Fara í innihald

Loðvík 9.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lúðvík níundi)
Loðvík helgi. Mynd úr handriti frá 13. öld.

Loðvík 9. (25. apríl 121425. ágúst 1270) eða Loðvík helgi var konungur Frakklands frá 1226 til dauðadags. Hann er eini konungur Frakklands sem tekinn hefur verið í helgra manna tölu og heita margir staðir eftir honum, svo sem borgin St. Louis í Bandaríkjunum.

Ríkisár Loðvíks

[breyta | breyta frumkóða]

Loðvík var af Kapet-ætt, sonur Loðvíks 8. og Blönku af Kastilíu. Faðir hans dó 8. nóvember 1226, þegar hann var tólf ára að aldri, og var hann krýndur skömmu síðar í Reims. Móðir hans var ríkisstjóri fyrstu árin. Talið er að Loðvík hafi tekið við stjórnartaumum árið 1234 en Blanka varð áfram einn helsti ráðgjafi hans, allt þar til hún lést 1252.

Ríkisár Loðvíks voru blómaskeið í sögu Frakklands, bæði efnahagslegt og pólitískt. Ríki hans var þá stærsta og auðugasta konungsríki Evrópu og hann réð yfir stærsta hernum. Frakkaland var einnig miðpunktur lista og mennta í álfunni á valdatíma Loðvíks. Hann naut mikillar virðingar, ekki aðeins vegna þess hve valdamikill hann var, heldur einnig vegna þess að hann þótti réttlátur og sanngjarn og hann var oft fenginn til að gegna hlutverki sáttasemjara þegar aðrir höfðingjar deildu.

Konungurinn var þekktur fyrir trúrækni sína og trúarhita. Um 1240 keypti hann af Baldvin 2., keisara í Konstantínópel, þyrnikórónu Kristst og brot úr hinum helga krossi og greiddi fyrir 135.000 livres. Yfir þessa helgigripi reisti hann svo Sainte Chapelle, hina heilögu kapellu, við konungshöll sína. Til þess að fjármagna þetta, svo og fyrri krossferð sína, gerði hann alla gyðinga sem stunduðu lánastarfsemi útlæga úr ríki sínu og gerði eignir þeirra upptækar en felldi ekki niður lán sem kristnir menn skulduðu gyðingunum, heldur hirti afborganirnar sjálfur. Hann lét líka brenna um 12.000 gyðingleg handrit í París árið 1243.

Fyrri krossferðin

[breyta | breyta frumkóða]
Loðvík í Sjöundu krossferðinni.

Loðvík fór í tvær krossferðir, fyrst í Sjöundu krossferðina 1248 og svo aftur árið 1270 í Áttundu krossferðina. Þegar hann fór í fyrri krossferðina gerði hann móður sína að ríkisstjóra. Hann byrjaði á að ná hafnarborginni Damietta í Egyptalandi á sitt vald í júní 1249 og hélt þaðan yfir óshólmasvæði Nílar áleiðis til Kaíró. Ferðin gekk hægt og þann 6. apríl 1250 beið her Loðvíks lægri hlut fyrir her mamlúka í orrustunni við Fariskur og Loðvík féll í hendur Egypta. Þeir kröfðust lausnargjalds sem nam 400.000 livres en á þessum tíma voru árstekjur franska ríkisins aðeins um 250.000 livres.

Margrét drottning, kona Loðvíks, sem var með honum í krossferðinni og lá á sæng í Damietta þegar fréttir bárust af því að konungur hefði verið handsamaður, aflaði fjár fyrir lausnargjaldinu, meðal annars með því að fá lán hjá Musterisriddurum, en raunar var aldrei nema hluti lausnargjaldsins greiddur.

Eftir að Loðvík slapp úr haldi Egypta var hann næstu fjögur árin í krossfararíkjunum Akkó, Caesarea og Jaffa og vann meðal annars að því að styrkja varnir þeirra og reyna að koma á diplómatískum tengslum við múslimaríkin í kring. Margrét drottning var með honum og fæddust þeim þar tvö börn til viðbótar. Þegar Loðvík hélt heimleiðis skildi hann eftir allstórt herlið í Akkó til að verja borgina gegn árásum múslima.

Síðari krossferðin og dauði

[breyta | breyta frumkóða]
Dauði Loðvíks helga í Túnis.

Um 1265 náði mamlúkasoldánninn Baibars allmörgum borgum í Landinu helga úr höndum krossfara. Loðvík efndi þá til Áttundu krossfararinnar en hafði ekki eins mikinn stuðning og þegar hann lagði í þá sjöundu. Bróðir Loðvíks, Karl Sikileyjarkonungur, taldi hann á að ráðast fyrst á Túnis því þar væri gott að hafa bækistöð þegar ráðist yrði til atlögu við Egypta.

Loðvík hélt af stað sumarið 1270 og lenti í Túnis í júlí. Það var versti árstíminn til hernaðar þar. Drykkjarvatn var óhæft og stór hluti hersins veiktist fljótlega. Þann 25. ágúst, daginn eftir að Karl bróðir Loðvíks kom með liðsauka, dó konungurinn sjálfur. Sagt er að andlátsorð hans hafi verið „Jerúsalem“.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Kona Loðvíks var Margrét af Provence, elst fjögurra dætra Ramon Berenguer 4., sem allar voru orðlagðar fyrir fegurð og urðu allar drottningar. Þau áttu ellefu börn og komust níu þeirra upp en elsti sonurinn, Loðvík, dó þó tæplega sextán ára. Það var því Filippus bróðir hans sem tók við ríkjum við lát föður síns. Þriðji sonurinn, Jóhann Tristan, sem fæddur var í Damietta í fyrri krossferðinni, dó úr blóðkreppusótt í Túnis eins og faðir hans. Yngsti sonurinn, Róbert, varð ættfaðir hertoganna af Bourbon og þegar Valois-ættin dó út með Hinrik 3. árið 1589 þurfti að fara aftur til Róberts til að finna ríkiserfingja en til hans átti Hinrik 4. Frakkakonungur ætt að rekja í tíunda lið í karllegg.


Fyrirrennari:
Loðvík 8.
Konungur Frakklands
(12261270)
Eftirmaður:
Filippus 3.