Menningarstríðin (Bandaríkin)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Menningarstríðin í Bandaríkjunum er myndlíking notuð yfir pólitískan ágreining í Bandaríkjunum vegna ólíkra menningarlegra gilda. Hin ólíku gildi grundvallast á skoðunum íhaldssamra annars vegar og frjálslyndra hins vegar. Talið er að menningarstríðin í Bandaríkjunum hafi fyrst orðið áberandi á sjöunda áratug 20. aldar, þótt uppruni þeirra nái lengra aftur í tímann, og hafa þau tekið upp margvíslega mynd frá þeim tíma.

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Hugtakið menningarstríð er talið hafa smitast til enskrar tungu frá hinu þýska „kulturkampf“, átök milli þýska keisaraveldisins og kaþólsku kirkjunnar á árunum 1871-1878[1], sem þýðir bókstaflega „menningabarátta“. Á þriðja áratug 20. aldar setti ítalski marxistinn Antonio Gramsci fram kenningu um menningarlega drottnun yfirstéttarinnar sem ástæðu hægrar þróunar á umbótum verkafólks í Evrópu. Vildi hann meina að menningarlega fjölbreyttu samfélagi væri hægt að stjórna með einokun einnar stéttar á boðleiðum skilaboða, til dæmis á fjölmiðlum. Gramsci talaði því fyrir menningarstríðum þar sem and-kapítalísk öfl ættu að vinna markvisst að því að láta til sín heyra á áhrifamiklum vettvangi, svo sem í menntakerfinu og í fjölmiðlum.

Um nokkurra áratuga skeið frá þriðja áratug 20. aldar urðu umtalsverðir fólksflutningar til borga og annarra þéttbýlla svæða í Bandaríkjunum. Var sú þróun afleiðing hinna áköfu ára þriðja áratugarins (e. Roaring 20‘s) þegar innflytjendalög voru hert umtalsvert[2]. Þessi þróun hafði í för með sér átök um ólík gildi þeirra sem heyrðu til þéttbýlis annars vegar og dreifbýlis hins vegar. Eru það þessi átök ólíkra gilda sem átt er við þegar fjallað er um menningarstríðin sem bandarískt fyrirbæri.

1980-1990[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin í Bandaríkjunum á níunda áratug 20. aldar einkenndust fyrst og fremst í andrúmslofti hinna íhaldssömu í forsetatíð Ronald Reagan[3]. Hinir trúarlegu hægri sinnar (e. religious right) höfðu uppi stöðuga gagnrýni í garð fræðimanna og listamanna í baráttu gegn því sem þeir sögðu vera vansæmandi og guðlastandi niðurrifsstarfsemi[4]. Einnig héldu þeir uppi stanslausum áróðri þess efnis að pólitískir andstæðingar sínir græfu undan vestrænni siðmenningu og hefðbundnum gildum fjölskyldunnar[5].

1990-2000[breyta | breyta frumkóða]

Patrick Buchanan árið 2008.

Hugtakið menningarstríð birtist fólki þegar bók James Davison Hunter félagsfræðings við háskólann í Virginíu, Culture Wars: The Struggle to define America, kom út árið 1991. Í henni lýsir Hunter því hversu miklar umbreytingar og togstreita einkenndi orðið amerísk stjórnmál og menningu. Í bókinni bendir hann á það hversu mörg málefni væru orðin að hitamáli þegar minnst væri á þau, mál eins og fóstureyðing, aðskilnaður ríkis og kirkju, einkalíf, neysla eiturlyfja til afþreyingar, samkynhneigð og mál er varða ritskoðun. Við þetta hafði skapast áberandi klofningur í tvær áttir. Ekki nóg með það að þessi málefni yllu sundrung heldur virtist fólk taka afstöðu til málefnanna út frá hugmyndafræðilegri heimssýn frekar en út frá trú, þjóðerni, stétt eða jafnvel afstöðu þeirra gagnvart stjórnmálum[6]. Samkvæmt Hunter stafaði þessi klofningur af því sem hann kallar Framfarastefnu (e. Progressivism) og Bókstafartrú (e. Orthodoxy)[7].

Á landsþingi repúblikana árið 1992 fékk Pat Buchanan ræðutíma á besta tíma ráðstefnunnar til að flytja ræðu sína sem eftir það hefur fengið viðurnefnið “menningarstríðsræðan“[8].

Í ræðu sinni sagði hann: “Það er trúarlegt stríð í gangi í landinu okkar sem berst fyrir sálu Ameríku. Það er menningarstríð, sem mun hafa jafn afgerandi áhrif á okkur sem þjóð í framtíðinni eins og sjálft Kalda stríðið hafði“[9]. Ásamt því að gagnrýna “öfgafulla umhverfissinna” og “róttæka feminista” kvað hann hin almennu siðgæði vera rót vandans:

Á málefnaskrá sem [Bill] Clinton og [Hillary] Clinton munu þröngva upp á Ameríku – fóstureyðingar samkvæmt eftirspurn, fylgnipróf (e. litmus test) fyrir hæstarétt, réttur samkynhneigðra, fordómar gegn trúarlegum skólum, konur í hernaði – þetta eru allt breytingar, svo er víst. En þetta eru ekki þess konar breytingar sem Bandaríkin vilja. Þetta er ekki þess konar breyting sem Bandaríkin þarfnast. Og þetta er ekki þess konar breytingar sem við getum sætt okkur við sem þegnar í því sem við enn köllum Guðs landi[10].

Þegar Buchanan bauð sig síðan fram til forseta árið 1996, gaf hann út það loforð að berjast fyrir hinni íhaldssömu hlið menningarstríðsins:

Ég mun nota áheyrnapontu (e. bully pulpit) forseta Bandaríkjanna, eins ítarlega og mér er unnt, til að verja bandarískar hefðir og þau gildi trúar, fjölskyldu og lands gegn árásum úr öllum áttum. Og í sameiningu munum við hrekja þá sem ýta undir hugmyndir er varða kynhneigð og ofbeldi aftur undir klettana þaðan sem þau komu[11].

Menningarstríð á 21. öldinni[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin eftir árið 2000 hafa tengst trúarlegum ágreiningi. Helstu ágreiningsmál nútímans hafa snúið að réttindum samkynhneigðra og réttindum kvenna til fóstureyðinga.

Réttindi samkynhneigðra[breyta | breyta frumkóða]

Réttindi samkynhneigðra eftir árið 2000 hafa meðal annars falist í rétti þeirra til þess að þjóna í hernum og rétti þeirra til að ganga í hjónaband. Samkvæmt frjálslyndum Bandaríkjamönnum er réttur samkynhneigðra til þess að ganga í hjónaband mál sem snýr að jöfnuði sem ganga á jafnt yfir alla en hjá íhaldsmönnum tengist málið trú og siðferði. Barack Obama hefur tjáð skoðun sína á þessu máli í bók sinni Audacity of hope sem kom út árið 2006. Segir hann þar að samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og aðrir en hvað varðar hjónabönd þá eigi samfélagið að halda sig við hið hefðbundna.

Árið 2003 féll mikilvægur hæstaréttardómur í máli Lawrence gegn Texas, um réttindi samkynhneigðra. Málið snéri að sódómsku lögum í Texas (e. Sodomy law) og féll dómur Lawrence í vil. Í dómnum kom meðal annars fram að ríkinu væri óheimilt að skipta sér að kynlífi samkynhneigðra í þeirra einkalífi. Árið 1993 hlaut tillaga Bill Clinton um þátttöku samkynhneigðra í hernum samþykki. Tillagan gengur undir nafninu ekki spyrja, ekki segja frá (e. Don‘t ask, don‘t tell) sem felur í sér að samkynhneigðir megi þjóna í hernum svo lengi sem þeir komi ekki út úr skápnum. Í febrúar 2010 samþykkti fulltrúadeild þingsins tillögu þess efnis að samkynhneigðir mættu opinskátt þjóna í hernum. Tillagan fór í gegn eftir magnþrungna umræðu í fulltrúadeildinni en málið hefur ekki enn verið tekið upp í öldungadeildinni.

Fóstureyðingar[breyta | breyta frumkóða]

Umræður um fóstureyðingar eru umfangsmikill hluti menningarstríðsins og spanna þær nokkra áratugi. Þær snúast um siðferðilegar og lagalegar hliðar málsins. Andstæðar afstöður umræðunnar skiptist á milli þeirra sem styðja frelsið til að velja (e. Pro choice) og þeirra sem styðja verndun lífs (e. Pro life). George W. Bush samþykkti lög árið 2003 sem banna síðbúnar fóstureyðingar (e. Partial-Birth Abortion), en það eru fóstureyðingar seint á meðgöngu eða eftir 16. viku. Þetta var hitamál sem kom aftur upp árið 2007 þegar mál Gonzales gegn Carhart fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna. Þar tapaði Gonzales málinu og því héldu lögin. Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hafði aðrar skoðanir á málefnum fóstureyðinga og samkynhneigðra en forveri hans George W. Bush. Bush lagði áherslu kristin gildi og siðferði á meðan Obama er frjálslyndari og vill aukna fræðslu um fóstureyðingar og getnaðarvarnir.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. New Advent. (e.d.). Causes of the Kulturkampf. Sótt 29. október 2010.
 2. Assumption.edu. (2001). Seminar on the Culture Wars of the 1920s. Sótt 29. október 2010.
 3. Enotes.com. (e.d.). Culture Wars: Controversy. Sótt 29. október 2010.
 4. Enotes.com. (e.d.). Culture Wars: Controversy. Sótt 29. október 2010.
 5. Thenation.com. (24. nóvember 2004). Hostile Obituary for Derrida. Sótt 29. október 2010.
 6. Hunter, J.D. (1992). Culture Wars: The Struggle to define America. New York: Basic books
 7. Hunter, J.D. (1992). Culture Wars: The Struggle to define America. New York: Basic books
 8. The Internet Brigate. (17. ágúst 1992). 1992 Republican National Convention Speech. Sótt 29. október 2010.
 9. The Internet Brigate. (17. ágúst 1992). 1992 Republican National Convention Speech. Sótt 29. október 2010.
 10. The Internet Brigate. (17. ágúst 1992). 1992 Republican National Convention Speech. Sótt 29. október 2010.
 11. 4president.com. (20. mars 1995). Announcement Speech by Patrick J. Buchanan. Sótt 29. október 2010.