiðar á norðhval við Labrador á 16. öld. Þeim veiðum var hætt um öld síðar enda lítið eftir af stofninum. Hollendingar, Þjóðverjar, Bretar og Norðmenn veiddu um 90 þúsund norðhvali við Svalbarða á tímabilinu 1669 til 1911 en þá lögðust veiðarnar af vegna þess að stofninn var nærri útdauður. Á 18. öld voru veiddir um 30 þúsund norðhvalir við Kanada og Grænland. Í lok 19. aldar lögðust veiðar á norðhval í Norður-Atlantshafi af vegna ofveiða og hafa stofnarnir þar ekki enn náð sér.[7]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Reilly, S.B., Bannister, J.L. og fl., 2008
  2. Wood, 1985
  3. Reeves o.fl. 1985
  4. Bjarni Sæmundsson, 1932
  5. Brownell og Ralls, 1986
  6. Rozell, 2001
  7. Ross, 1993
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Bjarni Sæmundsson, Íslensk dýr II: Spendýrin. Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, Reykjavík, 1932, 437 bls.
  • Brownell, R.L. og K. Ralls, Potential for sperm competition in baleen wales. Rep. int, Whal. Commn., Special Issue 8: 97-112. 1986.
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Reeves, R., og S. Leatherwood, Bowhead whale, Balaena mysticetus Linneaus, Í S.H. Ridgeway og R. Harrison (ritstjórar) Handbook of marine mammals, Academic press Inc. London. bls. 305-344. 1985
  • Reeves, R., B. Stewart, P. Clapham og J. Powell, National Audubon Society Guide to Marine Mammals of the World (New York: A.A. Knopf, 2002). ISBN 0-375-41141-0.
  • Reilly, S.B., J.L. Bannister, P.B. Best, M. Brown, R.L. Brownell Jr., D.S. Butterworth, P.J. Clapham, J. Cooke, G.P. Donovan, J. Urbán, og A.N. Zerbini, „Eubalaena glacialis“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
  • Ross, W.G., Commercial waling in the North Atlantic sector. Í: Burns, J.J. , J.J. Montague og C.J. Cowles (ritstjórar) The Bohead Whale. The Society for marine mammalogy, special publ. 2. Bls. 511-561. 1993.
  • Rozell, N. Bowhead Whales May Be the World's Oldest Mammals í Alaska Science Forum Geymt 9 desember 2009 í Wayback Machine
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
  • Tausti Einarsson, Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirnnsóknir, Studia Historica 8. bindi (ristjóri Bergsteinn Jónsson) Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1987
  • Wood, The Guinness Book of Animal Facts and Feats. Sterling Pub Co Inc. 1993 ISBN 978-0-85112-235-9.
  • „Hvar lifir grænlandshvalur?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver eru 10 stærstu dýr heims?“. Vísindavefurinn.
  • Whale and Dolphin Conservation Society
  • Heimildarmynd um norðhval, In Search of the Bowhead Whale, texti á ensku Geymt 10 júní 2021 í Wayback Machine
  • Vídeó af norðhval, texti á ensku Geymt 3 desember 2016 í Wayback Machine