Severo Ochoa
Lífvísindi 20. öld | |
---|---|
Nafn: | Severo Ochoa |
Fæddur: | 24. september 1905 í Luarca í Astúríashéraði á Spáni |
Látinn | 1. nóvember 1993 í Madríd |
Svið: | Lífefnafræði |
Helstu viðfangsefni: |
Efnaskipti, ensímefnafræði |
Markverðar uppgötvanir: |
Lífsmíð kjarnsýra, lykilþættir í öndunarkeðju, Krebshring og fleiri hvarfarásum grunnefnaskipta |
Alma mater: | Madrídarháskóli |
Helstu vinnustaðir: |
New York-háskóli |
Verðlaun og nafnbætur: |
Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 1959 |
Severo Ochoa de Albornoz (fæddur 24. september 1905 í Luarca í Astúríashéraði á Spáni, dáinn 1. nóvember 1993 í Madríd á Spáni) var spænskur og bandarískur lífefnafræðingur. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 1959 fyrir rannsóknir sínar á lífsmíð kjarnsýra.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Severo Ochoa fæddist í hafnarbænum Luarca við Biskajaflóann og ólst þar upp fyrstu æviárin, en fluttist sjö ára gamall með móður sinni til Málaga í Andalúsíu eftir að faðir hans dó. Í Málaga gekk hann í skóla og fékk fljótlega mikinn áhuga á líffræði, ekki síst eftir kynni sín af verkum hins fræga spænska taugalíffræðings og nóbelsverðlaunahafa, Santiago Ramón y Cajal. Hann hélt því til náms við læknaskóla Madrídarháskóla árið 1923, en missti raunar af Ramón y Cajal sem þá var nýhættur. Hann lauk námi árið 1929. Tveimur árum síðar kvæntist hann Carmen Garcia Cobian. Að námi loknu hélt Ochoa til Otto Meyerhof í Heidelberg í Þýskalandi þar sem hann vann að lífefna- og lífeðlisfræðilegum rannsóknum á vöðvum. Hjá Meyerhof hlaut hann mikilvæga reynslu í rannsóknatækni og –nálgunum sem átti eftir að gagnast honum mjög síðar meir.[1] Næstu árin átti hann eftir að gegna mörgum rannsóknastöðum hjá ýmsum þekktum fræðimönnum í Englandi og á Spáni þar til 1945 að hann fluttist til Bandaríkjanna og gerðist prófessor við við læknaskóla New York-háskóla, en þeirri stöðu gegndi hann allt til 1985, þegar hann flutti aftur til Spánar. Hann lést í Madríd haustið 1993, á 89. aldursári.
Fræðastörf
[breyta | breyta frumkóða]Ochoa starfaði lengstan hluta starfsferils síns að rannsóknum á starfsemi ensíma í lífrænum oxunarferlum, svo sem í orkunámsferlum frumunnar. Hann lagði mikið af mörkum til þekkingar á efnaskiptum sykrunga og fitusýra, svo og á lífsmíðaferlum kjarnsýra. Meðal merkra uppgötvana sem rannsóknir hans áttu beinan þátt í má til dæmis nefna líffræðilegt hlutverk B1 vítamíns, smíð ATP um oxandi fosfórun, ljósefnafræðilega afoxun pýridínkirna í ljóstillífun og ýmislegt fleira tengt grunnefnaskiptum lifandi frumna.[1]
Árið 1959 deildi hann nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði með Arthur Kornberg fyrir þátt sinn í að útskýra hvernig kjarnsýrurnar, RNA og DNA, eru smíðaðar í lifandi frumum.