Fara í innihald

Menningarstríðin (Bandaríkin)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Menningarstríðin er myndlíking sem er notuð til að lýsa pólítískum átökum í Bandaríkjunum um ólík menningarleg- og félagsleg gildi síðan á sjöunda áratug 20. aldar. Spurningar um siðferðileg álitaefni eins og þungunarrof og boðun kristinnar trúar í skólum eru meðal þeirra átakaefna sem hafa knúið áfram menningarstríðin. Önnur pólítísk átök um bandarísk innanríkismál hafa einnig iðulega verið háð á vigvelli menningarstríðanna, þar sem Repúblíkanaflokkurinn hefur barist fyrir íhaldssömum gildum, á borð við hefðbundin fjölskyldugildi og trú, meðan Demókrataflokkurinn hefur barist fyrir frjálslyndum gildum, á borð við fjölmenningarsamfélag og aðskilnað ríkis og kirkju.

Menningarstríðin hafa verið háð á vettvangi stjórnmálanna, þar sem stjórnmálamönnum á borð við Patrick Buchanan hefur verið lýst sem „krossförum menningarstríðanna” (e. Culture War Warriors). En auk stjórnmálamanna hafa ýmsir fremstu hugsuðir bandarískra hægrimanna, sérstaklega úr röðum ný-íhaldsmanna, og ýmsar hægrisinnaðar grasrótarhreyfingar kristinna íhaldsmanna leikið mikilvægt hlutverk í baráttunni gegn pólítískum og menningarlegum áhrifum hreyfinga sem spruttu upp úr uppreisn æskulýðsins og hinu nýja vinstri á sjöunda áratugnum.

Gömul og óleyst átakamál, eins og samskipti kynþáttanna og jafnrétti kynjanna, hafa síðan á sjöunda áratugnum í vaxandi mæli verið rædd á forsendum menningarstríðanna þar sem takast á tvær ólíkar hugmyndir um hverskonar samfélag Bandaríkin séu eða eigi að verða. Kennslustofur grunnskóla, og háskólar, hafa verið meðal mikilvægustu vígvalla menningarstríðanna. „Sögustríð” níunda og tíunda áratugarins snérust um hverskonar sögu bandarískir grunnskólar ættu að kenna, sögukennslu í háskólum og þá sögu sem sögð var í sýningum safna á borð við Guggenheim. Margir afdrifaríkustu hæstaréttardómar á ofanverðri 20. öld féllu í málum sem menningarstríðin hverfast um, svo sem Engel v. Vitale (1962) og Roe v. Wade (1973).

Frá aldamótum hafa ýmis ný átakamál orðið hluti menningarstríðanna, þar á meðal spurningar um réttinn til skotvopnaeignar og vopnaburðar á almannafæri. Samhliða þessu hafa nýjar fjöldahreyfingar orðið áberandi í menningarstríðunum, til dæmis militiahreyfingin og hópar á borð við Boogaloo hreyfinguna. Annað mikilvægt einkenni þessara átaka á síðustu áratugum hefur verið vaxandi vægi ýmissa samsæriskenninga.

Uppruni hugtaksins

[breyta | breyta frumkóða]

Hugtakið menningarstríð er talið hafa borist fyrst í ensku úr þýsku á 19. öld, þá til að lýsa hinu þýska „kulturkampf“, átökum milli þýska keisaraveldisins og kaþólsku kirkjunnar á árunum 1871-1878,[1] sem þýðir bókstaflega „menningabarátta“.

Hugtakið menningarstríð var fyrst notað til að lýsa bandarískum stjórnmálaátökum á ofanverðri 20. öld í bók félagsfræðingsins James Davison Hunter, Culture Wars: The Struggle to define America, sem kom út árið 1991. Hunter benti á að helstu hitamál stjórnmálanna á áttunda og níunda áratugnum voru siðferðileg álitaefni eins og þungunarrof, aðskilnaður ríkis og kirkju, einkalíf, afþreyingarneysla fíkniefna, samkynhneigð og spurningar um klám og ritskoðun.[2] Í forsetatíð Ronald Reagan 1980-88 höfðu kristnir íhaldsmenn verið mjög áberandi, en margir eignuðu þeim sigur Reagan í forsetakosningunum 1980. Kristnir íhaldsmenn og ný-íhaldsmenn í ríkisstjórn Reagan héldu uppi stöðugri gagnrýni á fræðimenn og listamenn sem þeir sökuðu um guðlast og samfélagslega niðurrifsstarfsemi.[3] Fræðimenn voru gagnrýndir fyrir að grafa undan vestrænni siðmenningu og hefðbundnum fjölskyldugildum.[4][5] Hunter benti á að þjóðin virtist hafa klofnað í tvær fylkingar í þegar kom að siðferðilegum álitamálum, þvert á trú, þjóðerni eða stétt. Samkvæmt Hunter tókust tvö öfl á um að skilgreina hverskonar samfélag Bandaríkin ættu að vera, annars vegar það sem hann kallaði Progressivism og hins vegar Orthodoxy.[6]

Á tíunda áratugnum var almennt farið að tala um bandarísk stjórnmál sem menningarstríð. Ræða sem Pat Buchanan hélt á landsþingi Repúblíkanaflokksins 17. ágúst 1992, „menningarstríðsræðan”, skilgreindi hugtakið í hugum bandarísks almennings og stjórnmálaskýrenda.[7] Í ræðunni fangaði Buchanan meginátakalínur menningarstríða undangenginna áratuga og þær spurningar sem væru í húfi í kosningunum 1992.

Í ræðunni sagði Buchanan að þó Kalda stríðinu væri lokið stæðu Bandaríkin enn í stríði, menningarstríði sem væri hugsanlega afdrifaríkara en átökin við Kreml, því það snérist um sál þjóðarinnar, og andstæðingurinn væri innlendur. „Það er trúarlegt stríð í gangi í landinu okkar sem berst fyrir sálu Ameríku. Það er menningarstríð, sem mun hafa jafn afgerandi áhrif á okkur sem þjóð í framtíðinni eins og sjálft Kalda stríðið hafði.”[8] Buchanan sagði að Clinton-hjónin væru í óvinaherbúðum þessa stríðs, ásamt „öfgafullum umhverfissinnum” og „róttækum feministum” sem ógnuðu almennu siðgæði:

Stefnuskráin sem Clinton og Clinton ætla að þröngva upp á Ameríku – frjálsar fóstureyðingar, pólítískur réttrúnaður í Hæstarétti, kynvillingaréttindi, mismunun gegn trúarlegum skólum, konur í hernum – felur sko svo sannarlega í sér breytingar. En þetta eru ekki þess konar breytingar sem Bandaríkin vilja. Þetta er ekki þess konar breyting sem Bandaríkin þarfnast. Og þetta er ekki þess konar breytingar sem við getum sætt okkur við sem borgarar í því sem við köllum enn Guðs land.[9]

Menningarstríðin á tímabilinu 1960-1974

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin á tímabilinu 1960-1974

Menningarstríðin rekja rætur sínar til ris hinnar nýju vinstrihreyfingar á sjöunda áratugnum og bakslags frá hægri, annars vegar frá ný-íhaldsmönnum og hins vegar kristnum íhaldsmönnum. Spurningar um afstöðu til sambúðar kynþáttanna og stöðu kvenna voru gegnumgangandi. Mörg helstu átakamálin í forsetatíð John F. Kennedy, Lyndon B. Johnson og Richard M. Nixon voru forspil og upphaf að langvinnum átökum sem áttu eftir að setja svip sinn á næstu áratugi. Orðræða og átaklínur menningarstríðanna mótuðust á þessum árum.

Menningarstríðin á tímabilinu 1974-1980

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin á tímabilinu 1974-1980

Sjöundi áratugurinn markaði mikilvæg kaflaskil í bandarískri stjórnmálasögu. Kristnir íhaldsmenn urðu að mikilvægu afli innan Repúblíkanaflokksins sem tók í vaxandi mæli að sækja fylgi til Suðurríkjanna. The Solid South sem Demókrataflokkurinn hafði reitt sig á tók að veikjast.

Pólítísk vakning kristinna íhaldsmanna átti sér nokkrar rætur. Ein sú mikilvægasta var dómur hæstaréttar Roe w. Wade. Önnur var vaxandi afskipti alríkisins að kristnum einkaskólum sem áttu á hættu að tapa skattfrelsi ef þeir héldu áfram að neita að taka við svörtum nemendum. Í forsetatíð Gerald Ford og Jimmy Carter hófu kristnir íhaldsmenn undir forystu Phillis Schafly herferð gegn The Equal Rights Amendment (ERA), stjórnarskrárviðauka sem hefði greypt jafnrétti kynjanna í Stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Stofnun Moral Majority 1979 markaði innreið kristinna íhaldsmanna í stjórnmálin. Samtökin eru talin hafa leikið lykilhlutverk í sigri Ronald Reagan í forsetakosningunum 1980. Repúblíkanaflokki Reagan var lýst sem "stóru tjaldi" þar sem rúmuðust kristnir íhaldsmenn, ný-íhaldsmenn, auk hefðbundnari stuðningsmanna flokksins, hauka, frjálshyggjumanna og leiðtoga atvinnulífsins.

Menningarstríðin á tímabilinu 1980-1992

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin á tímabilinu 1980-1992

Menningarstríðin á tímabilinu 1992-2000

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin á tímabilinu 1992-2000

Helstu átakamál menningarstríðanna á forsetatíð Bill Clintons voru réttindabarátta kvenna, réttindabarátta samkynhneigðra og skotvopnalöggjöf.  Í lok kjörtímabils hans kom svo upp stór kynlífsskandall milli Bill Clinton og starfskonunnar Monica Lewinsky árið 1998, sem hristi upp í þjóðinni og krafðist athygli og viðbragða forsetans. Því varð þá nokkurs konar vopnahlé á áratugalöngum menningarstríðsátökum um kyn og kynhneigð.[10]

Réttindabarátta kvenna

[breyta | breyta frumkóða]

Réttindabarátta kvenna, femínismi, hafði vaxið mikið á áttunda og níunda áratugnum. Átök mynduðust um stöðu kvenna, þá aðallega innan hjónabandsins og hennar skyldur þar. Hinir trúarlegu íhaldsmenn(en) vildu halda í þær gömlu hefðir og menningarlegu venjur sem ríktu á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina og ætlast var til að fólk framfylgdi – þá aðallega hvítt, gagnkynhneigt, kristið millistéttar Bandaríkjafólk. Þar voru hlutverk kynjanna skýr, maðurinn var fyrirvinna heimilisins á meðan konan hugsaði um börnin heimafyrir, og kynlíf átti bara að fara fram innan gagnkynhneigðs hjónabands.

En nýjar hugmyndir mynduðust á áttunda og níunda áratugnum um kyn, kynhneigð, hjónabönd og fjölskylduna. Fyrst snerist réttindabaráttan um að brjóta upp þessar almennu reglur um hlutverk kvenna og, meðal annars auðvelda konum að komast á vinnumarkaðinn. Í kjölfar átaka femínískra  grasrótahreyfinga á áttunda áratugnum voru sett á lög sem gerðu konum, sem höfðu þolað heimilisofbeldi eða verið nauðgað, auðveldara að leita réttar síns. Á áttunda áratugnum hófust mikil átök um rétt kvenna til fóstureyðinga, í kjölfar málaferlis Roe gegn Wade 1973, sem hafa náð allt til dagsins í dag. Átökin voru ekki alltaf friðsæl og þegar Reagan lauk forsetatíð sinni 1988 höfðu 77 fóstureyðingastofur verið sprengdar, kveikt hafði verið í 177 stofum og búið að valda öðrum skemmdarverkum á enn fleirum.

Bill Clinton hefur verið sagður femínískur frjálshyggjumaður, hlynntur fóstureyðingum og yfir höfuð póstmódernískur forseti. Kona Bill, Hillary Clinton, hefur mikið látið til sín taka í stjórnmálum og leiddi  meðal annars vinnuhóp sem átti að bæta heilbrigðiskerfið á tíma sínum sem forsetafrú. Íhaldsmönnum misbauð það, ekki bara því þeir voru gegn breytingum á heilbrigðiskerfinu, heldur einnig vegna þess að Hillary, sem hefur átt farsælan feril, var ekki í því forsetafrúrhlutverki sem tíðkaðist og íhaldsmenn bjuggust við haf henni. Bill Clinton steig sín fyrstu skref í stjórnmálum þegar hann vann í herferð George McGovern „acid, amnesty, and abortion“. [11]

Bill Clinton var þó ekki duglegur að tala um fóstureyðingar og hafði fyrir forsetatíð sína sagst vera gegn henni. En 1992 sagði hann við þjóðina í orðræðu um fóstureyðingar sem lifðu lengi í demókrataflokknum: „safe, legal, rare“. [12] Með því sýndi hann þess merki að hann myndi viðhalda þeim lögum sem sett höfðu verið um rétt kvenna til fóstureyðingar án þess þó, vonaðist hann, að missa áhuga þeirra sem höfðu sínar siðferðislegu efasemdir um fóstureyðingar.[13]

Réttindabarátta samkynhneigðra

[breyta | breyta frumkóða]

Á sjöunda áratuginum fóru hjól réttindabaráttu samkynhneigðra að snúast og þá sérstaklega við Stonewall-uppþotin 1969. Hefð fyrir árlegum gleðigöngum myndaðist í frjálslyndari stórborgum, eins og New York og San Fransisco, og samtök samkynhneigðra, Gay and Lesbian Advocates and their Defenders (GLAD), voru stofnuð 1978. Að sannfæra Bandaríkjamenn um að samþykkja samkynhneigð var erfitt og ekki varð það auðveldara þegar samkynhneigðir karlar voru í yfirgnæfandi meirihluta fórnarlamba nýs einkennilegs og lífshættulegs sjúkdóms á fyrri hluta níunda áratugsins.

Sjúkdómurinn var alnæmi (AIDS) og hommahatarar tóku upp á að kalla hann „hommaveikina“.  Patrick Buchanan, kristinn, íhaldssamur stjórnmálamaður, lét þau orð falla um alnæmi árið 1983: „The poor homosexuals, they have declared war upon nature, and now nature is exacting an awful retribution“. Alnæmi varð vissulega bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Alnæmissjúkdómurinn knúði þó áfram báða hópa menningarstríða um réttindabaráttu samkynhneigðra. Hinir trúarlegu íhaldsmenn(en) sáu alnæmi sem tækifæri til þess að magna bakslagið gegn frelsi samkynhneigðra. En baráttufólk fyrir samkynhneigða unnu enn harðar að því að vinna gegn tilraun kristinna íhaldsmanna til að gera samkynhneigða að úrhraki samfélagsins.

Ronald Reagan forseti gerði ekki mikið til þess að vinna gegn smitsjúkdóminum og tjáði sig ekki opinberlega um alnæmi fyrr en 1987. Skömmu eftir það fundu vísindamenn upp lyf sem að hélt aftur af sjúkdóminum og samkynhneigð varð í kjölfarið viðurkenndari. [11]

Árið 1996 varð stórt skref í réttindabaráttu hinsegin fólks þegar hæstiréttur kvað upp dóm í tímamótadómsmálinu Romer gegn Evans. Þar ógilti hæstiréttur lög í öðrum viðauka stjórnarskrár Colorado fylkis, sem bannaði lög sem studdu réttindi samkynhneigðra. Í kjölfarið lýsti hæstiréttur Bandaríkjanna því opinberlega yfir að það stangaðist á við jafnréttisákvæði 14. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar[14]

Eitt af stefnumálum Bill Clintons sem forseti var aflétta banni hinsegin fólks í hernum. Stefnumálið fékk viðurnefnið „Don‘t ask, don‘t tell“ og varð að lögum árið 1994. Með þeim lögum máttu samkynhneigðir Bandaríkjamenn ganga í herinn með því skilyrði að þeir héldu því leyndu og kæmu ekki út úr skápnum. Starfslið hersins máttu þá ekki mismuna eða áreita þá sem þeir töldu samkynhneigða. Þó svo leynd þurfti að ríkja yfir þeim sem voru samkynhneigðir í hernum var löggjöfin almennt talin mikil framför í réttindabaráttu samkynhneigðra. Skilyrðinu um leyndina var svo alveg aflétt árið 2011 þegar Barack Obama setti lög sem afléttu bann samkynhneigðra í hernum. [15]

Skotvopnalöggjöf

[breyta | breyta frumkóða]

Á tíma sínum sem forseti skrifaði Bill Clinton undir tvær stórar skotvopnalöggjafir. Önnur þeirra skrifaði hann undir árið 1993 og kölluðust Brady lögin (e. Brady handgun violence protaction act), eftir Jim Brady, fjölmiðlaritara Reagan forseta, sem fékk skot í höfuðið við morðtilraun á Reagan og lamaðist til frambúðar. Árásarmaðurinn hafði þá falsað skilríki við byssukaupin sem hann notaði í morðtilrauninni og samkvæmt Brady lögunum báru skotvopnasölumönnum skylda til að kanna bakgrunn skotvopnakaupanda áður en hann fengi vopnið og kanna þar með hvort kaupandi sé virkilega með skotvopnaleyfi. [16]

Árið 1994 skrifaði Bill Clinton svo undir lög sem kölluðust á ensku Public Safety and Recreational Firearms Use Protection Act. Í löggjöfinni voru sett takmörk á fjölda hernaðarlegra eiginleika á byssum og bann á hríðskotarifflum fyrir almenning. Með löggjöfinni var bannað að framleiða, selja og eiga hríðskotariffla. Þetta þótti stórt skref í að takmarka byssueign almennings, en þótti ekki hafa langtímaáhrif. Meðal annars vegna þess að lögin voru einungis til 10 ára og féllu því úr gildi árið 2004. Einnig vegna þess að gallar þóttu á löggjöfinni, sá helsti að undantekning var gerð fyrir þá sem höfðu keypt sér slíka byssu áður en löggjöfin tók gildi, og þeim bar ekki skylda til þess að skila inn byssunni. [17]

Menningarstríðin á tímabilinu 2000-2016

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin á tímabilinu 2000-2016

Átök um hlutverk kristinnar trúar og kristins siðgæðis voru fyrirferðarmikil í menningarstríðsátökum áranna eftir aldamót. Átök um rétt kvenna til þungunarrofs og kennsla sköpunarsögu Biblíunnar í skólum voru fyrirferðarmikil átakamál. Réttindabarátta samkynhneigðra og hinseginfólks hafa sömu leiðis verið áberandi.

Réttindi samkynhneigðra

[breyta | breyta frumkóða]

Réttindabarátta samkynhneigðra frá aldamótum hefur meðal annars falist í baráttu fyrir réttinum að gegna herþjónustu og til að ganga í hjónaband.

Barack Obama tjáði sig um hjónabönd samkynhneigðra í bók sinni Audacity of hope sem kom út árið 2006 Þar sagði hann að samkynhneigðir ættu að njóta sömu réttinda og aðrir en að hjónabandið væri hefðbundin stofnun og að það ætti ekki að kollvarpa henni.

Árið 2003 féll hæstaréttardómur í máli Lawrence gegn Texas, um réttindi samkynhneigðra. Málið snéri að siðgæðislögum Texas (e. Sodomy law). Dómurinn komst að því að friðhelgisákvæði Stjórnarskrár Bandaríkjanna bannaði ríkinu að setja lög um kynlíf samkynhneigðra.

Árið 1993 skrifaði Bill Clinton undir svokölluð Don‘t ask, don‘t tell lög (DADT), sem heimilaði samkynhneigðum að gegna herþjónustu svo fremi sem þeir kæmu ekki úr skápnum. Lögin voru felld úr gildi af Barack Obama 2011. DADT rann úr gildi 20 september 2011. Eftir þann tíma hefur samkynhneigt fólk mátt gegna herþjónustu í Bandaríkjaher.

Þungunarrof

[breyta | breyta frumkóða]

Deilur um þungunarrof í Bandaríkjunum hafa verið á milli fylkinga sem hafa lýst sér annars vegar sem talsmönnum valfrelsis, (e. Pro choice) og þeirra sem vernda líf (e. Pro life).

George W. Bush samþykkti árið 2003 lög sem banna síðbúið þungunarrof (e. Partial-Birth Abortion), en það er þungunarrof eftir 16. viku meðgöngu. Þetta var hitamál sem kom aftur upp árið 2007 þegar mál Gonzales gegn Carhart fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna þar sem Hæstiréttur staðfesti lögin.

Menningarstríðin á frá 2016

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarstríðin á frá 2016

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. New Advent. (e.d.). Causes of the Kulturkampf. Sótt 29. október 2010.
  2. Hunter, J.D. (1992). Culture Wars: The Struggle to define America. New York: Basic books
  3. Enotes.com. (e.d.). Culture Wars: Controversy Geymt 21 desember 2010 í Wayback Machine. Sótt 29. október 2010.
  4. Enotes.com. (e.d.). Culture Wars: Controversy Geymt 21 desember 2010 í Wayback Machine. Sótt 29. október 2010.
  5. Thenation.com. (24. nóvember 2004). Hostile Obituary for Derrida. Sótt 29. október 2010.
  6. Hunter, J.D. (1992). Culture Wars: The Struggle to define America. New York: Basic books
  7. The Internet Brigate. (17. ágúst 1992). 1992 Republican National Convention Speech. Sótt 29. október 2010.
  8. The Internet Brigate. (17. ágúst 1992). 1992 Republican National Convention Speech. Sótt 29. október 2010.
  9. The Internet Brigate. (17. ágúst 1992). 1992 Republican National Convention Speech. Sótt 29. október 2010.
  10. Andrew Hartman (2015). A war for the soul of America. A history of the culture wars. bls. 170.
  11. 11,0 11,1 Andrew Hartman (2015). A war for the soul of America. A history of the culture wars. bls. 134-170.
  12. Flanagan, Caitlin (6. desember 2019). „Losing the 'Rare' in 'Safe, Legal, and Rare'. The Atlantic (bandarísk enska). Sótt 4. desember 2020.
  13. Alexandra DeSanctis (Nóvember 2019). „How Democrats purged 'safe, legal, rare' from the party“. The Washington Post. Sótt Desember 2020.
  14. „Romer v. Evans“. Oyez. Maí 1996. Sótt desember 2020.
  15. Pruitt, Sarah. „Once Banned, Then Silenced: How Clinton's 'Don't Ask, Don't Tell' Policy Affected LGBT Military“. HISTORY (enska). Sótt 4. desember 2020.
  16. Ásbjörn Tryggvi Sveinbjörnsson (2013). Skotvopnaárásir í skólum. Er hert skotvopnalöggjöf lausnin? BA rigerð í félags- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. bls. 11.
  17. Riley, Russell (25. júní 2016). „Bill Clinton's Costly Assault Weapons Ban“. The Atlantic (bandarísk enska). Sótt 4. desember 2020.