Fara í innihald

Lise Meitner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lise Meitner
Lise Meitner árið 1946.
Fædd17. nóvember 1878
Dáin27. október 1968 (89 ára)
MenntunVínarháskóli
StörfEðlisfræðingur
Undirskrift

Lise Meitner (17. nóvember 1878 – 27. október 1968) var austurrískur eðlisfræðingur sem stundaði rannsóknir á geislavirkni og kjarneðlisfræði.

Lise fæddist í Austurríki og var þriðja í röðinni af átta systkinum gyðingafjölskyldu. Hún innritaðist í háskólann í Vín árið 1901 þar sem hún lagði stund á eðlisfræði undir handleiðslu Ludwig Boltzmann. Eftir að hún fékk doktorsnafnbót sína, fór hún til Berlínar árið 1907 til að stunda rannsóknir ásamt Max Planck og efnafræðingnum Otto Hahn. Hún var í samstarfi við Hahn í 30 ár, þar sem hvort þeirra stjórnaði deild í Kaiser Wilhelm rannsóknarmiðstöðinni í efnafræði í Berlín. Hahn og Meitner áttu náið samstarf í rannsóknum á geislavirkni, með þekkingu hennar í eðlisfræði og þekkingu hans í efnafræði.

Árið 1918 uppgötvuðu þau frumefnið próaktiníum.

Árið 1923 uppgötvaði hún umskipti sem eru laus við geislavirkni, svokölluð Auger-áhrif. Þau eru skýrð í höfuðið á Pierre Victor Auger, frönskum vísindamanni sem uppgötvaði áhrifin tveimur árum á eftir Meitner.

Með uppgötvun nifteindarinnar snemma á fjórða áratugnum, fóru af stað vangaveltur um það í vísindaheiminum hvort hægt væri að búa til frumefni sem væru þyngri en úran (atómtala 92) í rannsóknarstofu. Upphófst þvínæst vísindalegt kapphlaup á milli Ernest Rutherford í Bretlandi, Irène Joliot-Curie í Frakklandi, Enrico Fermi á Ítalíu og Meitner-Hahn samstarfsins í Berlín. Á þessum tíma var almennt álit flestra sem fylgdust með að þarna væri verið að keppast um Nóbelsverðlaunin. Engan grunaði að afrakstur þessara rannsókna ætti eftir að enda með framleiðslu kjarnorkuvopna.

Eftir að Austurríki var innlimað inn í Þýskaland árið 1938, flúði Meitner til Svíþjóðar. Hún hélt þar áfram rannsóknum sínum í Manne Siegbahn rannsóknarmiðstöðinni í Stokkhólmi, en hlaut þar lítin stuðning vegna fordóma Siegbahns gagnvart konum í vísindum. Hahn og Meitner hittust leynilega í Kaupmannahöfn í nóvember til að skipuleggja nýja röð tilrauna og skiptust á fjölda bréfa. Tilraunirnar voru gerðar á rannsóknarstofu Hahns í Berlín og veittu fyrstu vísbendingar um að kjarnaklofnun gæti átt sér stað. Langvarandi upplýsingaflæði á milli Hahns og Meitner sýna að Hahn áleit að kjarnaklofnun væri óhugsandi þangað til Meitner sýndi honum fram á að hún hefði þegar átt sér stað. Hahn staðhæfði síðar að það hefðu eingöngu verið efnafræðirannsóknir sínar sem ráðið hefðu úrslitum varðandi uppgötvunina.

Það var pólitískt séð ómögulegt fyrir Meitner (sem var í útlegð) að birta rannsóknir sínar sameiginlega með Hahn árið 1939. Hahn birti efnafræðiniðurstöður sínar í janúar 1939 og Meitner birti eðlisfræðilegu skýringarnar mánuði síðar ásamt frænda sínum, eðlisfræðingnum Otto Robert Frisch, og kallaði ferlið "kjarnaklofnun." Meitner áttaði sig á að keðjuverkum hefði í för með sér gríðarlega sprengivirkni. Skýrslan hafði mikil áhrif og fór eins og eldur í sinu um vísindasamfélagið vegna þess að þarna var komin möguleiki á að framleiða vopn. Þar sem þekkingin var í höndum Þjóðverja, tóku Leo Szilard, Edward Teller og Eugene Wigner höndum saman og sannfærðu Einstein (vegna frægðar hans) til að skrifa aðvörunarbréf til Franklin D. Roosevelt, sem síðar leiddi til þess að Manhattan verkefninu var hrundið af stað. Meitner neitaði boði um að vinna við Manhattan-verkefnið í Los Alamos og sagði: „Ég vil ekkert hafa með sprengjuna að gera!“

Efnafræðingurinn Hahn og eðlisfræðingurinn Meitner í Emil Fischer efnafræðistofnuninni í Berlín árið 1909. Hahn fékk Nóbelsverðlaunin 1944. Meitner var tilnefnd alls 49 sinnum til verðlaunanna en fékk ekki.

Árið 1944 hlaut Hahn nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrir að uppgötva kjarnaklofnun. Það er álit margra vísindamanna að verðlaununum hefði átt að deila með Meitner. Útnefningin gæti hafa verið vegna staðhæfinga Hahns um að efnafræðirannsóknir hans hefðu einar og sér ráðið úrslitum um uppgötvunina. Vangaveltur hafa líka verið uppi um það, að Siegbahn sem var í Nóbelsverðlaunanefndinni hafi haft sitt að segja vegna andstöðu sinnar við Meitner. Útnefningin var að hluta leiðrétt árið 1966 þegar Hahn og Meitner voru saman sæmd Enrico Fermi verðlaununum ásamt Fritz Straßmann. Í heimsókn til Bandaríkjanna árið 1946 gerðu fjölmiðlar Meitner að nokkurskonar stjörnu þar sem ranglega kom from staðhæfing eins og „yfirgaf Þýskaland með sprengjuna í veskinu“. Hún var heiðruð sem „Kona ársins“ af landssamtökum kvenna í fjölmiðlum (í Bandaríkjunum) árið 1946 og hlaut Max Planck orðuna frá þýska eðlisfræðisambandinu árið 1949.

Meitner lést í Cambridge í Englandi árið 1968. Frumefni númer 109 kallast meitneríum og er skýrt í höfuðið á Meitner.

Frekari lesning

[breyta | breyta frumkóða]
  • Otto Robert Frisch, (ed.) 1959. Trends in Atomic Physics: Essays Dedicated to Lise Meitner, Otto Hahn, Max von Laue on the Occasion of their 80th Birthday. New York: Interscience.
  • Patricia Rife, Lise Meitner and the Dawn of the Nuclear Age Birkhäuser, 1999
  • Ruth Lewin Sime, Lise Meitner: A Life in Physics, Berkeley: University of California Press, 1996, ISBN 0520089065