Nýsjálensk enska
Nýsjálensk enska er sú enska mállýska sem meirihluti Nýsjálendinga talar. Enska er ásamt maórísku og nýsjálensku táknmáli opinbert tungumál á Nýja-Sjálandi. Enska er móðurmál meirihluta Nýsjálendinga.
Enska barst fyrst til Nýja-Sjálands með breskum nýlendubúum á 19. öld. Hún er „eitt nýjasta tilbrigði innfæddra enskumælandi málhafa sem til er, tilbrigði sem hefur þróast og orðið greinilegt einmitt á síðustu 150 árum.“ Nýsjálensk enska hefur sætt áhrifum frá ástralskri ensku, suðurenskri ensku, írskri ensku, skoskri ensku og maórísku. Nýsjálenskri ensku svipar mest til ástralskrar ensku hvað varðar framburð.
Ritreglur nýsjálenskrar ensku eru að mestu leyti eins og þær fyrir breska ensku, þó einhver munur sé. Ekki tala allir Nýsjálendingar með sama hreim, sumir eru með hreim sem svipar meira til ensku efri stéttanna á Bretlandi.