Fara í innihald

Vaðmál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vaðmál er þykkofið ullarefni með skávend og var notað í ýmis konar klæði, ábreiður, tjöld og segl. Vaðmál til klæðagerðar var unnið í svokölluðum kljásteinavefstól. Á íslenskum sveitabæjum var vaðmál ofið bæði til heimilisnota og sem gjaldmiðill. Á miðöldum voru vöruskipti algengasti verslunarmátinn og verðgildi hluta var miðað við vaðmál (álnir vaðmáls) og kýr (kúgildi).

Á þjóðveldisöld var ullin þvegin, kembd, spunnin og ofin í mislanga vaðmálsstranga. Það voru framleiddar tvær tegundir vaðmáls en það voru vöruvaðmál og hafnarvaðmál. Vöruvaðmál sem einnig var kallað vara var ódýrara og óvandaðra. Allt verðlag var miðað við alin vöru. Eitt kýrverð var metið til 120 álna vaðmáls.

Vaðmál er talið ein helsta útflutningsverslunarvara Íslendinga frá tólftu öld og fram á þá fjórtándu. Flestar vörur voru verðlagðar í vaðmáli en kvikfénaður var metinn í kúgildum. Hundrað að fornu merkti fyrst 120 álnir vaðmáls þar sem hver alin skyldi vera af tilskilinni stærð og réttum gæðum. Þegar fram leið urðu tengslin við vaðmálið ógleggri og virðast vera með öllu horfin á 17. öld.

Vaðmál sem ætlað var til sparifata var þæft og litað úr brúnspæni og járnvitrióli og var litarefnið keypt í kaupstöðum. Spariföt voru einnig lituð svört og það gert með hellulit. Rekkjuvoðir voru úr hvítu vaðmáli og brekán úr grófu tvöföldu bandi alla vega litu.


Nokkur orð tengd vaðmáli

[breyta | breyta frumkóða]
  • belghempa var til forna karlmannsyfirhöfn til ferðalaga, úr grófu vaðmáli, hnésíð, ófóðruð og skrautlaus, stutthempa.
  • dembúll nefnist húfa með eyrnaskjólum sem bretta má upp, prjónuð eða saumuð úr vaðmáli.
  • doppa nefndist sjóflík, sem var hnésíður stakkur úr grófu þykku vaðmáli.
  • gáraber er lýsingarorð sem haft er um vaðmál með upphleypt vígindi (munstur).
  • hafnarvaðmál annað orð yfir hafnarvoð.
  • hafnarvoð nefnist vaðmál notað í yfirhafnir af ýmsum gerðum og því misdýrt.
  • hrip er gróft vaðmál.
  • hríðarhempa nefnist fjúkúlpa, ófóðruð yfirhöfn úr vaðmáli, hneppt upp í háls.
  • mórend vara nefndist brúnröndótt vaðmál.
  • pakkaeinskefta nefnist óvandað einskeftuvaðmál unnið til útflutnings.
  • pakkavaðmál nefndist venjulegt vaðmál.
  • spýtingur nefnist pakki af vaðmáli.
  • stórgubbur er nafn á vaðmálsflík.
  • voðbeður nefnist vaðmálsklædd rekkja.
  • voðvirkja er sögn sem merkir að vinna vaðmál.
  • Helgi Þorláksson. Vaðmál og verðlag:vaðmál í utanríkisviðskiptum og búskap Íslendinga á 13. og 14. öld, 1991