Fara í innihald

Kristofer Heidemann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristofer Heidemann (Christoffer Heedemann) (um 16231703) var danskur embættismaður sem var fyrsti landfógeti Íslands á árunum 1683-1693 og gegndi jafnframt hlutverki amtmanns um fimm ára skeið.

Faðir hans var Johannes Heidemann, hafnarstjóri í Kaupmannahöfn og síðar landfógeti í Færeyjum. Heidemann var skipaður landfógeti árið 1683, þegar embættið var stofnað, og fór þá þegar til Íslands og settist að á Bessastöðum með fjölskyldu sína. Jafnframt var stofnað embætti amtmanns en þar sem ekki var skipað í það strax gegndi Heidemann amtmannsembættinu fyrstu árin. Christian Müller var svo skipaður amtmaður á Íslandi 1688 og kom þá til landsins en þar sem hann var ókunnugur öllu og ekki mikill skörungur leituðu bæði hann og aðrir til Heidemanns og réði hann því áfram mjög miklu meðan hann var á landinu.

Heidemann stóð fyrir því á Alþingi sumarið 1692 að láta tjalda yfir Lögréttu með vaðmáli en áður hafði rétturinn verið haldinn undir berum himni. Hann endurbætti líka húsakynni á Bessastöðum, bæði embættisbústað og kirkju. Þeir Sigurður Björnsson lögmaður voru miklir vinir og fékk Heidemann meðal annars í gegn að lögmannslaun voru hækkuð.

Jón Halldórsson í Hítardal segir um hann í Hirðstjóraannál að hann hafi verið „bæði skarpur og stórmannlegur á hvora síðuna sem hann sneri sér“. Hann lýsir honum jafnframt svo að hann hafi verið „fyrirmannleg persóna að ásýnd, orðfæri og skarpleik, glaðlyndur og örlátur við vini sína og fólk sem veittu honum hús og greiða á hans reisum, en hinum þungur eður þeim, er sýndu sig stóra ... Hann var gestrisinn og stórveitingasamur og stóðst því vart rausn sína.“

Heidemann þótti sérlega harðdrægur fjáraflamaður og var sagt að hann hefði flutt með sér fjóra hestburði af silfri og öðrum peningum þegar hann fór frá landinu. Hann flutti til Danmerkur með konu sína og börn sumarið 1692 en kom þó aftur sumarið eftir til að afhenda Bessastaði og telst því ekki hafa látið af embætti fyrr en þá.

Kona hans var Sophia Amalia Pfeiff, dóttir Daniels Pfeiff prests og guðfræðiprófessors í Kaupmannahöfn. Heidemann varð amtmaður í Nordlandsamti í Noregi 1694 en lenti í miklum deilum og málaferlum sem hann vann að lokum en dó skömmu síðar í Kaupmannahöfn, stórskuldugur, og bjuggu kona hans og börn við örbirgð.