Max Delbrück

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Lífvísindi
20. öld
Max Delbruck.jpg
Nafn: Max Delbrück
Fædd/ur: 4. september 1906 í Berlín í Þýska keisaradæminu
Dáin/n: 9. mars 1981 í Pasadena í Kaliforníu
Svið: Sameindaerfðafræði
Helstu
viðfangsefni:
Erfðir í bakteríum og veirum
Markverðar
uppgötvanir:
Stökkbreytingar eru slembiháðar (en ekki aðlögun).[1]
Grunntækni í sameindaerfðafræði.
Alma mater: Georg-August-háskólinn í Göttingen
Helstu
vinnustaðir:
Vanderbilt University
Caltech
Cold Spring Harbor Laboratory
Verðlaun og
nafnbætur:
Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði 1969

Max Ludwig Henning Delbrück (fæddur 4. september 1906 í Berlín, dáinn 9. mars 1981 í Pasadena í Kaliforníu) var þýskur og bandarískur eðlisfræðingur og sameindaerfðafræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa með tilraunum sínum lagt grunninn að sameindalíffræði. Hann hlaut Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði ásamt Salvador Luria og Alfred Hershey árið 1969 fyrir rannsóknir á afritunarferli erfðaefnisins og erfðafræði veira [2].

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Max Delbrück fæddist inn í mikils metna fræðimannafjölskyldu. Faðir hans, Hans Delbrück, var prófessor í sagnfræði við Háskólann í Berlín og móðir hans, Carolina Thiersch, var barnabarn hins þekkta efnafræðings Justus von Liebig. Föðurbróðir hans og nafni, Max Delbrück eldri, var þekktur efnafræðingur og frumkvöðull í líftækni gers.

Delbrück nam stjörnufræði og kennilega eðlisfræði við Háskólann í Göttingen og útskrifaðist með doktorsgráðu árið 1930. Að því loknu starfaði hann að tímabundnum rannsóknaverkefnum, fyrst hjá John Lennard-Jones í Bristol og síðan hjá Niels Bohr í Kaupmannahöfn. Bohr og vangaveltur hans um algildi skammtafræðinnar, meðal annars varðandi lífverur og lífefnafræði, höfðu mikil áhrif á Delbrück og kveiktu hjá honum áhuga á þverfaglegum rannsóknum og líffræði[3].

Hann fluttist aftur til Berlínar árið 1932 og starfaði sem rannsóknamaður hjá Lisu Meitner við Kaiser Wilhelm stofnunina, en hún vann þá ásamt Otto Hahn að hinum þekktu rannsóknum sínum á geislavirkni úraníums. Á þessum tíma vann hann að kennilegum rannsóknum sínum á ljósbroti gammageisla sem síðar varð kennt við hann [3].

Árið 1937, þegar honum þótti afskipti nasista af rannsóknastarfi í Berlín orðin ólíðandi, flutti Delbrück til Bandaríkjanna og tók þá af fullum krafti til við rannsóknir í lífvísindum, fyrst við Caltech þar sem hann fékkst við erfðafræði bananaflugna. Við Caltech kynntist hann fyrst bakteríum og veirum þeirra (gerilætum eða fögum). Árið 1942, þá starfandi við Vanderbilt Háskóla í Tennessee, sýndu hann og Salvador Luria fram á að þolni baktería gegn gerilætum kemur til vegna slembiháðra stökkbreytinga, en ekki vegna aðlögunar. Fyrir þessa rannsókn hlutu þeir Nóbelsverðlaunin, ásamt Alfred Hershey.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. S. E. Luria og M. Delbrück (1943) Mutations of Bacteria from Virus Sensitivity to Virus Resistance. Genetics 28, 491–511. PDF
  2. „The Nobel Prize in Physiology or Medicine 1969". . (Vefsíða Nóbelnefndarinnar). Skoðað 19.12.2010.
  3. 3,0 3,1 W. Hayes (1993) Max Ludwig Henning Delbrück. Biographical Memoirs 62, 66-117. National Academy of Sciences http://books.nap.edu/openbook.php?record_id=2201&page=66