Fara í innihald

Sigurður Björnsson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður Björnsson (1. febrúar 16431723) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. og 18. öld. Hann er fyrirmyndin að Eydalín lögmanni í Íslandsklukkunni.

Sigurður var sonur Björns Gíslasonar bónda í í Bæjarsveit og konu hans, Ingibjargar Ormsdóttur. Hann er sagður hafa verið mikill búmaður og vel að sér í lögfræði og ættvísi og er til brot úr ættartölubók eftir hann. Hann var landskrifari frá 1670 en árið 1677 var hann kosinn lögmaður sunnan og austan eftir lát Sigurðar Jónssonar lögmanns. Sama haust giftist hann dóttur Sigurðar, Ragnheiði. Þau bjuggu í Eyjum í Kjós, Saurbæ á Kjalarnesi og víðar.

Árið 1683 varð Sigurður sýslumaður í Kjósarsýslu. Árið 1685 samdi hann ásamt fleirum svonefnda Bessastaðapósta, sem fjalla um húsgangsfólk, lausamenn, vinnufólk og fleira og voru þeir samþykktir á Alþingi og oft byggt á þeim í dómum síðan.

Í lögmannstíð Sigurðar urðu miklar breytingar á stjórnarháttum, rentukammerið í Kaupmannahöfn tók smátt og smátt yfir þá stjórn sem höfuðsmenn og fógetar þeirra höfðu haft, höfuðsmanns- eða hirðstjóraembættið var lagt af en í staðinn komu stiftamtmenn og amtmenn. Vald lögmanna minnkaði smám saman og fór oft svo að mál lágu mjög lengi hjá þeim óafgreidd.

Árið 1697 var Páll Vídalín skipaður varalögmaður Sigurðar og skyldi fá lögmannsembættið á eftir honum. Þessi ráðstöfun var þó gerð í andstöðu við Sigurð og kastaðist fljótt í kekki með honum og þeim Páli og Árna Magnússyni. Sigurður sagði af sér lögmannsembætti eftir Alþingi 1705 og tók Páll við árið eftir. Árni og Páll dæmdu Sigurð í háar fjársektir og frá embætti (sem hann hafði þó sagt af sér) og virðingu á Alþingi 1708 en Sigurður vann fullan sigur fyrir hæstarétti í Kaupmannahöfn 1713 og fékk sér dæmdar skaðabætur.

Ragnheiður kona Sigurðar (164813. mars 1727) var sem fyrr segir dóttir Sigurðar Jónssonar lögmanns. Á meðal barna þeirra var Sigurður sýslumaður og alþingisskrifari.


Fyrirrennari:
Sigurður Jónsson
Lögmaður sunnan og austan
(16771705)
Eftirmaður:
Páll Vídalín