Fara í innihald

Páll Pétursson Beyer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Páll Beyer)

Páll Pétursson Beyer (d. 1717) var norskur maður sem var umboðsmaður og síðan landfógeti á Íslandi snemma á 18. öld og gegndi jafnframt embætti amtmanns þótt ekki bæri hann þann titil.

Ætt hans er ókunn en hann kom hingað sem þénari eða smásveinn Christians Müllers amtmanns árið 1688 og var í þjónustu hans um tíma en varð síðan undirkaupmaður í Grundarfirði og Stykkishólmi í nokkur ár. Þegar Jens Jörgensen var bolað úr umboðsmannsstarfinu árið 1702 var Páll Beyer settur í hans stað og starfaði sem landfógeti næstu ár.

Árið 1706 sigldi hann til Kaupmannahafnar með jarðabókina og kom aftur vorið eftir og hafði þá fengið landfógetaembættið. Sama sumar yfirgaf Müller amtmaður landið fyrir fullt og allt þótt hann héldi embættti sínu áfram og sinnti Páll einnig störfum amtmanns og stiftamtmanns næsta árið. Oddur Sigurðsson lögmaður fékk þó fljótt umboð stiftamtmanns en Páll gegndi amtmannsembættinu í umboði Müllers. Skiptu þeir Oddur landinu í raun á milli sín, þannig að Oddur réði öllu norðan lands og vestan en Páll sunnan og austan. Næstu níu árin voru þeir valdamestu menn landsins og var það enginn friðsemdartími því báðir voru drykkfelldir og róstusamir uppivöðsluseggir. Í veislu á Alþingi 1708 flugust þeir á í illu og er sagt að nærri hafi legið að þeir stórsköðuðu hvor annan.

Séra Jón Halldórsson í Hítardal segir í Hirðstjóraannál: „Var honum mannlega háttað í mörgu við ekkjur og fátæklinga og aðra, sem fyrir því urðu, þá hann var gáður. Enginn spekingur var hann haldinn og hneigður mjög til drykkjuskapar, og með honum óviti og ofstopasamur, hvert er truflaði hans reikninga, sem mjög voru óklárir eftir hann, mörgum til mæðu og skaða, og kölluðu sumir hans heppni, að hann var frá, áður en til reikninganna kæmi.“ Hér vísar séra Jón til þess að Páll var kallaður utan 1717 þar sem hann hafði ekki staðið skil á afgjöldum af landinu í nokkur ár. Var Kornelíus Wulf sendur til að gegna landfógetaembættinu á meðan Páll væri erlendis að ganga frá sínum málum. Kona Páls og börn sigldu burt með kaupskipi en sjálfur fór hann með herskipi um haustið, veiktist undan Noregsströndum og dó í Stafangri.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Metta Hansdóttir í Vík. Lesbók Morgunblaðsins, 7. febrúar 1998“.