Maóríska

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Maoríska
Māori / Te Reo
Málsvæði Nýja-Sjáland
Heimshluti Pólýnesía
Fjöldi málhafa 60.000 (2009)
150.000 (2013) með einhverja færni
Ætt Malay-pólýnesískt
 Úthafsmál
  Pólýnesískt
   Austurpólýnesískt
    Tahítískt
     Maóríska
Skrifletur Latneskt letur
Opinber staða
Opinbert
tungumál
Fáni Nýja Sjálands Nýja-Sjáland
Stýrt af Te Taura Whiri i te Reo Māori
Tungumálakóðar
ISO 639-1 mi
ISO 639-2 moa (B)
mri (T)
ISO 639-3 mri
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode.

Maóríska (Māori, borið fram [ˈmaːɔɾi], kallast einnig Te Reo „tungumálið“) er pólýnesískt mál og mál Maóra, frumbyggja Nýja-Sjálands. Maóríska hefur verið opinbert tungumál á Nýja-Sjálandi frá árinu 1987. Maóríska er náskyld frumbyggjamálum Cook-eyja og Túamótúeyja sem og tahítísku.

Samkvæmt könnun sem framkvæmd var árið 2001 á stöðu maórísku tala um það bil 9% Maóra hana reiprennandi, eða 30.000 manns. Samkvæmt manntalinu 2006 búa um það bil 4% Nýja-Sjálendinga, eða 23,7% Maóra, yfir nógu góðri færni í maórísku til þess þeir geta átt stutt samtal á því máli.

Í upphafi var maóríska ekki rituð. Árið 1814 komu trúboðar til Nýja-Sjálands með latneskt letur. Seinna meir vann Samuel Lee málfræðingur saman með ættflokkshöfðingjanum Hongi Hika að stöðluðu ritmáli fyrir maórísku sem var tekið upp árið 1820. Rithátturinn var mjög hljóðréttur og hann hefur ekki breyst mikið síðan þá.

Hljóðkerfi[breyta | breyta frumkóða]

Í maórísku eru fimm aðgreinanleg sérhljóð og tíu samhljóðahljóðön.

Sérhljóð[breyta | breyta frumkóða]

Sérhljóðalengd í maórísku er hljóðanabundin. Fjögur af fimm löngum sérhljóðum koma fyrir í aðeins fáeinum orðstofnum: undantekningin er [/aː/]. Í maórísku eru löng sérhljóð táknuð með lengdarmerki (e. macron). Hjá eldri málhöfum eru löng sérhljóð uppmæltari og stutt sérhljóð eru miðlægari, sérstaklega með opna sérhljóðið, sem er borið fram [aː] langt en [ɐ] stutt. Hjá yngri málhöfum eru bæði langa og stutta sérhljóðið borin fram sem [a], eini munurinn er lengdin. Hjá eldri málhöfum er [/u/] frammælt eingöngu á eftir [/t/], annars er það borið fram [u]. Hjá yngri málhöfum er það frammælt sem [ʉ] alls staðar eins og á nýsjálenskri ensku.

Eins og í öðrum pólýnesískum málum er lítill munur á tvíhljóðum og sérhljóðarunum. Þegar sérhljóð eru í sama atkvæði eru næstum því allar samsetningar sérhljóða leyfilegar. Allar mögulegar samsetningar stuttra sérhljóða koma fyrir og eru aðgreinanlegar.

Í eftirfarandi töflu má sjá sérhljóðahjóðönin fimm og þeirra hljóðbrigði eftir því sem við á.

Nálægt Hálffjarlægt Fjarlægt
Frammælt i u [ʉ]
Hálfuppmælt e [ɛ] o [ɔ]
Uppmælt a [a], [ɒ]

Samhljóð[breyta | breyta frumkóða]

Samhljóðahljóðön maórísku má sjá á eftirfarandi töflu. Sjö af tíu samhljóðum maórísku eru borin fram á sama hátt og hljóðritun Alþjóðlega hljóðstafrófsins gerir ráð fyrir. Hljóðritanir eru gefna upp fyrir þau samhljóð sem eru með rithátt sem samræmist ekki Alþjóðlega hljóðstafrófinu.

Tvívaramælt Tannbergsmælt Uppgómmælt Raddbandamælt
Ófráblásin lokhljóð p t k
Önghljóð wh
[f, ɸ]
h
Nefhljóð m n ng
[ŋ]
Sláttarhljóð r
[ɾ]
Nálgunarhljóð w

Málfræði[breyta | breyta frumkóða]

Biggs (1998) þróaði kenningu um að grunneining í maórísku væri liðurinn frekar en orðið. Orðasafnsorðið er „haus“ liðarins. Nafnorð teljast vera þeir hausar sem geta tekið með sér ákveðinn greini en geta ekki verið kjarni sagnliðar, til dæmis ika „fiskur“ eða rākau „tré“. Fleirtölu má tákna með ýmsum hætti, t. d. með ákveðnum greini (te í eintölu og ngā í fleirtölu); ábendingarögnum tērā rākau „þetta tré þarna“, ērā rākau „þessi tré þarna“; eða eignarfornöfnum taku whare „húsið mitt“, aku whare „húsin mín“. Stundum er sérhljóð lengt til að sýna fleirtöluna, svo sem wahine „kona“ : wāhine „konur“.

Stöðuorð (e. statives) geta þjónað tilgangi hausa í sagnliðum, svo sem ora „á lífi“ eða tika „sem hefur rétt fyrir sér“, en ekki í þolmyndarmerkingu. Uppbygging setninga með stöðuorðum er ólík byggingu annars konar setninga.

Staðarhausar (e. locative bases), eins og runga „fyrir ofan“, waho „fyrir utan“, ásamt örnefnum, geta komið á eftir staðarögninni ki „til, að“: t.d. ki Tamaki „til Auckland“.

Persónuhausar (e. personal bases), eins og mannanöfn, geta tekið persónugreininn a á eftir ki, t.d. ki a Hohepa „til Jósefs“.

Agnir[breyta | breyta frumkóða]

Eins og í öðrum pólýneskískum málum er ríkur forði agna í maórísku, meðal annars sagnagnir, fornöfn, staðaragnir, ábendingaragnir og eignaragnir.

Sagnagnir tákna horf, tíð eða hátt sagna sem þær eru notaðar með. Sem dæmi má nefna ka (byrjunarhorf), i (fortíðarhorf), kua (lokið horf) og kia (viljahorf). Í maórísku er ekki greint skýrt á milli horfa, tíða og hátta eins og í indóevrópskum málum. Staðaragnir eiga við stað eða tíma, svo sem ki „til, að“, kei „við, hjá“, i „í fortíðinni“ og hei „í framtíðinni“. Eignaragnir skiptast í a og o eftir því hvernig sambandinu milli aðila er háð: ngā tamariki a te matua „börn foreldrisins“ á móti te matua o ngā tamariki „foreldri barnanna“.

Meðal ábendingaragna eru greinarnir te (et.) og ngā (ft.) og eignaragnirnar og . Þessar agnir má einnig nota með fornöfnum. Ábendingaragnir gefa upplýsingar um fjarlægð hlutar frá mælandum, t. d. tēnei „þetta nálægt mér“, tēnā „þetta nálægt þér“, tērā „fjarlægt okkur báðum“ og taua „hið fyrrnefnda“. Aðrar ábendingaragnir eru til dæmis tēhea? „hvaða?“ og tētahi „ákveðinn, nokkur“. Fleirtala ábendingaragna sem byrja á t er mynduð með því að sleppa t-inu: tēnei „þetta“ : ēnei „þessi“.

Óákveðni greinirinn he kemur yfirleitt á undan liðnum sem hann á við. Hann gefur engar upplýsingar um tölu.

He tāne Maður Nokkrir menn
He kōtiro Stelpa Nokkrar stelpur
He kāinga Þorp Nokkur þorp
He āporo Epli Nokkur epli

Persónugreinirinn a er notaður með öllum sérnöfnum. Sérnöfn taka yfirleitt ekki með sér ákveðinn eða óákveðinn greini nema hann sé óaðskiljanlegur hluti af nafninu.

Kei hea, a Pita? „Hvar er Pétur?“
Kei Ākarana, a Pita. „Pétur er í Auckland“.
Kei hea, a Te Rauparaha? „Hvar er Te Rauparaha?“
Kei tōku kāinga, a Te Rauparaha. „Te Rauparaha er heima hjá mér“.

Persónufornöfn[breyta | breyta frumkóða]

Eintala Tvítala Fleirtala
1.
(viðmælandi
meðtalinn)
- tāua tātou
1.
(viðmælandi ekki meðtalinn)
au / ahau māua mātou
2. koe kōrua koutou
3. ia rāua rātou
Skýringarmynd sem sýnir merkingu fornafna á maórísku. Mælandinn er merktur grænu, viðmælandinn merktur bláu og aðrir merktir gráu.

Eins og í öðrum pólýnesískum málum eru þrjár tölur í persónufornafna- og ábendingarfornafnakerfinu: eintala, tvítala og fleirtala. Ekki er greint á milli kynja. Tölurnar þrjár má sjá í þriðju persónu fornöfnunum ia „hann/hún“, rāua „þeir/þær/þau tvö“, rātou „þeir/þær/þau (þrjú eða fleiri)“. Aðgreininguna má einnig sjá í annarri persónu:

  • Tēnā koe „sæll vertu“,
  • Tēnā kōrua „sæl verið þið (tvö)“,
  • Tēnā koutou „sæl verið þið (fleiri en tvö)“.

Í tvítölu og fleirtölu er greint á milli tvenns konar „við“: þar sem viðmælandinn er talinn með annars vegar og þar sem viðmælandinn er ekki talinn með hins vegar. Fornafnið mātou á við mælandann og aðra en ekki viðmælandann, þar sem tātou á við mælandann, viðmælandann og aðra.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  • Biggs, Bruce (1998). Let's Learn Māori. Auckland: Auckland University Press.